Í glampandi sól á Lækjartorgi sat kona í hjólastól sem situr á rótum trés. Hún sat ekki þar vegna þess að hún gæti ekki gengið heldur sat hún þar fyrir dreng sem missti göngugetu sína þegar hann var 9 ára gamall: Yazan Aburajab Tamimi.
Vísa á Yazan, sem er nú 11 ára gamall og glímir við vöðvahrörnunarsjúkdóminn Duchenne, úr landi í byrjun júlí ásamt foreldrum hans Ferial og Mohsen. Þessu hafa Íslendingar sem og innflytjendur hér á landi mótmælt hástöfum vikum saman. Það hafa einnig ótal samtök gert, þar á meðal Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og Félagsráðgjafafélag Íslands.
En mótmælin, og vottorð lækna sem segja að heilsu Yazans sé stefnt í hættu ef langt hlé verður á heilbrigðisþjónustu hans, hafa ekki borið árangur enn.
Vilja að Yazan skjóti rótum
Konan sem sat í hjólastólnum, listakonan Julia Mai, var þó ekki tilbúin í að gefast upp.
„Það kemur ekki til greina að halda kjafti,“ segir Julia. „Það kemur ekki til greina að stoppa, segja: Hér er enginn árangur. Maður heldur bara áfram, meira og meira og meira.“
Stóllinn er listagjörningur sem spratt upp úr hugmynd Anahitu Babaei sem hún, Julia og Nadira Kolbrún hrintu í framkvæmd. Fólki sem vill sýna samstöðu, eða samsetu, með Yazan gefst kostur á að setjast í stólinn, í korter eða lengur í senn og er ætlunin að halda gjörningnum áfram næstu daga. Þátttakendur skrá sig á sérstakt vaktaplan.
„Ræturnar tákna það að við viljum að hann skjóti rótum hér,“ segir Julia. „Við segjum alltaf: Stattu upp fyrir þessu og hinu en nú er það: Sestu niður fyrir Yazan.“
Kærunefndin sá ekki ástæðu til að skoða sérstakar aðstæður vegna heilsufars Yazan
Yazan og foreldrar hans fengu neitun um hæli hér á landi vegna þess að þau höfðu áður fengið vegabréfsáritun á Spáni. Ekki var talið efni til að taka tillit til sérstakra ástæðna á grundvelli heilsufars Yazans. Fjölskyldan er ekki með hæli á Spáni og veit ekki hvort Yazan muni hafa aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann þarf þar.
„Kærunefnd telur ljóst að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kærenda og barns þeirra sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar,“ segir í úrskurði kærunefndarinnar.
Þá mat hún það þannig að fjölskyldunni ætti að standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta á Spáni, en að þau gætu þurft að greiða fyrir hana sjálf.
Í viðtali við Heimildina í maí spurði Albert Björn Lúðvígsson, talsmaður fjölskyldunnar, sig hvernig fjölskyldan ætti að greiða fyrir þjónustuna á Spáni.
„Er sem sagt í lagi að hann fái ekki lífsnauðsynlega þjónustu á Spáni í raun því það sé vissulega þjónusta fáanleg fyrir útvalda á einkareknum sjúkrahúsum í landinu?“ spyr Albert.
Í læknisvottorðunum, sem Albert skilaði inn fyrir hönd fjölskyldunnar þegar hann lagði fram endurtekna umsókn fyrir hana, segir m.a. að það sé afar mikilvægt fyrir Yazan að hafa „hefðbundið þétt eftirlit sérfræðinga í vöðvarýrnunum, lungnalæknis, innkirtlalækis og hjartalæknis.“
Þá kemur þar fram að ef hann fær ekki þjónustuna muni það hafa mjög neikvæð áhrif á Yazan.
„Ég hef unnið við þetta í næstum 8 ár og aldrei séð svona afgerandi læknisvottorð,“ sagði Albert.
Berst fyrir Yazan þó þau hafi aldrei hist
Þrátt fyrir að hafa aldrei hitt Yazan þá skiptir málstaðurinn Juliu það miklu máli að hún er tilbúin í að sitja í stólnum til skiptis við aðra klukkustundum saman.
„Ég þarf ekki að hitta hann til þess að vera á móti því að honum verði brottvísað,“ segir Julia.
„Í heimalandi hans í Palestínu er þjóðarmorð í gangi akkúrat núna. Ég sé svo [tvöfalt siðgæði] hjá Útlendingastofnun og okkar ríkisstjórn sem brottvísar hægri og vinstri þegar við erum með fólk sem er ekki hvítt.“
Athugasemdir