Frumvarp um lagareldi? Bara þetta orð er kjaftæði, yfirskyn og smjörklípa, sagði móðir mín. Nú er búið að finna eitthvað stofnanalegt orð sem enginn skilur til að milda ásýnd og fjarlægja ofbeldisgjörninginn og árásina sem felst í fyrirbærinu.
Lagareldi? Köllum þetta það sem það er. Þetta er fiskeldisstóriðja, risafyrirtæki í umdeildri matvælaframleiðslu í miðju viðkvæmu lífríki hafsins, lífríki sem hart er sótt að fyrir. Og sjórinn tekur ekki meira við.
Þetta er afæturekstur í viðkvæmu vistkerfi á norðurhjara og árás á fólk um allt land sem er að gera annað. Árás á atvinnustarfssemi við allar veiðiár landsins sem mörghundruð manns hafa nú þegar lifibrauð og unun af og kynslóðir hafa nostrað við í kærleika og vinsemd, árnar sem hafa fóstrað og fætt okkur aftur í aldir.
Og svo er þetta auðvitað gjafagjörningur. Gjörið svo vel, erlendu auðhringir. Hér er Ísland í vaskafati fyrir mógúla til að taka í nösina. Eitthvað á þessa leið var samtal okkar mömmu.
Bannorð
Eru þetta þá ekki landráð? Uss, mamma, það er bannorð, landráð er orð sem við megum ekki einu sinni hvísla á meðan verið er gefa landið úr landi. Og hættan við að selja náttúruperlur úr landi er að nýir eigendur verða andlitslausir.
Þeir búa annarsstaðar og heimurinn er einn stór leikvöllur fyrir ósýnlega risa sem aldrei fá nóg. Þeir búa ekki hér, þeir búa ekki við árnar og ekki í fjörðunum og taka ekki þátt í samfélaginu. Rétt eins og þegar einhverjir migu í alla skóna okkar og seldu undirstöðurnar, innviðakerfið okkar allra, HS Orku, til erlendra mógúla.
Þessi andlitslausu fléttufyrirtæki eru ekki með landið í æðakerfinu og finna aldrei fyrir þeim grunntakti í hjartanu að vernda og standa vörð um lífríki fyrir komandi kynslóðir, en horfa einungis á arðsemi rekstrareininga sem mógúlarnir hafa komið sér upp víða um veröldina.
Þeir horfa á heildarhagnað af sölu á markaði miðað við framleiðslukostnað allsstaðar og ekkert annað er marktækt. Fjörðurinn, árnar og fjöllin. Fólkið, vistkerfin, lífríkið, eyðing villtra tegunda og arfur ófæddra barna kemur aldrei fyrir í þessum hagnaðartölum þeirra.
Kjánar eða klækjarefir
Og í hegningarlögum er talað um að fangelsa þann: sem semur eða gerir út um eitthvað við annað ríki ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Uss, ekki tala um landráð. Það er alveg bannað. En hvað ef gjörningurinn er fyrir annað ríki en ekki við það eða fyrir örfáa auðkýfinga? Það stendur ekkert um það í hegningarlögum.
Þegar illvirki eru framin þá er oft um tvennt að velja. Annað hvort er illvirkinn sjálfur nytsamur sakleysingi sem ekki kann fótum sínum forráð og hefur jafnvel komið sér í slæman félagsskap sem hefur vaxið honum yfir höfuð. Og í kjánaskap sínum bruggar hann svo svikráð í einlægri trú á málsstað sem honum er kennt að tileinka sér en allir vita að er vitleysa.
Eða þá að viðkomandi atvinnugjafi almenningseigna er í raun slóttugur baktjaldamakkari, klækjarefur sem gengur leynilegra erinda ósýnilegra hrappa og er staðráðinn í að klára málið í von um eigin hagnað eða annarra sem hann á eitthvað undir.
Handbókin Hvernig á að gefa auðlindir
Í öllu falli, í handbókinni Hvernig á að gefa auðlindir, er strax í fyrsta kafla útskýrt að best sé að leggja fram gallað frumvarp þar sem vanti langtímaleiguskilmála yfir gjafagjörninginn. Þannig skilmálar eru hvort sem er gjöf í sjálfu sér.
Með gölluðu frumvarpi skapast svo deilur um tittlingaskít. Sem er gott. Þannig er strax búið að leiða umræðuna framhjá kröfu yfir 70 prósent landsmanna um að koma fiskeldinu uppúr sjónum. Þannig er búið að taka af borðinu háværa kröfu um að semja frumvarp sem miði að því að afleggja þennan skaðlega iðnað.
Samkvæmt handbókinni er svo mjög gott að fallast á að senda gjafafrumvarpið í viðgerð hjá nefnd. Viðgerðarnefndin mun svo að sjálfsögðu skila því aftur með langtímaleiguskilmálanum, sem skiptir samt engu máli, og þá ættu flestir að anda léttar.
Svo er mikilvægt að benda eins oft og hægt er á að alltaf þegar alvarleg náttúruspjöll verði í lífríkinu hringinn í kringum landið frá svona sjólaxaverksmiðjum þá verði risafyrirtækin auðvitað sektuð um einhverjar millur. Sem verða samt smápeningar fyrir þessi fyrirtæki.
En fjársektir lagfæra að vísu ekki umhverfisslys. Og það vita auðvitað allir en um að gera að fara ekki að láta umræðuna snúast um það. Fjársektir endurvekja ekki dauð lífríki. Fjársektir endurheimta ekki villta laxastofninn. En í handbókinni segir líka að það sé mikilvægt að tala ekki um það en leggja ofuráherslu á fjársektir.
Vistmorð
Í sumarbyrjun 2022 vísuðu tólf þingmenn Pírata, VG, Samfylkingar og Viðreisnar þingsályktunartillögu til ríkisstjórnar um að vistmorð yrði viðurkennt sem alþjóðaglæpur. Vistmorð er skilgreint sem alvarlegt og stórfellt brot gegn vistkerfi náttúrunnar og er íslenska þýðingin á hugtakinu eco-cide. Ef villtri dýrategund er markvisst og meðvitað útrýmt með einhverri starfssemi þá skilgreinist gjörningurinn sem vistmorð.
Einhversstaðar grófst þessi mikilvæga tillaga undir haug af rusli. Það hefði verið gott að minna VG á þessa tillögu nú þegar það á að troða þessu frumvarpi með langleiguskilmálum ofan í kokið á þjóðinni.
En mamma, við megum ekki nota upphátt svona orð eins og landráð og vistmorð.
Nei, en við skulum þó þakka íhaldinu það að það er alltaf grímulaust, sagði mamma. Það reynir aldrei að vera annað en það er, það er að segja handlangarar í gjafa- og einkavæðingaferli með almannaeigur. Íhaldið er alltaf á fullu að selja sameignina og segir það hátt og skýrt og telur náfölum og bláeygum söfnuði sínum trú um að það sé gert fyrir hjörðina, og þau trúa því, greyin.
Þar er í gangi eitthvað Stokkhólms-heilkenni, nokkurskonar trúarbragða dáleiðsla því að þetta er ekki lauslegt skoðanabandalag heldur sértrúarsöfnuður sem kyrjar möntrur sem hann skilur ekki sjálfur. Og nú eru þeir búnir að uppgötva íslensku náttúruna sem kapítal.
Teslumálaráðherra
Og nýja mantran er orkuskortur, orkuneyð og græn orka strax, annars förumst við öll. Já, þeir lærðu að markaðsnýta sér græna litinn. Vel gert. Og um leið hefur tekist svo meistaralega að leggja niður umhverfisráðuneytið þegar við sem heimsbúar lifum þá tíma að það ætti að vera mikilvægasta ráðuneyti landsins og allra landa.
En þetta er allt í handbókinni. Og þeir hafa komið sér upp sérlegum Teslumálaráðherra sem segist vinna í þágu loftslagsins en er auðvitað á fleygiferð í einkavæðingarferlinu fyrir allskonar ósýnlega mógúla sem eiga að fá náttúruauðlindir frítt til að gera úr þeim skrilljón trilljónir fyrir sig og sína og helst úti í löndum. Þetta er allt í handbókinni, þeirri sömu og var notuð þegar greifarnir fengu kvótann.
Og Teslumálaráðherrann verður bara ringlaður ef það á að ræða innrás norskra stórfyrirtækja í íslenskt lífríki, tala um útrýmingu villtra tegunda og náttúruvernd. Hann skilur það ekki, frekar en svo margt annað. Enda er hann ekki umhverfisráðherra. Já, já, þetta er allt í handbókinni.
En hvað með Alþingi, á það fólk ekki að gæta sameiginlegra auðæfa okkar? Alþingi er handónýtur, sundurlaus her af allskonar fólki með mismerkilegar ástæður fyrir því að hanga þar inni, sagði mamma. Uss, ekki segja svona. Þetta er löggjafinn sjálfur. Ég gef ekkert fyrir löggjafa sem býr til svona gjafafrumvarp, snikkar það aðeins til í nefnd, vittu til, og afgreiðir svo með lokuð augun og hlustar ekki á þjóð sína.
Athugasemdir (8)