Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð
Á meðan forsætisráðherra flutti þessar ljóðlínur á Austurvelli á þjóðhátíðardag var lögreglan önnum kafin við að snúa niður veikan mann í næstu götu og troða poka yfir hausinn á honum. Fimm einkennisklæddir lögreglumenn gegn einum manni.
„Við skulum gleðjast og fagna,“ hélt forsætisráðherra áfram. „Á morgun heldur starf okkur allra áfram við að gera enn betur fyrir framtíðarkynslóðir.“
Börnin sem ætluðu að fagna þjóðhátíðardeginum með foreldrum sínum gengu með helíumblöðrur og íslenska fánann fram á lögregluna valdbeita veikan mann, sem lá með hauspoka á götunni undir fjórum þeirra.
„Hvergi er betra að búa en einmitt hér,“ fullyrti forsætisráðherra, sem lagði meðal annars áherslu á sjálfstæði, frelsi og frið.
Sjálfstæði, frelsi og friður hafa varla verið þau orð sem komu upp í huga vegfarenda sem gengu fram á valdbeitingu lögreglu.
Afdrif mannsins eru ókunn. Við vitum þó þetta:
Á Íslandi er andlega veikt fólk vistað í fangaklefa, jafnvel í geðrofi.
Og í stað þess að senda lækni á vettvang fer lögreglan af stað ef kallað er eftir aðstoð neyðarlínu vegna andlegra veikinda. Oft með vægast sagt skelfilegum afleiðingum.
Meðferð ríkisins á veiku fólki er efni í sérstakan pistil. Hér er sjónum beint að lögreglu.
Allt í einu …
Á undanförnum vikum hefur röð atvika komið upp þar sem lögregla gengur svo harkalega fram gagnvart almennum borgurum að það vekur ugg. Og sú spurning vaknar: Hvað gerðist eiginlega?
Ekki síst vegna þess að í kjölfarið hefur verið reynt að sannfæra okkur um að ekkert athugavert sé við framgöngu lögreglu. „Mér fannst lögreglan bregðast rétt, skjótt og vel við,“ sagði dómsmálaráðherra eftir að þrír leituðu á bráðamóttöku vegna þess að lögreglan beitti piparúða yfir hóp fólks sem var samankomið fyrir utan ríkisstjórnarfund til að mótmæla aðgerðarleysi gagnvart grimmilegum árásum Ísraels á Palestínu. Bætti hún því við að fólk hefði rétt á að tjá sig í friðsamlegum mótmælum, en þegar ekki væri farið að tilmælum yfirvalda væru mótmæli ekki lengur friðsamleg.
Tilmæli yfirvalda voru að fólk ætti að fara af götunni svo ráðherrar kæmust frá. Valdamesta lið landsins á flótta undan því að mæta fólki sem er svo fullt af vanmætti eftir dauða 14 þúsund barna að það finnur sig knúið til að koma saman fyrir utan ríkisstjórnarfund.
Myndbönd eru til af atvikum. Þar má sjá mann frá Palestínu standa kyrr og halda með báðum höndum á palestínskum fána. Ekkert ógnandi er við fas mannsins. Hann stendur bara þarna þegar lögreglan dregur allt í einu upp piparúða og beinir að andliti hans. Og aftur. Og aftur. Og annar lögreglumaður til. Seinna kemur lögreglan hratt aftan að honum og hélt áfram að úða yfir hann.
Maðurinn hreyfir sig lítið, nema rétt á meðan hann réttir fólki sem liggur í götunni eftir lögregluna hjálparhönd. Hann lýsti reynslu sinni í viðtali við RÚV: „Bara allt í einu, hver einasti lögreglumaður, tekur upp gashylki sitt eða brúsann og byrjar að sprauta á okkur. Við fáum ekki einu sinni viðvörun.“
Fólki var brugðið: „Ég stóð þarna, þetta er mjög vont, brennur, var byrjaður að titra, þegar ég fékk það í augun og andlitið og alls staðar.“ En hann stóð áfram. „Ég hugsa bara um börnin á Gaza, það sem börnin eru að ganga í gegnum er miklu, miklu, miklu meira en það sem er að gerast hér. Það gaf mér styrk og ég stóð bara.“
Við sluppum við að …
Fyrr í vikunni komst Nefnd um eftirlit með lögreglu að niðurstöðu: Lögregla gætti stillingar, gekk ekki lengra en „nauðsyn krafðist“, og gætti þess að miski væri ekki umfram það sem „óhjákvæmilegt var“.
„Við sluppum við að beita kylfum,“ útskýrði aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Eins og það sé einhvern tímann nauðsynlegt að beita kylfum þegar ráðherrar neita að horfast í augu við fólkið sem þeir eiga að þjóna.
Orðin stinga: Stilling, nauðsyn, óhjákvæmilegt.
Var nauðsynlegt fyrir lögreglumann að hrinda konu þannig að hún féll í jörðina?
Á myndbandi má sjá atvikið. Í viðtali við RÚV lýsti konan sjokkinu sem hún varð fyrir. „Þegar mér er hrint þá reyni ég að standa aftur á fætur,“ sagði hún. „Svo þegar ég reyni að standa upp og fæ bara augnaráðið frá lögreglumanninum sem stendur mjög nálægt mér og spreyjar beint í andlitið á mér, þá bregður mér. Mér bregður rosalega mikið.“
Hún lýsir því hvernig hún fór niður á hnén og fraus. Þá hafi aðrir komið til og leitt hana út af svæðinu, „sem er orðið átakasvæði núna því að það er fólk öskrandi úti um allt af sársauka“.
Nauðsyn?
Lögreglan beitti piparúðanum á milli 20 til 30 einstaklinga. Þrír leituðu á bráðamóttökuna.
Óhjákvæmilegt?
„Það er vont ef fólk hjá okkur er að meiðast,“ sagði aðalvarðstjórinn. Hann átti ekki við fólkið sem leitaði á bráðamóttöku vegna valdbeitingar lögreglu, heldur lögreglumann sem meiddist á vettvangi. Ekki vegna þess að mótmælendur veittust að honum, heldur vegna þess að ráðherra lá svo mikið á að ráðherrabíl var ekið yfir fót lögreglumannsins.
„Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta,“ sagði forsætisráðherrann í hátíðarávarpi á þjóðhátíðardag.
Ávarpið var flutt í stærsta gerði sem reist hefur verið í kringum íslenskan ráðamann á þjóðhátíðardegi. Ráðherra var vel varinn af lögreglu og almenningi haldið fjarri hátíðarhöldunum.
Ég vona að þeir hafi ekki …
Nokkrum dögum síðar endurtók sama sagan sig við Alþingishúsið.
Þingmenn sem höfðu farið út til að sýna mótmælendum samstöðu sögðu frá því að þar hefðu börn, gamalmenni og alls konar fólk verið samankomið. Engin ógn hafi verið af hópnum, sem barði á trommur og hrópaði slagorð.
En þegar forsætisráðherrann sem situr í andstöðu áttatíu prósent þjóðarinnar vildi komast fram hjá greip lögreglan skyndilega upp piparúðann og spreyjaði á fólk. Þar á meðal þingmenn, sem lýstu því að þetta hefði gerst ansi fljótt og án nokkurrar tilraunar til að reyna að róa ástandið áður.
„Mér fannst það nú ansi harkalegt að vera að grípa til valdbeitingar til þess eins að hleypa einhverjum bílum fram hjá,“ sagði fyrrverandi liðsmaður eins stjórnarflokksins.
Formaður Landssambands lögreglumanna hafði þetta um frásögn þingmanna að segja: „Ég vona að þeir hafi ekki verið að hindra forsætisráðherra í að komast frá þinginu.“ Og bætti við: „Forsætisráðherra hefur nú bent á það sjálfur að hvergi í heiminum líðist það að stoppa bifreið ráðamanna.“
Talandi um freka karlinn.
Þann sem tekur sér það sem honum sýnist án þess að skeyta um afleiðingarnar fyrir aðra.
Hér plássið til að komast ótruflaður leiðar sinnar, með beitingu piparúða.
Við köllum þetta reyndar …
Í millitíðinni var lögreglunemi dæmdur fyrir að beita piparúða á mann, sparka í hann, slá hann fjórum sinnum með kylfu þar sem hann lá á fjórum fótum og ausa yfir hann fúkyrðum allan tímann.
Til refsilækkunar var litið til þess að lögregluneminn missti stjórn á sér í krefjandi aðstæðum.
Fram kom að maðurinn veitti ekki mótspyrnu við handtöku.
Fyrir rúmi ári síðan heimilaði þáverandi dómsmálaráðherra lögreglu að bera rafbyssur. „Við köllum þetta reyndar rafvarnarvopn,“ áréttaði ráðherrann föðurlega.
Forvirkar rannsóknarheimildir, heimild lögreglu til að njósna um almenna borgara, höfðu einnig fengið nýja merkingu í meðförum ráðherrans: „Afbrotavarnir.“
Aðspurður um vopnakaup lögreglunnar, talaði hann um: „Varnarbúnað.“
Varnarbúnaðurinn voru Glock G-17 skammbyssur og hálfsjálfvirkar 9 mm MP5A5 og MP5KSF einskotsbyssur, auk annarra vopna sem lögreglan hafði varið 165 milljónum í að kaupa fyrir einn fund. „Menn geta kallað þetta vígbúnað en þetta er fyrst og fremst öryggistæki,“ hélt ráðherrann áfram, á fullu að reyna að afmá merkingu orðanna og skapa ný hughrif.
Ráðherrann sem sagði: „Ég skipti mér ekkert af því hvaða vopn lögreglan er að kaupa.“
„Um leið og lögreglan er vopnuð þá erum við að tala um breytt samfélag,“ sagði formaður Lögreglufélagsins.
Vopnaður maður reyndist vera …
Bent hefur verið á fjölgun vopnaðra útkalla sérsveitarinnar.
Auðvitað hafa komið upp alvarleg tilfelli, sem nauðsynlegt var að bregðast við. Aukin harka og vopnaburður í samfélaginu vekur óhug.
En svo eru tilfelli eins og þegar þrír sérsveitarbílar voru nú í júní sendir á Snorrabraut vegna leikfangabyssu. Ekki í fyrsta og eina sinn sem sérsveitin grípur til aðgerða áður en hún áttar sig á að hið meinta vopn er í raun leikfangabyssa. Árið 2022 var maður handtekinn fyrir utan Smáralind því hann bar leikfangabyssu. Í annað sinn reyndist vopnaður maður í bifreið vera tólf ára drengur með dótið sitt.
„Barn stendur við eldhúsgluggann heima hjá sér, heyrir hróp og köll og fer út. Þar horfir það upp á svartklæddan, vígbúinn mann beina að föður þess hríðskotabyssu og skipa honum að leggjast í jörðina. Sérsveit hefur fylkt sér að húsinu og miðað vélbyssum í andlit bæði fjölskylduföðurins og að móðurinni. Svartklæddir sérsveitarmennirnir öskra spurningum að fjölskyldunni. Faðirinn er settur í handjárn og barnið horfir á eftir föður sínum þar sem hann er leiddur niður innkeyrsluna og inn í lögreglubíl. Svo kemur í ljós að þetta var allt misskilningur.“
Þannig lýsti þingmaður upplifun barns af aðgerðum lögreglu fyrir tveimur árum. Tilefni útkallsins var að barn hafði verið í kúrekaleik með vinum sínum.
Skilaboðin frá stjórnvöldum eru …
Nokkrum dögum fyrir valdbeitinguna í Skuggasundi var varað við aðhaldskröfu ríkisins á lögregluna. Frá félagi yfirlögregluþjóna barst neyðarkall: Ef fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt yrði að draga úr almennri löggæslu. Lögreglumenn á landinu séu nú þegar allt of fáir, álíka margir og fyrir 1990 þótt landsmönnum hafi fjölgað um 60 prósent og ferðamönnum enn meira.
Undir tók lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Daglega sinna aðeins um 20 lögreglumenn almennri löggæslu á höfuðborgarsvæðinu öllu, jafnmargir og fyrir sautján árum síðan.
„Skilaboð yfirvalda til lögreglumanna eru ömurleg,“ sagði formaður Landssambands lögreglumanna.
Skilaboð yfirvalda til samfélagsins eru engu skárri: „Til þess að lögregla ráði við svona mikinn fjölda mótmælenda án þess að beita úða eða einhverju, þá þarf um það bil helmingi fleiri lögreglumenn á staðinn,“ hélt hann áfram.
Sambandið hefur því talað fyrir því að lögreglumönnum sé fjölgað, frekar en skotvopnum. Samkvæmt úttekt þeirra kæra sjötíu prósent lögreglumanna sig ekki um að bera slík vopn. „Lögreglan vill helst ekki vera vopnuð.“
Hins vegar hafi aukin harka færst í störf lögreglunnar. Sem megi kannski skýra brotthvarf lögreglukvenna úr stéttinni. „Ein hugmyndin er sú að vegna aukinnar hörku kæri konur sig síður um að vera í þessu umhverfi, en það er ekki búið að sanna það.“
Það sem var sannað …
Það er hins vegar búið að sanna aðra áhrifaþætti á brotthvarf lögreglukvenna.
Valdbeitingin sem birtist úti í samfélaginu á sér einnig stað innan lögreglunnar og vinnustaðamenningin einkennist af karllægum hugmyndum um yfirráð, sem hrekur konur á brott og jaðarsetur þá karla sem eru ekki reiðubúnir að undirgangast þennan kúltúr.
Forsætisráðherra hreykti sér af jafnrétti og jöfnum tækifærum í hátíðarávarpinu, en jafnrétti ríkir ekki einu sinni innan lögreglunnar sem fer þó með allra viðkvæmustu málin sem varða kynbundið misrétti.
Hvernig sem á er litið er lögreglan karlaveldi.
Árið 2023 voru 75 prósent lögregluþjóna karlar. Hlutfallið var enn hærra á Vestfjörðum, eða 90 prósent.
Níu af hverjum tíu konum í lögreglunni eru í tveimur neðstu starfsstigunum en einn af hverjum þremur körlum. Aðeins ein kona er yfirlögregluþjónn, sú fyrsta sem gegnir þeirri stöðu, og fjórtán karlar. Sjö af tíu stjórnendum lögregluembætta og Héraðssaksóknara eru konur.
Konur eru ekki bara færri og fá síður stjórnunarstöður, heldur verður stór hluti lögreglukvenna einnig fyrir kynbundinni áreitni í starfi. Hlutfall þeirra sem greina frá slíku er hærra innan lögreglunnar heldur en almennt í samfélaginu.
Konur innan lögreglunnar þurfa að þola óviðeigandi, móðgandi og særandi brandara sem tengjast kyni þeirra. Þær lýsa neikvæðu viðhorfi gagnvart kyni sínu á vinnustaðnum, að lítið sé gert úr þeim eða hæfileikum þeirra. Þeim hafi verið sýnd óviðeigandi hegðun vegna þess að þær eru konur.
Gerendur eru oftast karlkyns samstarfsmenn þeirra eða yfirmenn.
Kíkja á …
Ný rannsókn leiðir þetta í ljós, en nú eru liðin tíu ár frá því að sömu fræðimenn sýndu fyrst fram á þetta ástand með rannsókn á vinnumenningu lögreglu. Síðan hefur lítið sem ekkert breyst.
Í skýrslu sem birt var í kjölfar fyrri rannsóknarinnar voru eftirfarandi ummæli höfð eftir lögreglukonu sem lýsti stemningunni á vakt: „Maður lét sig hafa það þegar strákarnir voru að pæla í því hversu margar billjardkúlur kæmust upp í p….a á mér.“
Lögreglukonur lýstu glápi og kynferðislegu augnatilliti, óvelkominni snertingu, klappi, klípi og faðmlagi, klámbröndurum og kynferðislegri áreitni. Auk þess sem því væri gjarnan „klínt á stelpurnar að þær séu hórur eða að þær hafi sofið hjá mörgum“.
Þessi viðhorf rötuðu út í samfélagið: „Það var svona fastur punktur í tilverunni að keyra Laugaveginn og kíkja á rassa … og brjóst. Og um helgar þá var náttúrlega farið niður í bæ til að finna stelpur til að skutla heim.“
Hann fer að tala um …
Þrátt fyrir að lögreglan sé sá aðili sem fer með rannsókn slíkra mála, sögðu lögreglukonur að ef þær tilkynntu kynbundna áreitni innan lögreglunnar væri þeim ekki líft í starfi. Ein lýsti tilraun til að leita til annars yfirmanns vegna áreitni sem hún varð fyrir af hálfu næsta yfirmanns. Viðbrögðin hefðu verið þessi: „Hann verður alveg brjálaður ef við förum að ásaka hann um þetta. Hann verður brjálaður. Og þá var málið dautt.“
Önnur hætti í lögreglunni eftir að yfirmaður hennar gaf til kynna að henni yrði umbunað fyrir kynferðislegan greiða. „Hann fer að tala um hvað ég sé frábær, æðisleg og myndarleg […] svo segir hann við mig, ég veit að þú ert metnaðarfull og þarna, ég get hjálpað þér með það […]. Svo leit hann á mig og svo strauk hann yfir löppina á mér. Hann sagði ekki neitt nema að hann væri einn heima, eitthvað svona, þú veist, hann sagði ekki komdu inn með mér og ríddu mér og ég skal gera þig að yfirmanni, en hann var að hugsa það. Ég held að hann hafi verið að hugsa það. Hann var að gefa svoleiðis vibe, þú veist, hann vildi eitthvað. Hann ætlaði að gera mér greiða og ég þyrfti að gera honum greiða. Svo kyssti hann mig á kinnina og ég bara fraus!“
Þetta var árið 2013.
Tíu árum síðar, undir lok síðasta árs, voru fimm mál til meðferðar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna kvartana lögreglukvenna undan einelti, ósæmilegu hátterni, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Ein sagðist hafa sætt áreitni og ofbeldisfullri hegðun eins æðsta yfirmanns embættisins mánuðum saman.
Í nýbirtri grein um rannsókn á vinnumenningu lögreglu kemur fram að valdahlutfall innan lögreglu sé konum ekki í hag og því sé viðhaldið með kynferðislegri áreitni og vanvirðingu.
Lögreglumenn vilja láta trúa því …
Bent var á að afar karllægar hugmyndir ríki um lögreglustarfið og því hefði jafnvel verið velt upp hvort karlar væru betur til þess fallnir að sinna þessu hlutverki, því þeir séu sterkari andlega og líkamlega.
Lögreglukonur hafa lýst því sem svo að það sé álitið veikleikamerki að leita til sálfræðings vegna áfalla sem fólk verður fyrir í starfi. Í stað þess að takast á við áföllin myndi fólk brynju með svörtum húmor. Svartur húmor sé í raun eina viðurkennda rýmið innan lögreglunnar til að tala um áföll og fá útrás fyrir tilfinningar. „Það eru allir voða sterkir og duglegir,“ útskýrði einn viðmælenda.
Konurnar lýstu sig hins vegar ósammála þessari áherslu á styrk.
Áherslan ætti frekar að vera á að leysa mál með góðum samskiptum, samtali og mildi. „Líkamlegi styrkurinn kemur ekki fyrst. Það er frekar bara að samskiptin séu í lagi,“ sagði ein sem fullyrti að það hefðu alltaf verið sömu aðilarnir innan lögreglunnar sem lentu í átökum á meðan aðrir sluppu við það, vegna þess að „þeir voru betri í talinu, sko, í samskiptum“.
Önnur sagði að lögreglumenn „vilji trúa að þetta sé svo hættulegt starf og erfitt“, sem það væri í raun ekki. „Þetta er ekki erfitt starf. En lögreglumenn vilja láta trúa því að þetta sé alltaf svo erfitt, að það sé alltaf verið að lemja og þeir þurfi að fá rafbyssur.“ Hún væri því algjörlega ósammála, enda aðeins einu sinni lent í átökum á sínum starfsferli.
„Við leysum svona mál miklu betur en karlmenn. Við þurfum ekki að slást,“ sagði sú þriðja.
Á ábyrgð þeirra að …
Í stefnumótun stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fjölga konum og kvenkyns stjórnendum í lögreglu, án þess að áhersla sé lögð á að hindra brottfall kvenna úr stéttinni.
Það er ábyrgð ráðamanna að uppræta eitraða vinnumenningu og skaðlegar hugmyndir um hlutverk lögreglu.
Rétt eins og það er á ábyrgð þeirra að veita lögreglunni nægilegt fjármagn til að hún sé í stakk búin til að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, og tryggja um leið stjórnarskrárvarin réttindi borgara. Meðal annars til mótmæla.
Og tryggja þannig að lögreglan geti tekist á við verkefni án þess að trúverðugleiki hennar sé dreginn í efa og vantraust skapist, hún geti verið til staðar þar sem hennar er þörf, sé undirbúin til að mæta krefjandi verkefnum og sé fær um að tryggja borgurum öryggi.
Ekki með vopnum, heldur mannafla. Og samskiptum við samfélagið.
Biðjum frekar um …
Í samfélagi þar sem ráðamenn reyna stöðugt að færa mörkin til er mikilvægt að halda fast í merkingu orða og atburða. Þegar yfirvöld tala um hauspoka sem hrákagrímu, rafbyssu sem rafvarnarvopn og hálfsjálfvirkar byssur sem varnarbúnað er rétt að staldra við.
Poki sem fer yfir haus er hauspoki, ekki gríma. Poki er poki, ekki gríma.
Við skulum ekki láta telja okkur trú um að það sé einhver stilling fólgin í því að miða piparúða beint framan í mann sem stendur á götu. Að það sé óhjákvæmilegt að hrinda konu í götuna. Eða nauðsynlegt að fimm einkennisklæddir lögreglumenn séu allir á veikum manni sem liggur þegar í götunni með hauspoka og hendur fyrir aftan bak.
Biðjum frekar um meiri mýkt og mildi.
Og ráðherra sem treysta sér til samtals á forsendum annarra en þeirra sjálfra.
Eins og forsætisráðherra las sjálfur upp í hátíðarávarpi sínu: „Vér, sem nú lifum, höfum fengið að reyna, hve þunn er sú skel siðmenningar, sem skilur jafnvel hinar menntuðustu þjóðir frá fullkominni villimennsku. Þau verðmæti, sem vér metum mest, kunna því að verða fótum troðin, áður en varir, ef slakað er á þeim kröfum um frjálsa stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum, þekkingu og mannréttindum sem vestrænt lýðræði hvílir á.“
Athugasemdir (5)