Ekki alls fyrir löngu gekk ég fram hjá plakati þar sem ég bý í London til kynningar á nýrri plötu hljómsveitarinnar U2. Á plakatið hafði verið krotað: „Borgið skattana ykkar.“
Árið 1969 voru höfundarlaun listamanna gerð skattfrjáls á Írlandi til að styðja við menningu og listir. Írska hljómsveitin U2 naut góðs af framtakinu.
Árið 2006 setti ríkisstjórn Írlands 250.000 evra (38 milljóna króna) þak á afsláttinn. U2 og söngvarinn Bono fluttu samstundis höfundarlaunagreiðslur sínar í skjól til Hollands til að koma sér undan skatti á Írlandi.
En þótt hljómsveitin hafi sparað sér stórfé í skatta greiddi hún fyrir með orðstírnum. Í dag er hljómsveitin nánast jafnþekkt fyrir skattafælni og tónlist.
Fyrr á árinu bárust fréttir af því að breski rithöfundurinn J.K. Rowling væri við það að bætast í hóp þarlendra milljarðamæringa. Hagur Rowling, sem skapaði galdrastrákinn Harry Potter, vænkaðist umtalsvert á síðasta ári. Er virði hennar talið vera 945 milljónir punda.
Viðhorf Rowling til almennrar skattheimtu er hins vegar annað en Bono. Rowling segist leggja sig fram um að greiða eins háa skatta og völ er á. Í viðtali sagðist hún forðast bókhaldsbrellur og önnur töfrabrögð endurskoðenda. „Þegar ég var á botninum í lífi mínu bjargaði velferðarkerfið mér,“ sagði Rowling sem skrifaði Harry Potter á servíettur á kaffihúsum þegar hún var blásnauð, einstæð móðir. „Það væri fyrirlitlegt ef ég stingi af til Vestur-Indía um leið og hillti undir fyrstu sjö tölustafa höfundarlaunaávísunina.“
Að gefa til baka
Hátekjulisti Heimildarinnar leit dagsins ljós í vikunni. Má þar vafalaust finna fólk sem deilir andúð Bono og hljómsveitar hans á sköttum. Birtist almenn skattafælni vel settra Íslendinga til að mynda skýrt í Panamaskjölunum, gögnum um aflandsfélög sem lekið var frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama árið 2016. Í skjölunum var að finna 800 félög sem tengdust 600 Íslendingum. Á topp 10-lista yfir banka heimsins með flesta viðskiptavini í Panamaskjölunum var Landsbankinn í níunda sæti.
„Ég held að flesta dreymi um að eignast mikinn pening“
Íslensku samfélagi til heilla hafa þó einstaklingar sett svip sinn á hátekjulistann síðustu ár sem deila viðhorfi Rowling.
„Ég var að vona að ég yrði sá einstaklingur sem greiddi hæstu skattana á síðasta ári,“ skrifaði tæknifrumkvöðullinn Haraldur Ingi Þorleifsson á Twitter árið 2022. „En ég lenti í öðru sæti og ég lít á það sem heiður að geta gefið til baka til samfélagsins sem skaffaði fötluðum dreng frá verkamannafjölskyldu ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu.“
Árið 2021 hafði Haraldur selt tölvufyrirtæki sitt til Twitter. Haraldur hefði vafalítið getað ráðið knáan endurskoðanda til að fremja gjörning sem lágmarkaði skattgreiðslur af sölu fyrirtækis hans. En Haraldi var í mun að „gefa til baka“ til samfélagsins sem hafði stutt hann. Haraldur lét borga sér fyrir fyrirtækið á formi launatekna. Af þeim greiddi hann 45 prósenta tekjuskatt á Íslandi í stað 22 prósenta fjármagnstekjuskatts eins og tíðkast jafnan þegar fyrirtæki eru seld.
Leitin að tilgangnum
„I still haven’t found what I’m looking for,“ söng Bono með félögum sínum í U2. Tónlistargagnrýnandi tímaritsins The New Yorker sagði lagið fjalla um leitina að tilgangi lífsins. „Það áhugaverða er að maður finnur hann aldrei,“ skrifaði gagnrýnandinn.
Ósagt skal látið hvort Bono hafi fundið það sem hann leitar að. Ólíklegt verður þó að teljast að hann finni það í afrakstri skattasniðgöngu sinnar.
Sá sem hafði fyrsta sætið af Haraldi Inga Þorleifssyni á hátekjulistanum árið 2021 var Magnús Steinarr Norðdahl, fyrrverandi forstjóri LS Retail. Rétt eins og Haraldur Ingi sagðist Magnús greiða skattinn með gleði og kvaðst vona að greiðslurnar nýttust öðrum. Í viðtali við Vísi var Magnús spurður að því hvort erfitt væri að vera ríkur.
„Það er eiginlega sama hvað ég segi, það verður rangt túlkað,“ svaraði Magnús. „Ég held að flesta dreymi um að eignast mikinn pening. En hvað hefur þú að gera við allan þennan pening?“
Spurningin er skemmtilega heimspekileg. Óskandi væri þó að þau sem enn stunda skattasniðgöngu líkt og Bono velti spurningunni fyrir sér í fyllstu alvöru.
Bjarni Ben var í skjölunum fyrir einstaka tilviljun. Kláru strákarnir í bankanum sögðu honum að það væri best fyrir hann að fá sér svona reikning. Skattasniðganga hafði aldrei komið honum í hug. Það sama átti við um Sigmund Davíð. Þau bjuggu í Englandi um tíma, bankastrákarnir sögðu þeim að svona reikningur væri þægilegastur. Það var alls ekki meiningin að stinga neinu undan. Það hefur lítið farið fyrir Wintris undanfarið enda hafa fjölmiðlar fyrir löngu misst áhugann.