Fyrir um tíu árum varð það allt í einu vinsælt meðal strákahópa í kringum mig að gera sér glaðan dag og borða saman á Jómfrúnni. Ástæðan var ekki að þessir skítblönku nýstúdentar, sem yfirleitt gæddu sér á núðlum og frosnum pitsum, hefðu séð ljósið og væru núna orðnir sólgnir í danskt smørrebrød, nei, ástæðan var að sögn vinar míns að það var fyndið. Þetta var kaldhæðni.
Líkt og aðrir gestir mættu þeir, pöntuðu sér smurbrauð, borðuðu myglaða osta, hlógu, grétu og skáluðu í ákavíti. Ólíkt hinum gestunum voru þeir samt ekki að meina neitt með þessu. Kvöldið þeirra var á allt öðrum forsendum, ánægjan fólgin í sameiginlegri vitneskju um að tilheyra ekki markhópnum.
Ég kannast við þetta, taldi mig til að mynda lengi vel ekki vera af sama sauðarhúsi og alvöru aðdáendur raunveruleikasjónvarps og stjörnuspeki þótt ég missti aldrei af þætti og kenndi stöðu Merkúríusar um týnda lykla og slæmt skap. Ég neytti nefnilega raunveruleikasjónvarps og stjörnuspeki á allt annan hátt en upprunalega var ætlað. Utan frá séð leit þetta auðvitað nákvæmlega eins út en það var samt munur þarna á milli, hélt ég.
Í dag er ég ekki viss. Ég bara get ekki séð muninn á því að gera eitthvað og að gera eitthvað í djóki. Ef niðurstaðan er sú sama óháð ásetningi, hvar er þá djókið?
Fólk, sem í kaldhæðni, horfir á LXS skvísurnar, tekur sjálfu með Brynjari Níelssyni eða mætir á ársfund Miðflokksins er ekki að gera neitt öðruvísi en hópurinn sem gert er grín að, nema kannski að firra sig ábyrgð, skapa fjarlægð milli hegðunar og skoðana í skjóli kaldhæðni og gríns.
Áhættusamt, allavega ef maður vill ekki enda sem aðhlátursefnið. Hegðun sem byrjar í gríni endar oftar en ekki sem alvara, hvort sem það var ásetningurinn eða ekki. Ég les stjörnuspána mína í hverri viku og strákahóparnir hafa verið fastagestir á Jommunni í meira en áratug. Grín eða ekki grín, hver veit?
Athugasemdir