Forstjóri Matvælastofnunar (MAST) og tveir starfsmenn stofnunarinnar hafa kært skrif sem birtust í aðsendri grein á Vísi til lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Í greininni, sem birtist á Vísi um miðjan júlí undir yfirskriftinni Af glyðrugangi eftirlitsstofnana, segir m.a. að starfsfólk MAST skaki „sér í skrifstofustólum svo skrjáfi í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafi stungið í vasa þeirra um leið og þeir skrifi upp á rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar“. Greinarhöfundurinn, Ester Hilmarsdóttir, titlar sig sem náttúruunnanda, landeiganda og bændadóttur búsetta í Þingeyjarsveit.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, segir í samtali við RÚV að svo alvarlega sé vegið að starfsfólki að þörf sé á að grípa inn í. Í tilkynningu frá MAST vegna kærunnar segir að stofnunin vinni faglega að umsóknum um rekstrarleyfi til fiskeldis og veitir rekstrarleyfi til fiskeldis ef umsóknir uppfylla skilyrði laga og reglugerða, samkvæmt hlutverki stofnunarinnar. „Forstjóri stofnunarinnar og starfsmenn sem komu að meðferð og útgáfu rekstrarleyfisins telja að með framkominni aðdróttun sé alvarlega vegið að heiðri og æru þeirra og því verði ekki komist hjá öðru en að kæra skrifin til lögreglu“, segir í tilkynningunni.
Ester hefur sömuleiðis sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem hún hafnar því að nokkuð saknæmt sé að finna í skrifum hennar. Þá hefur henni enn ekki borist formleg kæra vegna málsins.
Athugasemdir (1)