Bryndís Klara Birgisdóttir var 17 ára og sex mánaða gömul þegar hún lést á gjörgæsludeild Landspítala 30. ágúst síðastliðinn. Hún lét eftir sig foreldrana Iðunni Eiríksdóttur og Birgi Karl Óskarsson, sem og Vigdísi, átta ára gamla systur sína.
Bryndís var jarðsungin við athöfn í Hallgrímskirkju í dag. Séra Örn Bárður Jónsson og séra Guðni Már Harðarson jarðsungu Bryndísi en organisti var Gunnar Gunnarsson.
Sigríður Thorlacius söng og Karlakórinn Fóstbræður, undir stjórn Árna Harðarsonar, sömuleiðis.
Hér að ofan má nálgast streymi frá athöfninni.
Mikill fjöldi minnist Bryndísar Klöru
Íslendingar voru slegnir eftir andlát Bryndísar sem bar að eftir hnífstunguárás sem hún varð fyrir á Menningarnótt. Þrír eru með réttarstöðu grunaðs vegna árásarinnar, þar á meðal 16 ára drengur sem talinn er tengjast henni með beinum hætti.
Bryndísar hefur verið minnst víða um land, meðal annars með því þegar menntaskólanemendur og fleiri hafa klætt sig í bleikt í minningu hennar. Þá mættu einhver hundruð á minningarathöfn um Bryndísi um síðustu helgi.
Minningarsjóður og ákall eftir öruggara samfélagi
Sérstakur sjóður hefur verið stofnaður í minningu Bryndísar.
„Sjóðurinn mun styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig,“ sagði í tilkynningu um sjóðinn.
Þá hafa foreldrar og aðstandendur Bryndísar kallað eftir því að fólk velji „líf en ekki hníf“.
„Við biðlum til allra sem bera hnífa að skila þeim til lögreglunnar. Foreldrar Bryndísar óska þess að dauði hennar verði til þess að vopnaburður heyri sögunni til og kærleikurinn verði eina vopnið. Stöndum saman fyrir öruggara og betra samfélagi.“
Minningarsjóður Bryndísar Klöru
Kennitala: 430924-0600
Bankareikningur: 515-14-171717
Athugasemdir