Frá byrjun árs 2023 og út apríl síðastliðinn leystu fjárfestar hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóðum sem reknir eru af íslenskum sjóðsstýringarfyrirtækjum út slík skírteini fyrir alls 63,4 milljónir króna á meðan að sjóðirnir seldu ný hlutdeildarskírteini fyrir 47,5 milljarða króna. Þeir losuðu því um 15,9 milljarða króna umfram það sem þeir keyptu í sjóðunum.
Þetta er algjör viðsnúningur við það sem átti sér stað frá miðju ári 2020 og út árið 2022. Þá keyptu fjárfestar hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóðum fyrir 82 milljarða króna en innlausnir voru um 38 milljarðar króna. Því voru seld hlutdeildarskírteini fyrir 44 milljörðum krónum meira en það sem tekið var út úr sjóðunum á þessu tímabili, en á því voru vextir í sögulegu lágmarki, verðbólga lítil og stjórnvöld gripu til margháttaðra aðgerða til að örva atvinnulífið og fjárfestingu.
Síðastliðið tæpt eitt og hálft ár hefur staðan gjörbreyst og áhugi landsmanna á því að fjárfesta í hlutabréfasjóðum hríðfallið samhliða. Nú eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 9,25 prósent og munu hafa verið það í eitt ár þegar kemur að næstu vaxtaákvörðun í ágúst. Verðbólga fór um tíma í tveggja stafa tölu, hefur reynst þrálát og mælist nú sex prósent. Þá hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila landsins lækkað í fimm af síðustu ársfjórðungum. Á tæpu einu og hálfu ári, frá ársbyrjun 2022 og út apríl síðastliðinn, minnkaði eign heimila í hlutabréfasjóðum úr tæplega 56 milljörðum króna í 37,5 milljarða króna, eða um þriðjung.
Athugasemdir