Ég ætla mér að búa í miðbænum í framtíðinni. Í gömlu timburhúsi og eiga tvo ketti sem heita herðatré og jólatré,“ sagði Bryndís Klara Birgisdóttir og hnippti í vinkonu sína á Menningarnótt.
Því miður varð þessi draumur hennar ekki að veruleika. Bryndís Klara varð fyrir hnífstunguárás sama kvöld og lést nokkrum dögum síðar af sárum sínum. Hún var 17 ára gömul.
Jarðarför Bryndísar Klöru fór fram í Hallgrímskirkju í dag. Þétt var setið í kirkjunni og um 4.500 manns fylgdust með jarðarförinni í beinu streymi. Enn víðar minntist fólk Bryndísar Klöru en boðað var til minningarstöðu framan við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð á sama tíma og jarðarförin fór fram. Landsmenn allir voru jafnframt hvattir til að kveikja á friðarkerti í dag til að minnast Bryndísar Klöru.
„Sorg ykkar er sorg okkar allra“
Í minningarorðum sínum sagði séra Guðni Már Harðarson að þjóðin byggi við laskaða öryggiskennd í kjölfar árásarinnar og að ráðamenn þyrftu að grípa til aðgerða. Foreldrar Bryndísar Klöru hafa kallað eftir því að kærleikur verði að eina vopninu í samfélaginu og að óbærileg fórn Bryndísar Klöru muni bjarga mannslífum.
„Sorg ykkar er sorg okkar allra,“ sagði Guðni við jarðarför Bryndísar Klöru í dag og beindi orðum sínum til foreldra Bryndísar Klöru, Birgis og Iðunnar, og yngri systur hennar Vigdísar Eddu.
„Við treystum því að líf Bryndísar Klöru muni bjarga mörgum mannslífum. Kæru ráðamenn. Það verður ekki nóg að stafsetja eitthvað á blað. Við sem samfélag búum við laskaða öryggiskennd og þurfum að finna fyrir aðgerðunum,“ sagði Guðni.
Ósanngjarnt líf
Hann vitnaði í orð Vigdísar sem skrifaði Bryndísi Klöru bréf þegar útlit var fyrir að hún myndi ekki hafa það af.
„Þú ert besta systir í heimi og ég mun sakna þín. Þú verður bráðum besti engill í heimi. Ég vil að þú sért hér heima að leika með mér en svona er lífið. Þótt það sé ósanngjarnt þá verður maður að berjast,“ skrifaði Vigdís og teiknaði undir 20 hjörtu.
„Það er ekkert réttlæti í því að við séum hér í dag,“ sagði Guðni. „Það er svo stutt síðan hún gekk hér í hópi vina á menningarnótt.“
„Við treystum því að líf Bryndísar Klöru muni bjarga mörgum mannslífum“
Guðni vék í lokin tali sínu að miklum bangsímonáhuga Bryndísar Klöru og því þegar hún spurði foreldra sína hvort hún mætti fá sér bangsímonhúðflúr á innanverðan handlegginn. Þau bentu henni á að henni þætti það kannski ekki eins krúttleg hugmynd þegar hún yrði áttræð. Hún gæti þó tekið ákvörðun þegar hún yrði 18 ára. En nú hafa foreldrarnir ákveðið að fá sér slíkt húðflúr í minningu Bryndísar Klöru og varðar þau lítið um það hvað öðrum kann að finnast þegar þau verða áttræð.
Bangsímon fylgdi Bryndísi Klöru og mun nú fylgja foreldrunum
Snjáð tuskubrúða af bangsímon fylgdi Bryndísi Klöru gjarnan. Vigdís Edda lagði þessa brúðu hjá Bryndísi Klöru á gjörgæslunni. Hún sá jafnframt til þess að brúðan fylgdi henni í kistuna, sagði Guðni.
Foreldrum Bryndísar Klöru hafa borist ótal kveðjur og þeim hélt áfram að rigna inn meðfram streyminu frá jarðarförinni. Á meðal þeirra sem sendu inn sína kveðju fyrir jarðarförina var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti.
„Sorg ykkar er sorg okkar allra,“ sagði Vigdís.
Athugasemdir (2)