Haustið 2019 fór ég af stað ásamt konunni minni með verkefni sem heitir Fæðingarsögur feðra. Við vildum annars vegar opna á umræðuna um upplifun feðra í fæðingum og hins vegar safna saman fæðingarsögum frá þeim og gefa út í bók. Markmiðið er einfaldlega að vekja athygli á upplifun og þátttöku feðra af fæðingum barna sinna. Fyrst þegar við vorum að ræða hugmyndina áttum við von á því að þetta hefði verið gert áður, okkur datt ekki annað í hug en að einhver hefði gert eitthvað þessu líkt á Íslandi. Raunin var önnur. Ég fór á netið og leitaði að fæðingarsögum frá feðrum og fann að mig minnir tvær sögur á bloggsíðum sem voru inni á milli annarra sagna frá konum. Sem er kannski ekkert svo skrítið.
Við byrjuðum verkefnið formlega á feðradaginn þann 10. nóvember 2019. Viðtökurnar fóru langt fram úr okkar væntingum. Í kjölfarið fórum við í fjöldann allan af útvarps- og sjónvarpsviðtölum, hlaðvörp og svo voru skrifaðar blaðagreinar um verkefnið líka. Við erum ofboðslega þakklát fyrir það hversu góð viðbrögð við höfum fengið.
„Tilgangurinn var og er ekki að minnka hlutverk mæðra í fæðingum. Þær eru alltaf aðalleikararnir.“
Við áttuðum okkur fljótt á því þegar við byrjuðum að ræða verkefnið og tilganginn við vini okkar að fæst pör, sem eiga saman barn eða börn, hafa rætt um upplifanir sínar af fæðingum barna sinna sín á milli. Það er allavega okkar niðurstaða eftir óformlega könnun á þessu. Það kann að hljóma skringilega þar sem þessar stundir eru meðal þeirra stærstu sem við upplifum á ævinni. Flestir lýsa fæðingum barna sinna sem þeirra bestu og stærstu stunda í lífinu. Við fengum því fljótt staðfestingu á því að verkefnið okkar ætti fullan rétt á sér og að það væri þörf á þessari umræðu. Ég þarf náttúrlega ekki að taka það fram að tilgangurinn var og er ekki að minnka hlutverk mæðra í fæðingum. Þær eru alltaf aðalleikararnir.
Fyrsta sagan kom inn í verkefnið á fyrsta sólarhringnum. Þar var á ferðinni pabbi sem átti söguna klára, hafði skrifað hana niður nokkrum árum áður vegna þess að hann vildi ekki gleyma smáatriðunum. Hann sá verkefnið okkar og ákvað að slá til og vera með. Við ákváðum strax í upphafi að hafa sögurnar nafnlausar. Þannig vonuðum við að fleiri pabbar myndu taka þátt og eins vildum við að umræðan snerist um sögurnar og upplifanirnar sjálfar en ekki einstaklingana á bak við sögurnar.
Hluti af því sem við ræddum áður en við fórum af stað í verkefnið var að það væri kannski á brattann að sækja. Það er ekki nóg með að við værum að biðja feður um að skrifa texta, sem margir gera sjaldan í dag, heldur vorum við líka að biðja þá um að koma frá sér mjög persónulegum upplifunum og tilfinningum. Það er því mjög ánægjulegt að segja frá því að það hefur gengið ótrúlega vel að fá feður til að opna sig um þetta málefni.
Auk þess að fá fjöldann allan af sögum þá höfum við líka fengið þakkir frá fólki fyrir að opna á umræðuna. Við höfum t.d. heyrt frá pari sem átti eitt barn saman og var ekki tilbúið að eignast fleiri börn þar sem pabbinn var ekki búinn að vinna úr reynslunni við að eignast fyrsta barnið. Hann hafði ekki einu sinni rætt sína upplifun við barnsmóður sína. Það er auðvitað dapurt að það skuli stoppa fólk í að eignast fleiri börn burtséð frá því hvor aðilinn það er sem þarf að vinna úr málinu. Ég tek það fram að fæðing fyrsta barnsins þeirra gekk vel en þrátt fyrir það getur þurft að vinna úr einhverjum atriðum er tengjast fæðingunni, eða í þessu tilfelli bara taka spjallið um upplifun hvor aðilans fyrir sig.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla foreldra til að skrifa niður fæðingarsögur barna sinna. Hvort sem feðurnir senda okkur sínar sögur eða ekki þá fennir furðu fljótt yfir smáatriðin. Ég skal eiginlega lofa ykkur því að börnin ykkar munu líka þakka fyrir það að fá að lesa þessar sögur einhvern daginn.
„Hvenær er maður svo sem alveg tilbúinn fyrir það sem koma skal?“
Við konan mín eigum saman þrjú börn og ég á þ.a.l. þrjár sögur í óútkominni bókinni. Ég hef því verið svo heppinn að fá að upplifa það þrisvar að sjá barn koma í heiminn og finna hvað lífið getur verið ótrúlega magnað og fallegt. Ég stóð lengi í þeirri meiningu að ég yrði meira tilbúinn að eignast barn eftir því sem ég yrði eldri og að ég myndi finna einhverja ákveðna tilfinningu eða að „andinn kæmi yfir mig“. Eftir á að hyggja beið ég lengur en ég hefði átt að gera með að hefja tilraunir til barneigna, ég var í raun eins tilbúinn og ég gat orðið. Hvenær er maður svo sem alveg tilbúinn fyrir það sem koma skal?
Eftir að hafa unnið að Fæðingarsögum feðra síðustu árin hef ég oft verið minntur á að lífið getur verið alls konar. Stundum munar bara hársbreidd á fegurstu augnablikum lífsins og þeim dekkstu og erfiðustu. Ég hef líka lært að það að eignast barn er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur. Því hef ég oft velt fyrir mér hvers vegna við segjumst „eyða“ tíma með börnunum okkar og fjölskyldu. Ég hef lært að „eyða“ aldrei tíma með börnunum mínum eða fjölskyldu. Tímanum er einfaldlega alltaf varið með þeim.
Hefur þú heyrt söguna af því þegar þú komst í heiminn?
Athugasemdir