Í margar vikur hefur hinn þrjátíu og tveggja ára gamli Breti, Joshua Sherlock, sem býr í Kýótó í Japan ekki þorað að yfirgefa heimili sitt. Hann lét loka símanum sínum vegna sífelldra hringinga frá ókunnugum sem létu svívirðingum rigna yfir hann. Honum bárust tölvupóstar þar sem hann var kallaður „hvítt svín“, „útlendingaskítur“ og honum sagt að „hunskast heim til sín“. Þegar heimilisfang blokkaríbúðarinnar sem hann býr í ásamt eiginkonu sinni og sex ára dóttur var gert opinbert á samfélagsmiðlum fór fólk að laumupokast fyrir utan. Einhver sendi heim til hans sendiferðabíl með þeim fyrirmælum að flytja ætti burt eigur þeirra. Á samfélagsmiðlum var fólk hvatt til að kveikja í húsinu.
Joshua, sem starfar sem leiðsögumaður í Kýótó, var við vinnu þegar atvik átti sér stað sem varð upphafið að ófyrirséðu áreitinu. Einu sinni sem oftar fylgdi hann hópi erlendra ferðamanna um trúarhof í hjarta Kýótó. Hann sýndi túristunum, fjórum ellilífeyrisþegum, hvernig hringja ætti bjöllu sem notuð er við tilbeiðslu í hofinu, þegar japönsk kona vatt sér upp að þeim og sakaði konu í hópnum um að hafa hringt bjöllunni of harkalega og þannig sýnt þjóðtrú Japans vanvirðingu.
Að sögn Joshua báðust bæði hann og ferðamaðurinn afsökunar. Upphófst hins vegar orðaskak sem endaði með því að Joshua og hópur hans yfirgáfu hofið.
Næsta dag greindi japanska konan frá árekstri sínum við ferðamennina á samfélagsmiðlinum. Raunir hennar fóru sem eldur um sinu um internetið. Fylgjendur hennar grófu upp símanúmer og heimilisfang Joshua með fyrrgreindum afleiðingum.
„Hunskist heim, túristar“
Árið 2000 heimsóttu 4,7 milljónir erlendra ferðamanna Japan. Í ár er talið að þeir verði 33 milljónir. Síaukinnar gremju gætir í garð túrista í Japan. En Japan er ekki sér á báti.
Á sama tíma og Joshua varð fyrir barðinu á beiskum heimamönnum í Kýótó fóru fram fjölmenn mótmæli á spænsku eyjunum Majorka og Ibiza gegn massatúrisma. Segja mótmælendur stjórnlausa ferðamannaþjónustu orsök húsnæðisskorts á eyjunum, stíflaðs gatnakerfis og hnignandi lífsskilyrða. „Hunskist heim, túristar,“ stóð á plakötum sem mótmælendur gengu með um ferðamannastaði.
Þurfum við að gera betur?
„Ísland að detta úr tísku,“ kvað fyrirsögn á Vísi í vikunni. Samkvæmt úttekt markaðssetningarfyrirtækisins Datera hefur leit á internetinu að Íslandi sem áfangastað minnkað lítillega. Segir sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu stöðuna grafalvarlega. Hann segir einkafyrirtæki ekki geta borið uppi markaðssetningu á heilum áfangastað og að hið opinbera verði að stíga inn í. „Við sem áfangastaður, sem heild, þurfum að gera betur.“
En þurfum við að gera betur?
Af viðbrögðum við fréttinni á samfélagsmiðlum að dæma virðast fáir telja stöðuna jafnalvarlega og markaðssetningarfyrirtækið. „Hlægilega frábært“, skrifaði einn. „Loksins,“ skrifaði annar. „Er þetta bara ekki hin besta þróun?“ spurði sá þriðji.
Undanfarin misseri hefur þol Íslendinga fyrir erlendum ferðamönnum farið minnkandi. Eru æ fleiri þeirrar skoðunar að fjöldi túrista sé kominn yfir þolmörk. En rétt eins og með önnur íslensk síldarævintýri – bankastarfsemi, stóriðju, fiskeldi – er gagnrýni á greinina illa séð.
„Því hver fer í frí þangað sem hann er ekki velkominn?“
Joshua Sherlock leiðir ekki lengur túrista um Kýótó. Eiginkona hans, sem starfar við að selja ferðamönnum kímónó-sloppa, þorir ekki í vinnuna og er komin á lyf við kvíðaköstum. Hjónin hafa tekið dóttur sína úr skóla.
Svo kann að vera að ferðaþjónustan telji hag sínum best borgið með því að leiða gremju landsmanna hjá sér og stefna ótrauð á frekari vöxt. Ólíklegt verður þó að teljast að það verði greininni til framdráttar að láta óánægju almennings krauma uns sýður upp úr eins og gerir nú í Japan og á Spáni. Því hver fer í frí þangað sem hann er ekki velkominn?
Íslandi.
Og annars er aldrei ásættanlegt að leggja fólk í einelti, skömm til þeirra sem hafa hana skilið.