Ólympíuleikarnir standa nú yfir í París. Nýjar keppnisgreinar skjóta reglulega upp kollinum á mótinu sem haldið er á fjögurra ára fresti. Í ár er til að mynda keppt í breikdansi í fyrsta sinn í sögu leikanna.
Ef marka má helstu hugðarefni mannkyns nú um stundir má gera ráð fyrir því að keppt verði á mótinu að fjórum árum liðnum í mannlegum leiðindum.
Gömul gildi sveipuð dýrðarljóma
Hin 22 ára Rocio Bueno býr með mömmu sinni í úthverfi Madrídar á Spáni. Þegar Rocio, sem kölluð er Roro, útskrifaðist úr háskóla síðastliðið vor hóf hún störf sem þýðandi. Í frítíma sinnti hún áhugamáli sínu sem var að elda góðan mat frá grunni.
Ekki alls fyrir löngu hvatti kærasti Roro hana til að birta myndband af eldamennskunni á TikTok. Myndband sem sýnir Roro elda einkar girnilegt andapasta sló í gegn. Nýir fylgjendur hrönnuðust inn á síðuna hennar. Fólk lofaði matseldina og hvatti Roro til dáða. Ekki leið þó á löngu uns síga tók á ógæfuhliðina.
Þótt löngum hafi verið vinsælt að deila uppskriftum á internetinu var Roro uppnefnd „tradwife“. Orðið „tradwife“ er enskt nýyrði en það stendur fyrir „traditional wife“ eða hefðbundin eiginkona. „Tradwife“ er húsmóðir sem heldur heimili, elur upp börn og sinnir eiginmanninum af alúð þegar hann kemur heim úr vinnunni. En þótt hugtakið sé oft notað sem níðyrði hefur hópur kvenna tileinkað sér það. „Trad-áhrifavaldar“ njóta síaukinna vinsælda á samfélagsmiðlum þar sem gömul gildi, tandurhreint heimili og barnaskari eru sveipuð filterum og dýrðarljóma.
Roro á hvorki börn, heimili né eiginmann. Þrátt fyrir það keppast nú ókunnugir á internetinu ýmist við að gagnrýna Roro fyrir að vera „tradwife“ eða hrósa henni fyrir það.
„Bæði liðin reyna að nota mig í pólitískum tilgangi,“ sagði Roro í samtali við breska dagblaðið The Times. „Hægrið lætur eins og ég sé tákngervingur „tradwife“-lífstílsins og fullyrðir að svona eigi kona að vera, sem er ekki í lagi. En vinstrið notar mig líka í pólitískum leik og segir mér að svona eigi konur ekki að vera og að ég sé að skemma fyrir málstað femínista, sem er líka bara bull.“
Roro, sem talar þrjú tungumál reiprennandi, byrjaði að elda sér til skemmtunar sem barn. „Ég fékk matreiðslulegt sjálfræði frá foreldrum mínum tólf ára,“ sagði Roro hlæjandi.
Ekki er þó öllum hlátur í huga. Rita Maestre, sem situr í borgarstjórn Madrídar, gagnrýndi Roro harðlega fyrir hvernig hún talaði. „Þetta er barnsrödd í anda bókstafstrúar, rödd sem hermir eftir því hvernig konur tala í öfgatrúarsamfélögum í Norður-Ameríku,“ sagði hún. „Nú er hún komin til Spánar þökk sé TikTok notanda sem spilar sig sem hina umhyggjusömu konu sem uppfyllir allar óskir kærastans síns með því að elda frá grunni.“
Roro segist ávallt hafa litið á sjálfa sig sem femínista og því orðið fyrir áfalli þegar femínistar tóku að gagnrýna hana fyrir að gera það sem hún unni. Hún þvertekur fyrir að vera „tradwife“. „Ég er ekki að gera neitt pólitískt. Ég er ekki að segja fólki hvað það á að gera. Ég er ekki að segja því hvernig það eigi að lifa. Ég er bara að elda mat og það vill svo til að kærastinn minn er á svæðinu svo að hann fær að smakka það sem ég elda.“ Roro segist ekkert geta gert í röddinni því svona tali hún einfaldlega og bætir við að kærastinn sjái um að ganga frá eftir matseldina.
Ekkert lengur svo lítilfjörlegt
Á meðan afreksfólk keppir í íþróttum á Ólympíuleikunum keppast aðrir við að vera nöldrandi leiðindaseggir á samfélagsmiðlum. Ekkert er lengur svo lítilfjörlegt á internetinu að ekki sé hægt að slá því upp í hatramma liðakeppni þar sem tvær fylkingar keppa um að skora sjálfsmörk með nefið grafið í eigin nafla. Leikni mannkynsins á sviði leiðinda er orðin slík að Alþjóðaólympíunefndin hlýtur að taka íþróttina til skoðunar. Þau okkar sem ekki hafa hæfileika á sviði þeirra greina sem nú er keppt í á Ólympíuleikunum gætu þannig loks átt þess kost að komast á leikana og fá framlag okkar til veraldarinnar metið.
Þótt þeim sé ekki hlátur í hug sem sparka Roro á milla sín eins og bolta í hinu svo kallaða menningarstríði hlær sá best sem síðast hlær. Vegna athyglinnar sem beinst hefur að Roro er hún nú með fimm milljónir fylgjenda á TikTok, er komin með umboðsmann og fær auglýsingatekjur af myndböndunum sem hún býr til.
En hvað hyggst Roro gera þegar réttlát reiði nöldurseggjanna beinist að næsta smámáli á internetinu og athyglin dvínar. Roro tekur sviptingum síðustu mánaða með jafnaðargeði. Þá fer hún bara aftur að þýða.
Haukur Þrastarson er ekki lítið flottur handboltakappi. Hann er sonur Þrastar, tvíbura Svans á Selfossi. Miklir kappar.
Þeir eiga ekki langt að sækja keppnisskapið: Mamma þeirra, Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir, frá Hurðarbaki í Flóa, gerði sér lítið fyrir og vann keppnina í pönnukökubakstri í +50 flokki á landsmóti UMFÍ á Blönduósi 2015, þá 81 árs.