Rétturinn til að koma saman með friðsömum hætti er varinn af 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Rétturinn telst til grundvallarréttinda í lýðræðislegu samfélagi og felur í sér að ekki aðeins er ríkisvaldinu óheimilt að hafa óeðlileg afskipti af fundum manna heldur hefur það beinlínis jákvæðar skyldur til að tryggja að borgararnir fái notið fundafrelsis. Rétturinn til að mótmæla með friðsömum hætti fellur undir þessi réttindi.
Rétturinn takmarkast við að mótmælin séu friðsamleg. Ekki er því heimilt að efna til óeirða eða beita ofbeldi í skjóli fundafrelsisins. Hins vegar er jafnljóst og um það eru skýr fordæmi úr dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, að þó að með mótmælum sé valdið óþægindum eða truflunum, þá teljast þau ekki við það orðin ófriðsamleg.
Rétturinn til fundafrelsis felur það loks í sér að ef ríkisvaldið telur nauðsynlegt að takmarka fundi eða beita valdi til að leysa upp mótmæli, svo sem til varnar allsherjarreglu eða til að koma í veg fyrir óeirðir, þá er gerð rík krafa um að valdi sé beitt af svo miklu hófi sem kostur er. Óhófleg valdbeiting sé enda til þess fallin að beinlínis fæla borgarana frá því að beita fundafrelsi sínu og þar með hættuleg lýðræðinu.
Reglan um meðalhóf er talin svo mikilvæg grundvallarregla um beitingu lögregluvalds að hún er ítrekuð á nokkrum stöðum í bæði lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála. Lögreglumenn „skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur“.
Í dag beitti lögregla piparúða á hóp fólks sem hafði komið saman fyrir utan ríkisstjórnarfund til að mótmæla aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda vegna stríðsglæpa Ísraelshers á Gaza. Ástæðan sem aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gaf fyrir þeirri valdbeitingu, í viðtali við fréttamann Vísis, var að mótmælendur hefðu „hindrað komu ráðherrabíla á staðinn“ og að þegar ráðherrar hafi ætlað að komast í burtu hefðu mótmælendur „lagst á götuna, hrækt á ráðherrabíl og ýtt við þeim“. Í myndböndum sem hafa birst á fréttamiðlum sést að lögregla úðaði á mótmælendur sem lágu hreyfingarlausir á götu og gangstétt og að áfram var úðað eftir að búið var að tryggja að ökutæki ráðherranna kæmust í burtu.
„Ráðamenn þurfa nefnilega að una við það ef mótmælendur valda þeim óþægindum, svo sem með því að tefja för þeirra. Það er einfaldlega lýðræðislegur réttur þeirra.“
Miðað við þær ástæður sem aðalvarðstjóri lögreglunnar gaf fyrir því að piparúða var úðað í andlit mótmælenda virðist töluvert vanta upp á að mótmælin hafi getað talist vera ófriðsamleg. Ráðamenn þurfa nefnilega að una við það ef mótmælendur valda þeim óþægindum, svo sem með því að tefja för þeirra. Það er einfaldlega lýðræðislegur réttur þeirra. Þá virðist augljóst að lögregla hafi beitt valdi sínu óhóflega og gengið lengra en var „óhjákvæmilegt“.
Undanfarið hafa viðlíka mótmæli víða bæði í Bandaríkjunum og Evrópu mætt mikilli hörku af hálfu lögreglu. Friðsamir mótmælendur hafa verið beittir ofbeldi í skjóli lögregluvalds. Það er verulega uggvænlegt ef íslensk lögregla ætlar að fara sömu leið. Með því er lýðræðinu sjálfu ógnað.
Höfundur er lögmaður og eigandi á Rétti - Aðalsteinsson & Partners
Ísland er ekki lýðræðisríki heldur lögreggluríki.