Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Ísland hefur aldrei verið með færri stig á lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum

Ís­land sit­ur áfram í sama sæti og land­ið gerði í fyrra í mæl­ingu Blaða­manna án landa­mæra á fjöl­miðla­frelsi. Land­ið hef­ur aldrei far­ið neð­ar á list­an­um en það en fram­an af öld­inni sat Ís­landi í efstu sæt­um hans. Ófræg­ing­ar­her­ferð­ir og lög­reglu­rann­sókn­ir á blaða­mönn­um er með­al þess sem dreg­ur Ís­land nið­ur.

Ísland hefur aldrei verið með færri stig á lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum
Fjölmiðlafrelsi Blaðamenn hafa það hlutverk að upplýsa almenning og veita valdhöfum aðhald. Ef þeim tekst vel til, og samfélaginu tekst að tryggja þeim viðeigandi starfsaðstæður til að stunda sína vinnu, þá mælist fjölmiðlafrelsi mikið. Ef það tekst ekki þá minnkar það. Mynd: Golli

Ísland situr áfram í 18. sæti á lista Blaðamanna án landamæra sem mælir fjölmiðlafrelsi í 180 ríki heimsins og var birtur í dag, en stigafjöldi landsins dregst saman milli ára og hefur aldrei verið lægri. Þetta er lægsta sæti sem Ísland hefur setið í síðan 2016, en Ísland mældist oftast nær í efstu sætum listans framan af þessari öld. Þannig var Ísland í fyrsta sæti á lista samtakanna yfir þau lönd þar sem fjölmiðlafrelsi var mest árið 2008 og í öðru sæti tveimur árum síðar.

Frá þeim tíma hefur Ísland hrapað hratt á listanum. Fyrsta fallið kom á árunum 2015 og 2016, þegar Íslandi féll niður í 19. og 21. sæti listans. Það var komið í 10. sæti árið 2017 og hefur verið í 15. til 16. sæti á síðustu árum. Nú er Ísland, líkt og áður sagði, komið í 18. sætið. 

Áfram sem áður raða nágrannalönd okkar sér í efstu sætin. Noregur trónir á toppnum á meðan að Danmörk, Svíþjóð og Finnland sitja í sætum þrjú til fimm. Eina landið sem smeygir sér á milli Norðurlandanna í þeim sætum er Holland sem situr í fjórða sæti. 

Eignahald getur skapa hagsmunaárekstur

Á meðal þess sem tiltekið er í greiningu samtakanna á íslenskum fjölmiðlamarkaði er að stór sjávarútvegsfyrirtæki eigi fjölmiðlafyrirtæki og að það veki upp spurningar um hagsmunaárekstra. Er þar átt við eignarhald fjölskyldunnar sem er stærsti eigandi Ísfélagsins, Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar, og Kaupfélags Skagfirðinga á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Tap þeirrar fjölmiðlasamstæðu frá því að áhrifahópar innan íslensks sjávarútvegs keyptu hana árið 2009 var farið að nálgast þrjá milljarða króna í lok árs 2022. 

Þá er sérstaklega tekið fram að blaðamenn sem stóðu að umfjöllun um Samherja og meinta glæpi þess fyrirtækis frá árinu 2019 hafi þurft að sæta lögreglurannsókn og opinberri ófrægingarherferð. Er þar vísað í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á fimm blaðamönnum, þar af fjórum sem starfa í dag á Heimildinni, fyrir meint brot á friðhelgi einkalífs vegna umfjöllunar um hina svokölluðu Skæruliðadeild Samherja sem birt var í maí 2021. Umrædd rannsókn hefur staðið í þrjú ár og 26 mánuðir eru síðan að fjórir blaðamannanna fengu stöðu sakbornings í málinu. Þeir hafa verið yfirheyrðir einu sinni, í ágúst 2022. 

Óvægin gagnrýni frá stjórnmálamönnum

Samtökin tiltaka líka að blaðamenn hafi orðið fyrir sífellt óvægnari gagnrýni á Alþingi sem sumir blaðamenn upplifi sem pólitískan þrýsting. Lagaumhverfi blaðamanna sé að uppistöðu í lagi og tryggi fjölmiðlafrelsi ásamt aðgengi að opinberum upplýsingum. Framfylgd þeirra laga sé hins vegar annað mál og það hafi holdgervst í þeirri stöðu sem kom upp í kringum jarðhræringarnar á Reykjanesi, þegar lögregluyfirvöld ætluðu að skerða verulega aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðinu. Lausn náðist í því máli fyrr á þessu ári, eftir að Blaðamannafélag Íslands stefndi íslenska ríkinu, en í henni felst að blaðamenn og ljósmyndarar eru skilgreindir sem viðbragðsaðilar og fá sama aðgengi og aðrir slíkir. Blaðamenn án landamæra segja að siðareglukerfi íslenskra blaðamanna, sem myndar faglegan grunn undir starfsemi þeirra, virki vel. 

Efnahagsleg staða íslenskra fjölmiðla er sögð slæm. Þótt rannsóknarblaðamennska hafi vaxið í kjölfar stórra afhjúpanna á spillingarmálum á síðustu árum þá hafa auglýsingatekjur hríðfallið. Þessu hafi stjórnvöld mætt með uppsetningu á styrkjakerfi en áhyggjur séu af því innan blaðamannastéttarinnar að það kerfi gagnist fyrst og síðast stærstu fjölmiðlafyrirtækjunum. 

Flestir blaðamenn á Íslandi upplifa sig nokkuð örugga og hræðast ekki að verða beittir líkamlegu ofbeldi. Kvenkyns blaðamenn verði þó endrum og sinnum fyrir því að vera hótað símleiðis eða í gegnum ummælum á samfélagsmiðlum. Þetta vandamál er, samkvæmt greiningunni, vaxandi á Íslandi. 

Norður-Kórea skríður af botninum

Í samantekt Blaðamanna án landamæra er 180 löndum og svæðum raðað upp í röð eftir fjöl­miðla­frelsi. Hún byggir á því að sér­­fræð­ingar svara spurn­inga­list­­anum sem gerður er af sam­tök­un­­um. Þau svör eru síðan greind og lönd­unum gefin ein­kunn. Því hærri sem hún er, því meira er fjöl­miðla­frels­ið. Nor­egur fær til að mynda ein­kunn­ina 91,89.

Ísland fær hins vegar 80,13 og stiga­­fjöldi lands­ins dregst saman um 3,06 stig  á milli ára. 

Eritrea vermir neðsta sæti list­ans en skammt fyrir ofan það er Sýrland og Afganistan situr í þriðja neðsta sætinu. Einræðisríkið Norður-Kórea, sem sat á botninum í fyrra, situr nú í sæti 177 og stórveldið Kína, sem var í næst neðsta sæti fyrir ári síðan, klifrar upp í sæti 172. 


Fyrirvari um hagsmuni: Í fréttinni er fjallað um atburði sem tengjast Heimildinni og starfsmönnum fjölmiðilsins beint. Höfundur er á meðal þeirra sem eru með réttastöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem fjallað er um.
Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Júlía Margrét Alexandersdóttir
2
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár