Guðlaugur Þór Þórðarson segir ekki rétt að skilgreina tilraunir Running Tide hér á landi sem kast út í hafið og telur að fyrirtæki á sviði kolefnisföngunar eigi að fái vítt svigrúm til þess að prófa sig áfram og gera mistök við þróun á lausnum til þess að fanga kolefni úr andrúmsloftinu. Hann telur landsmenn hafa góða reynslu af því að feta ótroðnar slóðir í loftslagsmálum.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag var ráðherra spurður út í ummæli sín um nýsköpunarfyrirtækið Running Tide. Guðlaugur Þór hafði áður sagt fyrirtækið standa að stærsta kolefnisföngunarverkefni í heimi hér landi.
Eins og Heimildin greindi frá í ítarlegri rannsókn í síðasta tölublaði, hafði Running Tide áætlanir uppi um að sökkva allt að 50 þúsund tonnum á ári af kalksteinsblönduðu trjákurli, eftir að hafa fengið til þess leyfi íslenskra stjórnvalda. Fyrirtækið hafði þegar fleytt tæplega 20 þúsund tonnum í hafið undan Íslandi, í fyrrasumar.
Drónar í baujum á stærð við körfubolta, samsettir úr trjákurli og sementi, húðaðir með kalksteini og alsettir grænþörungum áttu að farga kolefni og fanga enn meira af því. Auk þess áttu þeir líka að jafna út sýrustig sjávar, samkvæmt Running Tide. Framkvæmdin var allt önnur og vísindin að baki verulega vafasöm, að mati fjölda vísindamanna.
Gísli Rafn Gíslason, þingmaður Pírata krafði Guðlaug Þór svara um það hvers vegna hann, ásamt öðrum ráðherrum í ríkisstjórn, hafi ekki hlustað á umsagnir sem bárust frá undirstofnunum ráðuneytisins sem lýstu efasemdum um áform Running Tide um að fleygja mörg þúsund tonnum af viðarkurli í hafið við Ísland.
Bæði Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun höfðu komið slíkri gagnrýni á framfæri í úttektum á rannsóknarverkefni Running Tide.
Af hverju hlustaði ráðherra ekki á eigin sérfræðinga?
Í ræðu sinni fór Gísli Rafn yfir sögu fyrirtækisins hér á landi, sem lagði nýverið niður starfsemi sína og sagði upp öllu starfsfólki á Íslandi, og aðkomu ráðherra að því að veita félaginu tilskilinn leyfi og opinberan stuðning.
Í máli sínu vitnaði Gísli Rafn í ítarlega umfjöllun Heimildarinnar um starfsemi Running Tide hér á landi. Sýndi sú umfjöllun meðal annars fram á að fyrirtækið hafi tekist að verða sér út um leyfi frá stjórnvöldum til þess að sökkva allt að 50 þúsund tonnum af kalksteinablönduðu trjákurli í sjóinn á ári, án eftirlits.
Upphaflega stóð til að sökkva sérhönnuðum baujum sem áttu að stuðla vexti þörunga á hafsbotni. Sú útfærsla tók miklum breytingum í aðdraganda aðgerðanna sem margir vísindamenn og sérfræðingar hafa gagnrýnt harðlega.
„Í morgun birti Heimildin viðtal við hæstvirtan umhverfis-, loftslags og orkumálaráðherra þar sem hann svaraði því á hverju fullyrðingar hans stórfenglegar umhverfisárangur verkefnisins væru byggðar, með leyfi forseta: „Ég fékk þær bara frá forsvarsmönnum fyrirtækisins.“ Er það almennt verklag hjá hæstvirtum ráðherra að treysta frekar á uppblásna söluræðu frá fyrirtækjum heldur en niðurstöðum eigin undirstofnana?“ spurði Gísli Rafn.
Segir þingmann fara frjálslega með staðreyndir
Í svari sínu sagði Guðlaugur Þór þingmann Pírata fara frjálslega með staðreyndir málsins og hann ætti að vita betur.
„Það er bara mjög mikilvægt að við höfum gott reglugerðarumhverfi um okkar atvinnustarfsemi og af því að háttvirtur þingmaður, þó að það sé erfitt að fara í gegnum þetta og ég vona að við fáum betra tækifæri til að ræða þetta við hann hér í þingsal, er að vísa hér til um hvað málið snerist upphaflega, þá snerist það um lagabálk sem heitir Verndun hafs og stranda,“ sagði Guðlaugur Þór og benti á að hann þekkti málaflokkinn vel, enda hafi hann setið í umhverfisnefnd þingsins þegar málið var gert að lögum á sínum tíma.
Sagði Guðlaugur að lögin hafi komið í veg fyrir þann ósið, sem hafi verið algengur á árum áður, að varpa rusli á borð við bílhræ í hafið.
„Það hafi ekkert að gera með þá starfsemi sem hér er um að ræða og það er í stefnuskjali ríkisstjórnarinnar að við leggjum á það áherslu að hér geti starfað fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki á sviði loftslagsmála. Ef háttvirtur þingmaður vill fara yfir það þá ætti hann að fara yfir Vaxa og Carbfix og ýmislegt annað sem er nú að gera hluti sem hljóma mjög nýstárlega af því þeir eru nýstárlegir. En ef menn ætla ekki að fikra sig áfram í nýsköpun í föngun, í loftslagsmálum, þá er það verkefni, sem í það minnsta ég hélt að háttvirtur þingmaður hugsaði mikið um loftslagsmálin, erfitt ef ekki vonlaust.“
Íslendingar hafi góða reynslu af því að fara eigin leiðir
Gísli Rafn steig því næst í pontu og sagði ráðherra ekki hafa svarað fyrirspurn sinni, eins og hann hafi tilhneigingu til.
„Ég vil því árétta, í fyrsta lagi er þetta almennt verklag hjá hæstvirtum ráðherra að treysta frekar á uppblásna söluræðu frá fyrirtækjum heldur en niðurstöðum eigin stofnanna?“ spurði Gísli Rafn og bætti við:
„Fyrst að ráðherra nefnir önnur fyrirtæki sem eru í kolefnisföngun, telur ráðherra að þetta mál geti skaðað orðspor Íslands, hæstvirts ráðherra og annarra kolefnisföngunarverkefna á Íslandi.“
Sagði Guðlaugur Þór þingmann vera biðja sig um að bera saman epli og appelsínur og svara hlutum sem tengjast ekki. Þá spurði ráðherra Gísla Rafn hvað hann teldi vera stærsta kolefnisföngunarverkefnið sem væri í gangi hér landi í dag.
„Háttvirtur þingmaður ætti að þekkja. Það er skógrækt og landgræðsla. Nú er það þannig, virðulegi forseti, af því að menn eru hér að tala um að sérfræðingar og vísindamenn séu ekki sammála um það. Það hafi komið fram ásakanir um það í virtum fræðiritum að við séum ekki að fanga með skógrækt og umræðan, af því að háttvirtur þingmaður spyr hvort þetta hafi skaðleg áhrif, umræðan um þessa tækni, gamla og nýja og henni er ekki lokið. Og henni mun ekki ljúka, vonandi ekki.“
Þá bætti Guðlaugur Þór við að þó svo að sérfræðingar og vísindamenn væru ekki sammála um ýmis atriði sem varða kolefnisföngun sé ekki ásættanlegt að sitja auðum höndum og gera ekkert á meðan komist er að sameiginlegri niðurstöðu.
„En ef við ætlum ekki að gera neitt bara vegna þess að það væri hugsanlega hægt að gera einhver mistök, að þá er það held ég ákvörðun sem er ekki góð,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að Íslendingar hafi góða reynslu af því að fara sínar eigin leiðir í ýmsum málum. Þar á meðal loftslagsmálum.
„Reyndar höfum við Íslendingar góða reynslu af því á sviði loftslagsmála, þó við kölluðum það ekki loftslagsmál þá, að fara leiðir sem aðrir fóru ekki. Get ég til dæmis vísað til hitaveituvæðingarinnar.“
Athugasemdir (5)