Greiningum á Covid smitum hefur fjölgað undanfarnar vikur og hefur Landspítalinn gripið til aðgerða vegna þessa. Tölfræði sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans sýnir að í síðustu viku hafi 66 smit greinst úr 319 sýnum sem voru tekin og eru það fleiri smit en á nokkurri annarri viku undanfarin misseri.
„Það virðist vera að smitum hafi fjölgað síðustu tvær, þrjár vikurnar, og fleiri innlagnir eru á Landspítalanum vegna Covid,“ segir Anna Margrét Guðmundsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis. „Það hefur líka verið að aukast í löndunum í kringum okkur. En flestir eru lítið veikir. Þetta eru ekki alvarlegri veikindi en meira í dreifingu.“
Samkvæmt tilkynningu frá Landspítalanum hefur Covid skotið upp kollinum á átta deildum spítalans og breiðst hratt út á nokkrum þeirra. Sjúklingar hafi smitast og verið einangraðir í kjölfarið en starfsfólk hafi einnig smitast og misst úr vinnu. „Nú að morgni 16. júlí eru 32 sjúklingar í einangrun vegna COVID á Landspítala í þremur húsum (Landakot, Hringbraut og Fossvogur) og er þetta þriðja sumarið sem bylgja COVID sýkinga herjar á landsmenn,“ segir í tilkynningunni.
Vegna þessa munu á morgun taka í gildi aðgerðir eins og grímuskylda starfsfólks í samskiptum við sjúklinga og takmörkun á heimsóknartímum. Mælst er til að börn undir 12 ára aldri komi ekki í heimsókn og að ekki komi fleiri en tveir í einu til hvers sjúklings. „Þegar faraldur er á deild er heimilt að loka alveg fyrir heimsóknir tímabundið en hafa þó áfram þann möguleika að gefa undanþágur,“ segir í tilkynningunni.
Best að viðhafa sóttvarnir
„Þetta er í dreifingu í þjóðfélaginu og innlagnirnar á Landspítalanum endurspegla það,“ segir Anna Margrét. „En flestir eru með lítil einkenni og fólk er ekki alvarlega veikt. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta séu alvarlegri veikindi en áður. En þetta er talsverður fjöldi með Covid.“
„Það er ekkert sem bendir til þess að þetta séu alvarlegri veikindi en áður“
Aðspurð segir Anna að um sömu afbrigði veirunnar sé að ræða og hafa verið í dreifingu í Evrópu að undanförnu. „Eins og venjulega er best að viðhafa sóttvarnir, kannski aðallega þeir sem eru í áhættuhópum, með bælt ónæmiskerfi og eldra fólk,“ segir hún. „Þau mega huga að því að þetta er í dreifingu.“
Athugasemdir