Netárás var gerð á miðla Árvakurs skömmu eftir hádegi í dag. Fréttavefurinn mbl.is varð verst fyrir árásinni og ákveðið var að slökkva á kerfum Árvakurs í kjölfarið. Útsendingar útvarpsstöðvanna K100 og Retro hafa einnig legið niðri. Í tilkynningu frá Árvakri kemur fram að svo virðist sem rússnesk glæpasamtök tölvuþrjóta standi á bak við árásina.
Árvakur gefur út Morgunblaðið og rekur meðal annars fréttavefinn mbl.is auk útvarpsstöðvana K100 og Retro. Þá er prentsmiðjan Landsprent dótturfélag Árvakurs.
„Þetta var stórfelld árás á öll okkar lykilkerfi sem setti starfsemi okkar úr skorðum í dag,“ segir Hólmfríður María Ragnhildardóttir, blaðamaður og kvöldfréttastjóri á mbl.is, í samtali við Heimildina.
Unnið er að því að meta áhrif og umfang árásarinnar og fá henni hrundið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Árvakri.
Fréttavefur mbl.is er nú orðinn virkur á ný og vonar Hólmfríður María að vefurinn sé kominn í fulla virkni . Útsendingar K100 eru einnig hafnar að nýju en útsending Retro liggur enn niðri.
Vísir hefur eftir Karli Blöndal, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, að enn sé verið að meta umfang árásarinnar og gat ekki staðfest hvort blaðið komi út á morgun, mánudag. Hólmfríður María segir í samtali við Heimildina að stefnt sé að því að gefa út blað í fyrramálið.
Athugasemdir