Ég á mér minningar um mig spilandi á fiðluna svo langt sem minnið nær. Ég er nefnilega Suzuki-barn og byrjaði þ.a.l. fiðlunám fyrir þriggja ára aldur. Suzuki-tónlistarnám gengur út á að börn læra lög með því að hlusta á tónlistina sem þau nema og byrja börn iðulega mjög ung í námi. Suzuki-börn læra þannig tónlist eftir eyranu en síðar meir að lesa nótur. Fiðlunámið sóttist mér mjög vel. Ég hafði því snemma metnað til þess að ná góðum tökum á flóknum tónverkum. Það náðist ekki öðruvísi en með aga og æfingum og ég var ung farin að æfa upp undir tvær klukkustundir á dag. Ég á m.a. dýrmæta minningu af tónleikum þar sem við spiluðum fyrir frú Vigdísi og vorum mjög upp með okkur.
Það er þekkt að börn sem stunda tómstundir af kappi læra ung að skipuleggja sig vel – nýta tímann. Sem barn var ég auðvitað í skóla og því fylgdi hefðbundið heimanám. En ég þurfti að eiga tíma fyrir fiðlutíma og -æfingar og svo var ég líka í kór. Þess fyrir utan hef ég alltaf verið mjög félagslynd og útrásin fyrir það var ekki mikil í fiðlunáminu. Það þurfti því að kreista út tíma fyrir vinina líka. Lykillinn að þessu öllu var mikið skipulag og hámarksnýting á tíma.
Ég hef alltaf verið skapmikil og átt í „örlitlum“ erfiðleikum með skapið mitt. Sem unglingur fékk ég útrás fyrir það með því að byrja að hlaupa. Hlaup hafa fylgt mér alla tíð síðan. Þau eru kannski meira í félagslegum tilgangi í seinni tíð en til að ná mér niður. Hluti skapgerðarvandans er að fara í fýlu og það hefur verið gott á mig að glíma við litla útgáfu af sjálfri mér í dóttur minni. Þegar ég var 19 ára missti ég systur mína og bestu vinkonu úr fíknisjúkdómi. Þá lærðum við fjölskyldan dýrmæta en dýrkeypta lexíu. Það er nefnilega alls óvíst að við fáum eins langan tíma og við höldum til þess að jafna okkur; til þess að vera reið og í fýlu. Það kemur ekki alltaf dagur eftir þennan dag og það er því mikilvægt að skilja við fólk og okkur sjálf þannig að við getum lifað með því.
„Það er nefnilega alls óvíst að við fáum eins langan tíma og við höldum til þess að jafna okkur; til þess að vera reið og í fýlu.“
Þessar lexíur og vinnubrögð hafa fylgt mér út á vinnumarkaðinn. Ég reyni að vera skipulögð og öguð og koma vel fram við samstarfs- og samferðafólk mitt. Það er ekki óalgengt að keyra fram á mig að vinna í kyrrstæðum bílnum og tölvan kemur iðulega með á hárgreiðslustofuna. Ég er síðan oftast með vinnugögn og lestrarbækur á mér ef ég skyldi þurfa að drepa tíma. Á lögmannsstofunni þar sem ég hóf lögmannsferil minn eftir lögfræðinám fékk ég góða ráðgjöf. Ég hafði lent í samstuði við kollega úr lögmannastéttinni og mætti á skrifstofuna rjóð í vöngum og heitt í hamsi. Mér þótti lögmaðurinn hafa sýnt mér vanvirðingu og yfirgang og vildi skrifa honum harðort bréf. Og helst afrit til samstarfsmanna hans. Einn yfirmanna minna ráðlagði mér að skrifa bréfið, en geyma það yfir nótt – svokallað skúffubréf. Ég fór að ráðum hans og skemmst er frá því að segja að viðkomandi lögmaður á ekki skriflegar skammir frá mér frá þessum tíma.
Ofangreindur lærdómur kemur sér vel í núverandi starfi sem kjörinn fulltrúi á Alþingi. Skipulag og að nýta tímann sem allra best. Að koma vel fram við fólk og gera ekki ráð fyrir endalausum tíma til góðra verka (og fyrir fýluköst). Og síðast en ekki síst að hugsa mig tvisvar um áður en ég læt eitthvað frá mér á prenti. Þau eru ófá skúffubréfin sem hafa verið skrifuð undanfarna mánuði og ár. Hins vegar viðurkenni ég að hafa einstaka sinnum tekið upp símann of fljótt. Ég ætti e.t.v. að tileinka mér líka að útbúa skúffu-talskilaboð.
Eftir því sem árin líða áttar maður sig líka á því hversu lítið Ísland er í raun og veru. Sama fólkið dúkkar reglulega upp við sjóndeildarhringinn, ósjaldan við aðstæður sem maður hefði aldrei getað séð fyrir. Það er því óskhyggja eða fyrirhyggjuleysi að halda að maður þurfi ekki að skipta við sama fólkið oft á lífsleiðinni. Að á litla Íslandi séu ekki raunverulegar líkur á að festast í lyftu með einhverjum sem maður öskraði á í biðröð eða í bílalúgu.
Athugasemdir