Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarritari Reykjavíkurborgar, lést á fimmtudag, 59 ára að aldri. Eiginmaður hennar, Magnús Karl Magnússon, minnist hennar hjá hjartnæman hátt þar sem hann greinir frá andláti hennar á Facebook:
„Hún Ellý mín hefur kvatt þennan heim. Hún var einstök. Hennar fallegu eiginleikar lýstu í gegnum bæði skin og skúri í lífinu. Fyrir átta árum mætti óvæntur gestur inn í líf okkar, erfiður sjúkdómur. Ellý tók þeirri heimsókn af ótrúlegu æðruleysi og reisn. Við fjölskyldan höfum lært svo margt af Ellý okkar, enda var hún sönn fyrirmynd í öllu. Mín mesta huggun er að horfa á hæfileika hennar, persónu og útlit lifa áfram í börnunum. Þau eru einstök og hafa stutt mig í gegnum allt eins og fjölmargir ættingjar og vinir. “
Magnús segir þar ennfremur: „Kveðjustundin var jafn falleg og allt hennar líf. Allir hennar nánustu kvöddu hana, þar á meðal Pétur bróðir hennar sem kom í gær frá Bandaríkjunum og litli Almar Elí, tveggja vikna ömmu- og afabarnið okkar sem fékk að hvíla í fangi hennar.“
Ellý fæddist í Reykjavík 15. september árið 1964. Hún var lögfræðingur að mennt, með meistarapróf í umhverfis- og alþjóðarétti frá University of Wisconsin. Ellý gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá Reykjavíkurborg áður en hún var ráðin borgarritari árið 2011.
Gaf öðrum hugrekki með sögu sinni
Mörgum er sú stund minnisstæð þegar Ellý Katrín steig í pontu á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar í byrjun árs 2017 og lýsti þar reynslu sinni af því að greinast með Alzheimer. Sérfræðingar í málefnum fólks með heilabilun segja að fordæmi Ellýjar hafi verið afar mikilvægt, því það hafi gefið mörgum öðrum hugrekki til að hætta feluleiknum og viðurkenna að þeir hafi verið greindir með heilabilun.
„Ellý talaði um Alzheimer og hún hélt áfram að lifa með sjúkdóminn með gleði í hjarta“
Í lok færslunnar um Ellý skrifar Magnús: „Ellý talaði um Alzheimer og hún hélt áfram að lifa með sjúkdóminn með gleði í hjarta. Við megum aldrei gleyma að þeir sem fá slíkt í fangið eiga skilið stuðning og ást okkar allra. Það skynjuðum við fjölskyldan frá fjöldskyldu og vinum en einnig frá fjölmörgu samferðafólki sem við þekkjum ekki. Fyrir það þakka ég ykkur öllum frá dýpstu hjartarótum.“
Lýsti aðdraganda þess að hún greindist
Ellý og Magnús komu saman í viðtal hjá Stundinni, annars forvera Heimildarinnar, árið 2020. Þar lýsti hún aðdraganda þess að hún greindist með Alzheimer. „Ég var orðin svo þreytt eitthvað og var ekki nógu hamingjusöm. Það var eitthvað sem lá á mér. Svo ákvað ég að fara í rannsókn og þá kom í ljós að ég væri komin með Alzheimer. Ég hélt kannski að þetta væru tíðahvörf eða kulnun. Ég var einhvern veginn ekki alveg með sjálfri mér.“
Magnús sagði í viðtalinu að sjúkdómurinn hefði læðst aftan að þeim en þegar greiningarferlið hófst var hann farinn að gruna að niðurstaðan yrði alvarleg. „Greiningarferlið hjá okkur var svo sem ekki langt miðað við hjá mörgum, eða svona hálft ár. Mig grunaði strax að þetta væri eitthvað alvarlegt en hélt alltaf í vonina. Niðurstaðan varð svo auðvitað mikið sjokk en Ellý hefur sýnt þessu ótrúlegt æðruleysi.”
„Mig grunaði strax að þetta væri eitthvað alvarlegt en hélt alltaf í vonina“
Hann sagði það hafa verið þeim báðum afar mikilvægt hversu opin hún var með veikindi sín. „Það var svo mikil skömm sem fylgdi þessum sjúkdómi, þannig að það var mjög gott að geta farið með það út,“ segir hún og hann bætir við: „Þegar hún talaði um þetta opinberlega fann ég hvað þetta var mikilvægt fyrir marga. Fljótlega fór fólk í svipaðri stöðu að hafa samband við okkur. Umræðan um sjúkdóminn var á þessum tíma ágætlega mikil en andlit hans hafði alltaf verið mjög fjarri, aðstandendur kannski komið fram en sjaldan sjúklingar. Ellý kom fram með andlit hins venjulega borgara.“
Athugasemdir (1)