Fyrir ári sendi hljómsveitarstjórinn John Eliot Gardiner frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: „Ég harma atvikið sem átti sér stað á Berlioz tónlistarhátíðinni í La Côte-Saint-André síðastliðið þriðjudagskvöld. Það er ekkert sem réttlætir hegðun mína ...“
Tveim dögum fyrr hafði hinn mikilsvirti stjórnandi staðið á sviði í suðaustur Frakklandi og stjórnað óperunni Trójumennirnir eftir franska tónskáldið Hector Berlioz. Uppsetningin komst í heimspressuna þegar fréttir bárust af því að í kjölfar flutningsins hefði hinn áttræði stjórnandi tekið sig til og rekið einum einsöngvaranna kinnhest.
„Ég hef beðið Will Thomas afsökunar,“ sagði stjórnandinn í yfirlýsingu sinni en að sögn viðstaddra hafði Thomas hlotið löðrunginn fyrir að ganga röngu megin inn á sviðið. „Ég veit að líkamlegt ofbeldi á aldrei rétt á sér.“
Í lífshættu
Gardiner er einn fremsti hljómsveitarstjóri Breta. Í maí á síðasta ári stjórnaði hann Monteverdi kórnum ásamt hljómsveit við krýningu Karls Bretakonungs, en kórinn stofnaði Gardiner sjálfur þegar hann var háskólastúdent fyrir sextíu árum. Þremur mánuðum síðar var Gardiner undir annars konar pressu.
Hitabylgja gekk yfir Frakkland þegar Gardiner stýrði fimm klukkustunda flutningi á Trójumönnunum í La Côte-Saint-André. Að sögn Alice Coote, eins einsöngvaranna, var hitinn í salnum við 40 gráður.
„John Eliot klæddist fullum konsertskrúða og var strax við upphaf tónleikanna orðinn löðursveittur,“ sagði hún í viðtali við dagblaðið The Times. „Ég sá ekki í augun á honum bak við gleraugun því þau voru þakin svitadropum ... Hann varð fölari og fölari eftir því sem leið á tónleikana. Ég hugsaði með mér: „Hann á ekki eftir að lifa þetta af.““
Coote sagði tónleikana þá mest krefjandi sem hún hefði upplifað á þrjátíu ára ferli sínum.
Það voru þó ekki aðeins tónlistarmennirnir sem kvöldust. Áhorfendur voru lamaðir af hita. Að tónleikunum loknum stóð enginn upp til að klappa. Coote sagði Gardiner hafa tekið því illa. „Þegar þangað var komið blasti við að hann hafði hálfpartinn lagt sig í lífshættu til að komast í gegnum bölvaða tónleikana.“
Baksviðs, eftir tónleikana, kom til orðaskaks milli Gardiner og bassans Williams Thomas sem lauk með því að stjórnandinn sló söngvarann.
Handan iðrunar
Gardiner var sendur í leyfi frá störfum og sagt að taka sig á. Síðastliðið ár hefur hann sótt sálfræðitíma, farið á námskeið í stjórnun og stundaði jóga og núvitund.
Mál Gardiner fangar siðferðilegt álitaefni sem samtímanum hefur ekki tekist að greiða úr. Er fyrirgefning handan iðrunar?
Stjórn Monteverdi kórsins og hljómsveitarinnar komst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Gardiner var nýverið tilkynnt að hann fengi ekki að snúa aftur sem stjórnandi.
Svo virðist hins vegar sem tónlistarfólkið sem Gardiner starfaði með sé á öðru máli. Hundrað tuttugu og þrír tónlistarmenn Monteverdi hópsins hafa skrifað undir áskorun þar sem brotthvarfi Gardiner er mótmælt. Í könnun sem gerð var innan hópsins sögðust 96% aðspurðra vilja að Gardiner yrði leyft að mæta aftur. Fjöldi tónlistarfólks hefur sagt stöðum sínum lausum í mótmælaskyni.
Gardiner er þekktur fyrir að gera miklar kröfur. Ein þeirra sem hætti til stuðnings stjórnandanum var fiðluleikarinn Kati Debretzeni. Hún sagði að oft hefði tekið á að vinna með Gardiner. Hann hefði hins vegar kennt henni að gera betur en sitt besta. „Tilfinningin er eins og að geta flogið.“
Fórnarlamb kinnhestsins hefur hins vegar hafnað sáttaviðleitni. „Það er réttur hvers tónlistarmanns að starfa í umhverfi þar sem ekki tíðkast svívirðingar og ofbeldi.“
Gardiner er af kynslóð sem vön var ströngu vinnuumhverfi. Kennari hans, Nadia Boulanger, var þekkt sem „hugljúfi harðstjórinn“. Gardiner ber enn djúpa virðingu fyrir henni. „Ég á henni allt að þakka fyrir að hafa beitt mig svo hörðum aga.“
Hvers vegna vitum við ekki hvað við eigum að gera við þann hóp manna sem er afsprengi liðinna tíma og aðlagast illa gildum nútímans? Líklega vegna þess að svarið er ekki það sama í hverju tilfelli.
Athugasemdir