Eitt af mínum rauðu flöggum er að ef eitthvað slæmt kemur fyrir þegar ég er í sama rými og mamma mín þá mun það einhvern veginn koma niður á henni. Það skiptir engu máli að hún hafi ekkert með það að gera eða hvort hún viti yfir höfuð hvað sé í gangi. Ég mun verða fúl og hún mun finna fyrir því.
Þetta hrópandi óréttlæti er þakklætið sem mamma fær fyrir að elska mig skilyrðislaust. Ég á mér engar málsbætur fyrir þessa hegðun, ekki frekar en hinir sem láta skap sitt bitna á sínum nánustu því þau komast upp með það.
„Síðastliðnar vikur hef ég reglulega lent í því að bílstjórar á stórum jeppum ausi úr skálum reiði sinnar yfir mig“
Ástvinir eru þó ekki einir um að verða fyrir barðinu á rangfærðri reiði. Síðastliðnar vikur hef ég reglulega lent í því að bílstjórar á stórum jeppum ausi úr skálum reiði sinnar yfir mig þegar ég upplýsi þá um að þeir þurfi að borga fyrir bílastæði, ekki vegna þess að þeir haldi að ég muni elska þá sama hvað, eða af því að gjaldskyldan sé mér að kenna, heldur af því að ég er þarna, boðberi slæmra frétta.
Ég tengi, hef verið þarna líka. Mitt fórnarlamb var þjónustufulltrúi hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Eftir eina misheppnaða tilraun og tvær strætóferðir mætti ég á hans fund með húsaleigusamninginn minn, í þetta skiptið á löggiltum skjalapappír, aðeins til að fá þær fréttir að ég þyrfti að vera með samninginn í tvíriti. Ég missti vitið. Lét hann sko heyra að þetta væri djöfulsins kjaftæði. Eins og hann persónulega hafi fengið hugmyndina um að láta allt vera í tvíriti.
Uppspretta reiðinnar virðist oft hafa lítið að gera með á hverjum hún bitnar, allavega í tilviki þjónustufulltrúa sýslumanns, bílastæðavarðarins og mömmu minnar. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu álíka óréttlætis er nauðsynlegt að muna hver ber raunverulega ábyrgð á vandamálinu og ef það reynist ómögulegt í augnablikinu hefur oft reynst mér gott ráð að halda bara kjafti.
Athugasemdir