Mantran góða „þetta reddast“ hefur komið Íslendingum að góðu gagni í gegnum tíðina. Þannig getum við frestað því að horfast í augu við vandamál með þeirri von að eitthvað gerist sem leysi það. Þetta viðhorf getur verið hjálplegt í einstaka minni málum en það er ekki í lagi þegar þessi mantra verður að opinberri stefnu í mikilvægum málaflokkum á borð við heilbrigðisþjónustu.
Staða heilbrigðiskerfisins í dag er ekki sjálfbær þegar kemur að mönnunarþörf. Reglulega heyrum við í fréttum af stöðu einstakra deilda innan einstakra heilbrigðisstofnana, við þurfum að hafa í huga að það er einungis birtingarmynd af stærra vandamáli sem er ósjálfbær mönnun heilbrigðiskerfisins. Við höfum ótal gögn sem sýna svart á hvítu mikilvægi þess að vera með vel menntaða hjúkrunarfræðinga við störf. Við sjáum einnig að þjóðin er að eldast hratt og verkefni hjúkrunarfræðinga verða sífellt flóknari.
Reddingar
Viðhorfskönnun sem gerð var í fyrra meðal hjúkrunarfræðinga sýndi að á síðustu tveimur árum hafa margir alvarlega íhugað að hætta störfum, þar spila launakjörin stórt hlutverk. Margir mæta reglulega til vinnu þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi sjúklinga, höfðað er til samvisku þeirra um að taka að sér aukna vinnu ásamt því að margir hafa áhyggjur af því að lenda í alvarlegu atviki við störf.
„Það er búið að segja við hjúkrunarfræðinga í áraraðir að hlaupa hraðar“
Þetta stóra vandamál hefur blasað við í áratugi og er stjórnvöldum fullljóst. Reglulega sjáum við dúkka upp í umræðunni um heilbrigðisþjónustuna reddingar um nýtt húsnæði, tækniframfarir og mögulegt átak um að fá menntaða hjúkrunarfræðinga sem starfa á almennum vinnumarkaði aftur til starfa á heilbrigðisstofnanir. Það er vissulega allt gott og gilt en þarna virðist alltaf gleymast að nefna launakjörin.
Byggingar og tæknilausnir
Það er enginn sérfræðingur sem ræður sig til starfa án þess að spyrja út í launin. Inn í heildarkjör hjúkrunarfræðinga þarf að reikna mikla líkamlega vinnu, allan tíma sólarhringsins, álag og ábyrgð á lífum. Það er búið að segja við hjúkrunarfræðinga í áraraðir að hlaupa hraðar og það verður ekki af þeim tekið að þolið er orðið mjög mikið.
Sem betur fer er meðvitund samfélagsins farin að breytast um hvað hjúkrunarfræðingar starfa við í raun, við eygjum það að kerfisbundið vanmat á hefðbundnum kvennastörfum muni einn daginn heyra sögunni til. Hjúkrunarfræðingar hér á landi eru að meðaltali 45 ára, með fjögurra til sex ára háskólanám að baki og um tuttugu ára starfsreynslu. Enginn sem starfar í heilbrigðisþjónustu þarf að skammast sín fyrir að ná að teygja sig upp í mánaðarlaun annarra sem bera mikla ábyrgð. Á bak við þær tölur er gríðarleg vinna og ábyrgð.
Á bak við heildarlaun hjúkrunarfræðinga eru til dæmis greiðslur fyrir vaktaálag, það er greitt fyrir þann tíma sem unninn er utan hefðbundins dagvinnutíma. Þetta á við um vinnu á kvöldin, nóttunni, um helgar og á lögbundnum frídögum eins og t.d. um páska og jól eða þegar aðrir eru í fríi. Oft er viðvarandi krafa um yfirvinnu á hjúkrunarfræðinga og margar aðrar heilbrigðisstéttir, svo hægt sé að veita þá grunnheilbrigðisþjónustu sem við stærum okkur af að sé svo góð og landsmenn gera kröfu um.
Vandi heilbrigðiskerfisins er ekki að reddast. Umræðan og spurningarmerki við heilbrigðiskerfið geta ekki bara snúist um byggingar og einstaka tæknilausnir. Það mætti halda að það sé eitthvert feimnismál að tala um hver eigi að vinna á nýja hjúkrunarheimilinu og hvað viðkomandi eigi að fá greitt fyrir þá vinnu. Það er ekki hægt að taka umræðu um heilbrigðismál án þess að tala um launakjörin.
Höfundur er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Athugasemdir