Sú ákvörðun að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar fyrir öll börn á Íslandi frá og með næsta skólaári heyrir til mikilla tíðinda eftir gerð síðustu kjarasamninga. Þá var aðgerðin kynnt sem liður í að bæta kjör vinnandi fólks enda mánaðarlegur kostnaður við kaup skólamáltíða kringum 12.000 kr fyrir hvert barn.
Hið óformlega og nýstofnaða íslenska skólamáltíðabandalag skoðar málið í víðara samhengi og sér hér tækifæri til að bæta lýðheilsu, minnka matarsóun og taka til hendinni í loftslagsmálum og umhverfisvernd almennt. Tækifærið er núna. Samkvæmt Samtökum sveitarfélaga er staðan þessi: Áætlað er að kostnaður við þetta nemi um 5 milljörðum króna á ársgrundvelli og mun ríkið leggja til allt að 75% kostnaðarins eða allt að 4 milljarða króna á ári á samningstímanum. Ríki og sveitarfélög munu útfæra verkefnið í sameiningu.
Opinber innkaupastefna til góðs
Opinber innkaupastefna á matvælum á að styðja við lýðheilsumarkmið og almennt við stefnu i umhverfismálum. Fáir efast um að skólamáltíðir, bæði í ríkum löndum og fátækum, skipta máli. Rannsóknir sýna glöggt að þær bæta námsárangur, geta stuðlað að réttri næringu fyrir börn á þroskaskeiði og þar með bættri heilsu. Í fátækum löndum skilar hver dollari sem varið er í skólamátíðir nífaldri ávöxtun með ýmsum hætti. Þessi ávinningur eykst eftir því sem næst að tengja skólamáltíðir við að sporna gegn sóun og heilsutjóni, slæmum umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og breyta rétt í þágu loftslagsmarkmiða.
Ekki gera sér allir grein fyrir því að matvælaframleiðsla í heiminum veldur 30% af losun gróðurhúsalofttegunda og ber ábyrgð á 80% af tjóni á líffræðilegum fjölbreytileika. Við vitum ekki nákvæmlega hversu heilsusamar og umhverfisvænar íslenskar skólamáltíðir eru. Nú skapast tækfæri til að ganga úr skugga um það og vinna samkvæmt göfugum markmiðum.
Hvað varðar næringu er Embætti landlæknis að endurskoða og mun gefa út sínar leiðbeiningar, í samræmi við þær sem Norræna ráðherranefndin gaf út í fyrra með áherslu á mataræði, enda kemur æ betur í ljós hversu vel fara saman áherslur í umhverfismálum og heilsu. Mataræði sem er gott fyrir heilsuna er alla jafna einnig gott fyrir umhverfi og jörð. Þá hefur alþjóðlega skólamáltíðabandalagið (School Meals Coalition) unnið vandlega útfærða stefnu í samvinnu við London School of Hygiene & Tropical Medicine sem á að gagnast öllum, víða um heim. Af nágrannalöndunum hafa Finnar og Svíar langa og mikilvæga reynslu sem má læra af enda skólamáltíðir hluti af þjóðarvitund þeirra. Hluti af nálgun Finna er matarmenning sem nú gefst tækifæri til að rækta með íslenskum ungmennum. Tengja má þau fræði sem hér eru nefnd við daglegar matarvenjur ungmenna og hafa áhrif til frambúðar.
Grunnviðmið eru því til fyrir þessi stóru opinberu innkaup á matvælum og auðvelt að leita fanga og nýta vel þetta stóra tækifæri.
Ábyrgð sveitarfélaga
Sveitarfélögin bera ábyrgð á því hvernig skólamáltíðir eru útfærðar. Sums staðar eru þær eldaðar á staðnum, annars staðar er þeim útvistað til stórra verktaka. Nú er skynsamlegt að gera allsherjar óháða úttekt á stöðu mála og skapa grundvallarviðmið. Taka stöðuna eins og hún er í dag og vakta framgang næstu árin. Við ætlum að verja fimm milljörðum á ári til innkaupa og eldunar á máltíðum og þá er eins gott að gera rétt. Hér er ekki kastað rýrð á neinn sem nú þegar veitir svona þjónustu. Einfaldlega bent á að engu má muna í svona stóru dæmi og þeir þættir sem taka þarf á margir. Í raun eru stærstu sveitarfélögin svo umsvifamikil að sú lína sem Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur og Akureyri setja verða hin raunverulegu grunnviðmið allra. Það þarf því ekki nema forystu 3-4 sveitarfélaga til að leggja línur fyrir alla. Samningar ríkis og sveitarfélaga sem nú eru á lokastigi snúast því alls ekki bara um bókhald og greiðslur. Þær ættu að meginstofni að snúast um næringu og heilsu, umhverfismál, baráttu gegn sóun og hlutverk matvælakaupa í loftslagsaðgerðum.
Virðingarfyllst, hið óformlega íslenska skólamáltíðabandalag, afsprengi af starfi eldri aðgerðarsinna sem skipuleggja sig undir heitinu Aldin.
- Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur
Athugasemdir (1)