Sjávarhiti í og við Kóralrifið mikla undan ströndum Ástralíu hefur ekki verið meiri í 400 ár. Þetta er hægt að lesa úr nokkurs konar „árhringjum“ kórallanna. Nálgun þessari, til að meta áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum, hefur sjaldan verið beitt en sýnir, að mati vísindamannanna sem hana framkvæmdu, að álag á þetta stærsta staka vistkerfi jarðar hefur ekki verið meira í margar aldir.
„Jörðin er að tapa einu helsta kennileiti sínu“
Kóralrifið mikla teygir sig um 2.400 kílómetra undan ströndum Queensland-fylkis í Ástralíu. Það hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1981. Undanfarin ár hefur fölnun þess, sem er að einhverju leyti hluti af náttúrulegu ferli, verið meiri og varað lengur en áður þekktist. Skýringin er sögð hækkandi sjávarhiti. Og þegar betur er að gáð, líkt og hópur vísindamanna úr háskólum víðsvegar um Ástralíu hefur nú gert, var hitastigið í og við rifið stöðugt í hundruð ára en hóf að hækka óeðlilega um aldamótin 1900. Þá hækkun, sem enn er í gangi, má rekja til mannanna verka að mati vísindahópsins.
Til að komast að þessum niðurstöðum sínum voru nýttir borkjarnar úr kóröllum rifsins sem reyndust geyma í sér upplýsingar um sumarhita hafsins aftur til ársins 1618. Til viðbótar voru notaðar margvísleg önnur gögn, m.a. úr gervitunglum og frá skipum.
Frá árinu 2016 hefur mikil fölnun (e. bleaching) átt sér stað fimm sinnum á Kóralrifinu mikla. Fölunin er viðbragð við álagi vegna hita og ef hún stendur lengi endar ferlið með dauða kórallanna. „Jörðin er að tapa einu helsta kennileiti sínu,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Benjamin Henley, vísindamanni við Háskólann í Melbourne og einum höfunda rannsóknarinnar.
Kóralrif gegna margvíslegu hlutverki. Þau vernda t.d. strandir við landrofi, eru heimkynni þúsunda tegunda fiska og annarra lífvera og eru í seinni tíð mikilvæg tekjulind í ferðaþjónustu.
Umfangsmikil fölnun hefur orðið á kóralrifjum á 54 svæðum í heiminum frá því í febrúar í fyrra. Það ár var það heitasta í sögunni og útlit er fyrir að árið í ár slái það met.
Athugasemdir