Nýlega undirritaði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, plagg um endnýjaða hernaðaraðstoð til Úkraínu og lauk þar með sex mánaða langri pattstöðu innan fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Í kjölfarið fylgdu aðrar þjóðir eins og Bretland og Danmörk með sín eigin loforð um vopnaaðstoð.
Ekki hefði mátt seinna vera, því að staðan á framlínunni er grafalvarleg. Merki eru um að glufur séu að myndast sökum skotfæraleysis og þreyttra hermanna, sem margir hverjir hafa ekki fengið leyfi í rúm tvö ár.
Borgir og bæir víðs vegar um land standa frammi fyrir stórfelldum loftárásum. Fréttir af látnum og slösuðum borgurum berast nær daglega og er fullvíst að Rússar munu bæta í árásir á næstunni áður en hjálpin berst.
Lagafrumvarpið er fyrst og fremst fjárveitingarfrumvarp. Bandaríkin taka til hliðar 61 milljarð dala sem verja á í aðstoð sem tengist Úkraínu.
Af þeim eiga 23 milljarðar að fara í að fylla vopnabirgðir, 14 milljarðar í að kaupa búnað af bandarískum vopnaframleiðendum og senda til Úkraínu, ellefu milljarðar í að styrkja bandarískar aðgerðir á svæðinu og svo fárra milljarða annars konar aðstoð, eins og að borga laun, eftirlaun og að tryggja að ríkissjóður Úkraínu haldist á floti.
Tékkland og Eistland, í samvinnu við aðrar þjóðir, þar á meðal Ísland, hafa tekið að sér að útvega mikið magn skotfæra fyrir stórskotalið Úkraínu. Eins og staðan er hafa safnast saman um tvær og hálf milljón sprengjuskota og munu fyrstu sendingarnar úr því framtaki lenda í Úkraínu fljótlega.
Loforð berast víða að um bættar loftvarnir. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, kveðst ætla að senda sjö Patriot-loftvarnarkerfi til viðbótar og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir Hollendinga tilbúna að kaupa öll þau kerfi sem þeim býðst og senda til Úkraínu. Bandaríkin munu leggja til skotfæri í Patriot, Nasam, Sidewinder, Stinger og Sesparrow svo fátt eitt sé nefnt.
Nánar um þetta og mun meira í nýjustu Úkraínuskýrslunni sem birtist hér.
Athugasemdir