„Parísarhjólið óvinsælt meðal landsmanna,“ sagði í fyrirsögn á mbl.is í síðustu viku. Samkvæmt fréttinni telja „aðeins 15 prósent landsmanna“ líklegt að þeir fari í parísarhjólið við Reykjavíkurhöfn í sumar. Fyrirsögnin hafði tilætluð áhrif. Ég stökk upp á nef mér. Hvað var verið að standa í svona vitleysu?
Óvinsældir parísarhjólsins kunna þó að hafa verið stórlega ýktar. „15% eru 60.000 manns,“ skrifaði vinur á Facebook. „Ed Sheeran spilaði fyrir 30.000 manns - er hann þá óvinsæll meðal landsmanna?“ „Ég væri nú alveg til í að opna ísbúð fyrir minni væntingar um fjölda viðskiptavina í sumar,“ skrifaði annar. „Það vill svo skemmtilega til að hlutfall þeirra sem hafa áhuga á að fara í parísarhjólið er það sama og hlutfall þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn,“ skrifaði sá þriðji. „Ég bíð bara eftir fyrirsögninni „Sjálfstæðisflokkurinn óvinsæll meðal landsmanna“ í Mogganum.“
Hvort sem um ræðir Omaggio-vasann, heitustu tónleikana í Hörpu eða nýjustu fjallgönguleiðina eigum við Íslendingar til að ganga í takt. Krafa Morgunblaðsins um algjöra fylgispekt verður þó að teljast óraunhæf. Ekki einu sinni fótanuddtækið náði 100% útbreiðslu.
Að hata sumarið
„Sumarið er tíminn,“ söng Bubbi. Það er viðtekin hugmynd að sumarið sé hátindur tilverunnar, að það sé í sól og sumaryl við grillið á pallinum eða í flæðarmálinu á Tene sem tilgang píslargöngu okkar sé að finna. En einsleitni mannsins er stundum ofmetin.
Christina Flores er menntaskólakennari í Bandaríkjunum á fimmtugsaldri. Hún hafði lengi lagt drög að drauma sumarfríinu. Daginn áður en hún átti að leggja af stað í „road trip“ um miðvesturríki Bandaríkjanna blés hún hins vegar ferðalagið af. Christina var búin að greiða fyrir ferðina og kostnaðinn fengi hún ekki endurgreiddan. En Christina var einfaldlega of niðurdregin til að fara út úr húsi.
„Þótt tilvist sumarþunglyndis hafi lengi legið fyrir hefur meinsemdin ekki verið á almannavitorði.“
Flestir kannast við skammdegisþunglyndi, deyfð sem færist yfir þegar myrkrið skellur á. Christina þjáðist af árstíðabundnu þunglyndi. Drunginn sem Christina glímdi við gerði hins vegar vart við sig á sumrin.
„Fólki finnst það skrítið og heldur að ég sé að grínast,“ segir Christina sem hafði aldrei heyrt um sumarþunglyndi þegar hún var greind. „Það skilur enginn hvernig hægt er að hata sumarið.“
Þótt tilvist sumarþunglyndis hafi lengi legið fyrir hefur meinsemdin ekki verið á almannavitorði. „Það er sannarlega þörf á auknum rannsóknum og meiri athygli,“ segir Norman Rosenthal, sálfræðingur við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum, sem fór fyrir teymi vísindafólks sem greindi fyrst frá heilkenninu.
Eftir að Christina var greind með árstíðabundið þunglyndi áttaði hún sig á því að hún hafði verið þung í skapinu á sumrin frá því að hún var barn. „Foreldrar mínir töldu ástæðuna þá að mér leiddist og að þau væru ekki nógu dugleg að hafa ofan af fyrir mér.“
Ekki er vitað með vissu hver orsök sumarþunglyndis er. Kenningar eru uppi um að undirrótin séu umhverfisþættir á borð við hita- og birtustig, raka og jafnvel frjókorn en rannsókn sem gerð var nýverið meðal samfélags Amish fólks í Bandaríkjunum sýndi auknar geðlægðir þegar frjókornum fjölgaði í andrúmsloftinu.
Í kulda og myrkri
Á sumrin eiga allir að vera í sólskinsskapi. En til er fólk sem fær enga ánægju út úr því að berjast við geitunga um brenndan grillmat, finna sandinn blandast sólaráburðinum eins og sement blandast vatni eða fara út án yfirhafnar af því að spáin er góð.
En þótt sumarið sé ekki allra leiðir ekki af því að það sé glatað – ekki frekar en í tilfelli parísarhjólsins.
Og rétt eins og ekki allir elska sumarið hata ekki allir veturinn.
Christina fann gleði sína á ný. Það gerði hún í kulda og myrkri í nóvember á ferðalagi um Ísland.
Athugasemdir (2)