„Við þurfum að komast í frí eins og skot!“ sagði ég við manninn minn í miðri árstíðabundinni íslenskri örmögnun. Við pöntuðum ferð sama kvöld. Fyrir valinu varð fimm stjörnu lúxushótel á sólarströnd sem er byggt eins og mexíkóskur herrabúgarður. Maturinn á hótelinu er margverðlaunaður og einn veitingastaður hótelsins hafði nýverið eignast sína fyrstu Michelin-stjörnu. Ég uppveðraðist öll við tilhugsunina um að bæta Michelin-veitingahúsaferð á lista lífsreynslu minnar. Ég bý yfir nokkrum ágætis mannkostum en lífsstíll umfram launagetu er löstur sem lengi hefur fylgt mér.
Svarta syndin mín sem undir þreytu og á valdi sinnuleysis tekur yfir og gerir mig reglulega að fífli. Ég hafði farið á þetta hótel einu sinni áður og sór þess eið að hingað myndi ég fara aftur með einhverjum sem kynni að meta óhóf og yfirlæti velmegunar líkt og ég. Þess í stað tók ég manninn minn, alþýðlegan derhúfukall og síst snobbaða mann landsins. Hann vissi að þetta yrði áskorun en ég fullvissaði hann um að við myndum falla auðveldlega inn í íburðarmikið umhverfið. Ég eyddi óþægilega löngum tíma í að ákveða öll dressin sem ég ætlaði að spóka mig um í kringum feikistóra flygilinn sem var á hótelbarnum. Ég keypti mér yfirlætisfullan hatt og sá fyrir mér dramatíska samfélagsmiðlamynd í anddyrinu þar sem undir myndi standa „Að njóta“ eins og ekkert væri eðlilegra mínu lífi. Maðurinn minn fór í Costco og keypti sér tvennar stuttbuxur og var hæstánægður. Maðurinn minn er mun viðkunnanlegri en ég.
„Lífsstíll umfram launagetu er löstur sem lengi hefur fylgt mér.“
Við komuna á hótelið tókum við þá ákvörðun að fara í smáréttaferðalag á Michelin-staðnum. Í stað þess að beita skynsemi og lesa yfir matseðilinn og skoða verð þá bar flottræfilshátturinn minn mig ofurliði og á örskotsstundu vorum við búin að bóka borð. Ég klæddi mig í klassískan svartan kjól og hlóð mig öllu gulli sem ég átti. Ég fór í notuðu Gucci-skóna sem ég keypti með raðgreiðslum á Netgíró og setti á mig Burberry-úrið sem ég hafði keypt fyrir löngu pissfull í París. Þessa kvöldstund ætlaði ég að vera fremst meðal fágaðra jafningja. Hér ætlaði ég að finna brothætta hlutanum af sjálfinu mínu öruggan farveg. Maðurinn minn fór í krumpaða skyrtu sem ég tók andköf yfir. Ég reif hann úr henni, vætti og lagði niður. Ég tók íburðarmikinn stól með mikilfenglegt stólbak og lagði það á skyrtuna til að pressa. Heimapressuð skyrta, rándýr og röklaus merkjavara og ógáfuleg fylleríiskaup áttu að sjá til þess að mitt brothætta sjálf fengi að skína skært þetta kvöld.
„Mætti ég stinga upp á vínpörun kvöldsins?“ sagði virðulegur maður á ensku með þykkum, spænskum hreim. Hann var grannvaxinn, með góða lykt og fullkomið hár. Hann taldi upp alls konar vín og sögu þeirra, þrúgur og þykkt. Ég brosti áhugasöm og jánkaði reglulega höfðinu líkt og ég væri sammála vali hans. Ég drekk sjaldnast áfengi og hef ekki hundsvit á því en sjálfskipaða, fágaða frúin sem reglulega ofmetur kaupmátt sinn telur sér ekkert ofviða. Ég var uppástríluð og í essi ranghugmynda minna. Hann var vínsérfræðingur kvöldsins og samkvæmt kortinu sem fylgdi staðnum, sérvalinn sem slíkur. Hér var valinn maður í hverju rúmi. Á kortinu kom fram að matarupplifun kvöldsins yrði ferðalag um eyjuna og taldir voru upp þeir sem komu að hönnun þessarar kvöldstundar. Mig rak í rogastans. Ásamt kokkinum, vínsérfræðingnum og myndskreyti kortsins voru þarna talin upp sagnfræðingur, vísindamenn, sálfræðingur, sjávarlíffræðingur og taugasálfræðingur. Það kom á mig hik. Hvað komu allir þessir sérfræðingar matseðli kvöldsins við? Yrði þessi kvöldstund hugsanlega ofjarl minn? Áður en ég náði að leyfa hugsuninni að fara lengra mætti þjónninn okkar og kveikti á litlum lampa á borðinu okkar og sagði að ferðalagið væri hafið. Hann rétti okkur síðan annað kort og hóf umsögn um fyrsta réttinn okkar af fjórtán. Ég upplifði aðstæðubundinn kvíða en maðurinn minn sára svengd. Það var löngu liðið á hans venjulega matmálstíma og garnirnar farnar að gaula.
Fyrsti réttur kvöldsins var borinn á borð í svörtum borðbúnaði sem var í stíl við kjólinn minn. Ég fann möguleikann á ofurstílistaðri Instagram-stund nálgast óðfluga. Svo skoðaði ég réttinn gaumgæfilega. Hann var þrískiptur. Á fyrsta disknum var einhvers konar haugur af túnfiski toppaður með kavíar úr rússneskri styrju. Einnig fylgdi kanillitaður drykkur í yfirlætisfullu glasi og síðan myntugræn klessa á ofursveigðri skeið. Ég gaut augunum í átt að matseðlinum og saup hveljur.
Næstu sex réttir voru fiskar. „Andskotinn!“ hugsaði ég. „Ég er ekki hrifin af fisk“ og fann hvernig kvíðinn krækti klónum í mig. Ég skóflaði upp í mig túnfiskklessunni og hrognunum og fann hvernig óvinveitt og hatrömm ógleðin leystist skyndilega úr læðingi. Skynfæri mín voru að upplifa árás. Ég leit niður og mátti hafa mig alla við að kasta ekki upp. Hvernig gat á þessu staðið? Átti þetta ekki að vera fágaður matur fyrir fágað fólk? „Nei! Fjandinn hafi það,“ hugsaði ég. Það hlýtur bara að hafa verið eitthvert klúður í eldhúsinu. Ég setti á mig snúð og kyngdi ógeðinu. Ég renndi augunum fegin að kanillitaða drykknum. „Þetta hlýtur að vera sætt og gott,“ hugsaði ég um leið og ég sporðrenndi drykknum niður í einum rykk. Kanillitaði drykkurinn reyndist vera soðið af túnfisknum.
„Þetta er endirinn,“ hugsaði ég, græn í framan með nú blóðhlaupin augu sem mættu suðrænu augum þjónsins sem virtist átta sig á að ég væri fúskari í heimi fágaðra. Ég kyngdi soðinu með nær óyfirstíganlegri klígju, tók nokkra djúpa andardrætti og náði að kæta mig ögn við tilhugsunina að myntugræna klessan myndi án efa ná að hreinsa pallettuna. Svo varð ekki. Myntugræna klessan reyndist vera ein önnur útfærslan af fiski. Sætt tár rann niður kinn mína. Ég reyndi að ná því með tungunni til að eyða bragðinu. Svona hélt þetta áfram næstu þrjá klukkutímana. Á eftir fisknum kom kanína. Á meðan ég kroppaði í kanínuna, brá fyrir minningu úr æsku þar sem ég strauk Negul nágrannakanínu blíðlega. Mér fannst eins og ég hefði étið sakleysi æskuáranna minna. Yfirlætisfullt dramb mitt og stolt hafði enn einu sinni gert mig að fífli. Ég gekk út af veitingastaðnum niðurlút og með sjálfsmyndina í molum. Hafði maturinn verið óætur eða voru bragðlaukarnir mínir það mengaðir af Pepxi Max og skyndibitaneyslu æskuáranna að ég gat ekki kunnað að meta það allra fínasta? Ég var áttavillt og vonsvikin með sjálfa mig. Í miðju miskunnarleysi breytingaskeiðsins, hver er ég ef ekki fín og fáguð frú?
„Ég er enn svangur,“ sagði maðurinn minn þegar við gengum út af staðnum. „Ha!“ sagði ég og áttaði mig á að í gegnum tilvistarkreppuna og þjáningarnar fjórtán hefði ég ekkert hugsað um hvernig manninum mínum leið. „Þetta var nú bara allt smakk og mest allt fiskur, Hrafnhildur. Komum við á Makkaranum.“ Ég var of niðurbrotin til að mótmæla. Hann sat sáttur og borðaði sitt á meðan ég sat niðurlút og í fýlu. „Sjáðu hvað sólsetrið er fallegt,“ sagði hann og benti í átt að sjóndeildarhringnum. Ég staldraði við. Það var satt hjá honum. Fegurðin og kyrrðin settu hlutina í samhengi. Korteri áður hafði ég verið að pína í mig ógeðslegum mat bara af því að hann var skreyttur Michelin-stjörnu en á McDonalds fann ég friðinn. Ég sprakk úr hlátri, tók sjálfa mig í sátt og hugsaði hvað kennslustundir í hógværð og auðmýkt geta verið fáránlega fyndnar. Ég skakklappaðist því skælbrosandi heim á hótel í gömlu Gucci-skónum með nokkrar McDonalds franskar í annarri hendinni og Costco-kallinn minn í hinni.
Því alvöru snobbhæna myndi aldrei skrifa svona mein fyndna frásögn af sjálfri sér. :D