Forfeður okkar, víkingarnir, höfðu ýmsar sérkennilegar hugmyndir og venjur sem sumar hafa náð að halda lífi fram á okkar daga. Látum eitt dæmi duga: Sæmdarvíg tíðkast enn í Pakistan, Sádi-Arabíu og víðar líkt og þau gerðu um Ísland allt til forna.
Vasar á líkklæðum
Aðrar fyrirmyndir úr heiðni hafa birzt okkur skyndilega í nútímanum. Sumir kenna fyrirbærið við nýheiðni (e. neopaganism).
Goðafræðin fjallar um Óðin, goð skáldskapar, hernaðar og dauðans, Heimdall sem átti níu mæður sem allar voru systur og önnur goð. Hún lýsir einnig Valhöll. Þangað safnaði Óðinn öllum þeim sem voru vegnir í bardögum. Valkyrjur fóðruðu þá endurlífgaða á svínakjöti og miði úr Heiðrúnu, hún var geit. Valhöll, prýdd spjótum, sverðum og brynjum, var þannig sælureitur og sæmdar og þangað gátu verðugir tekið með sér auðævi sín til að njóta þeirra og ástvina sinna og annarra vina við leik og víg um eilífan aldur.
Á Gotlandi í miðju Eystrasalti hafa fundizt djúpt í jörðu minjar sem staðfesta þennan skilning forfeðra okkar á lífinu eftir dauðann. Þeir tóku sumir vopn sín, silfur, búpening, ambáttir og jafnvel eiginkonur með sér í gröfina. Konurnar voru þá aflífaðar með sérstakri viðhöfn til að auðveldara væri að planta þeim prúðbúnum við hlið húsbænda sinna.
Gotland var Garðabær víkingaaldar. Þangað söfnuðust auðmenn – ekki bara sænskir víkingar, heldur einnig rússneskir – og geymdu þar auð sinn, oft ránsfeng víðs vegar að, og tóku hann með sér í gröfina að leiðarlokum. Þeim fannst Gotland tryggari geymslustaður en meginland Svíþjóðar. Á Gotlandi hafa til þessa fundizt um 140.000 silfurpeningar í jörðu, sumir frá Írak og Íran fyrir þúsund árum, auk vopna og annarra muna og minja. Enn finnst þarna eldgamalt silfur.
Varla voru víkingarnir svo skyni skroppnir að þeir tryðu því sem þeir sögðust trúa um Valhöll og lífið þar að loknu þessu. Að vísu má virða þeim það til vorkunnar að þeir þurftu ásamt öðru að reiða sig á skáldskap til að skilja heiminn líkt og við gerum enn um okkar daga. En fyrr má nú rota en dauðrota. Ekki látum við skáldin sjá um fjárreiður okkar, yfirleitt ekki. Hitt virðist líklegra að víkingarnir hafi kosið að lifa lífinu ljúgandi. Og hvað gera menn þá á banabeðinum? – ef þeir komast hjá að vera vegnir í bardaga og fá í staðinn friðsælt andlát í fleti sínu. Gangast þeir þá við lyginni? Það á varla við um marga. Hitt virðist líklegra að þeir hafi kosið að taka lygina alla leið út yfir líf og gröf. Þannig virðist það skiljanlegra af sjónarhóli nútímans hvers vegna þeir tóku öll þessi ofurverðmæti með sér í gröfina.
Frá fornöld til nútímans
Fávaldar nútímans eiga það sammerkt með hetjum fornaldar að einnig þeir lifa lífinu ljúgandi. Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, lifir í lyginni um að forsetakosningunni 2020 hafi verið stolið af honum. Hann gengur einnig fyrir mýmörgum smærri lygum. Hann segist vera eins og Jesús Kristur og segir á útifundum að menn gætu séð sárin með eigin augum færi hann bara úr skyrtunni. Vladímir Pútín Rússlandsforseti lifir í lyginni um að Úkranía sé ekki til, heldur sé hún óaðskiljanlegur hluti Rússlands auk annarra lyga af ýmsum stærðum og gerðum.
„Þeir grafa auðævi sín að vísu ekki í jörðu eins og víkingar fornaldar gerðu, heldur geyma þeir góssið mestmegnis í skattaskjólum“
Og fávaldarnir í kringum þá, ólígarkarnir, þeir dansa með. Þeir grafa auðævi sín að vísu ekki í jörðu eins og víkingar fornaldar gerðu, heldur geyma þeir góssið mestmegnis í skattaskjólum handa hökkurum framtíðarinnar að grafa upp líkt og fornleifafræðingar hafa gert á Gotlandi.
Ef þú þekkir auðmann, lesandi minn góður, reyndu þá að sannfæra hann eða hana um að réttast væri að þau sæktu auð sinn í skattaskjólin og létu hann af hendi rakna til fátækra áður en þau geispa golunni. Og sannaðu til: Erindi þínu verður ekki vel tekið.
Hlýnun loftslags
Enginn úr hópi þekktustu fávalda heims, hvort heldur í Bandaríkjunum eða Rússlandi eða annars staðar, hefur gengizt við hlýnun loftslags af mannavöldum, hvað þá heldur viðurkennt nauðsyn þess að sporna gegn henni. Trump bauð bandarískum olíufélögum að dæla upp eins mikilli olíu og þeim sýnist gegn því að þau greiði einn milljarð dala í kosningasjóði hans. Pútín, sem er sagður vera ríkasti olíufávaldur heims, sýnir hlýnun loftslags engu meiri áhuga en Trump. Sama á við um Elon Musk, ríkasta mann heims. Hann styður Trump líkt og Pútín.
Vandinn er ekki bundinn við þessa þrjá menn, heldur einnig við fjölda annarra ólígarka í Bandaríkjunum, Rússlandi og víðar. Þessari stétt manna óx fiskur um hrygg eftir 1980 þegar misskipting auðs og tekna tók að ágerast mjög. Þessir menn gengu á lagið og bera í reyndinni höfuðábyrgð á hlýnun loftslags sem fyrirtæki þeirra, einkum en þó ekki eingöngu olíufélög, bera höfuðsök á. Flestir hafa þeir ekki hirt um að lyfta litla fingri til að hemja loftslagsvána þótt þeir viti sem er að heimurinn hangir á heljarþröm ef ekki tekst að grípa í taumana og hitinn og yfirborð sjávar halda áfram að hækka. Við bætast hótanir Pútíns og hans manna, jafnvel í rússneska ríkissjónvarpinu, um beitingu kjarnorkuvopna gegn Evrópu og Ameríku.
Þessa alvarlegu atburði túlkar Timothy Snyder, prófessor í sagnfræði í Yale-háskóla og einn helzti sérfræðingur heimsins um sögu Úkraínu, á þennan veg: Þeir ætla að taka lygina með sér út yfir líf og gröf. Þeir ætla að taka heiminn með sér í gröfina.
Eða eins og hafnfirzka skáldið kvað: Fæ ég kannski að taka farsímann í gröfina með mér?
„Þeir ætla að taka lygina með sér út yfir líf og gröf.“
Þá má gera ráð fyrir því að sögnin (Að ljúa fram í rauðan dauðann), sé komin af ofangreindu innan gæsalappana.