Félagsskapur með sjálfum mér
Hugljúf og á köflum bráðfyndin kvöldstund með Unnari, fólkinu í lífi hans, sorginni og silfurskottu.
Leikhús: Tjarnarbíó
Leikari og handritshöfundur: Gunnar Smári Jóhannesson
Leikstjóri: Tómas Helgi Baldursson
Tónlist: Íris Rós Ragnhildar
Leikmynd og grafík: Auður Katrín Víðisdóttir
Ljós: Jóhann Friðrik Ágústsson
Að tala um áföll krefst hugrekkis en að kafa ofan í afleiðingar áfalla krefst annars konar einurðar. Gunnar Smári Jóhannesson missti báða foreldra sína barnungur, fyrst föður sinn og síðar móður sína á voveiflegan hátt. Annað fráfall nákomins ættingja beið hans síðan í náinni framtíð. Félagsskapur með sjálfum mér er leikverk sem sprettur upp úr þessari sorg en er einnig tilraun til að takast á við eftirleik harmleiks.
Til að gæta gagnsæis skal koma fram að pistlahöfundur sleit barnsskónum í sama litla bæjarfélaginu á Vestfjörðum og Gunnar Smári en flutti suður áður en harmurinn skall á fjölskyldu hans. Pistlahöfundur þekkir til og þekkir flest fólkið sem kemur við sögu en aðallega úr fjarska.
Skapar lokaða kvíðaveröld
Eins og titillinn gefur til kynna er Félagsskapur með sjálfum mér einleikur. Gunnar umbreytist í Unnar sem berst við afleiðingar missis og mikillar sorgar. Til að verjast frekari harmi einangrar hann sig en skapar í kjölfarið sína eigin örsmáu og lokuðu kvíðaveröld. Eini fjölskyldumeðlimurinn sem birtist í samtíðinni er systir hans, Dísa, en yfirvofandi heimsókn hennar með nýja kærastann kveikir kvíðabál innra með Unnari.
Gunnar bregður sér í hlutverk ýmissa einstaklinga sem verða á vegi hans, þar á meðal foreldra sinna, en móðir hans birtist eftirminnilega í hans túlkun með sígarettu í hendi. Áhorfendur hitta fjöldann allan af karakterum úr þorpinu og höfuðborginni sem sumir þekkja, aðrir ekki en allir kannast við týpurnar. Konurnar sem vilja ólmar koma með mat til að gera sorgina bærilegri, maðurinn í sundlauginni sem getur ekki hætt að tala og eldra fólk sem keppist við að deila visku sinni.
„Öll sem hafa misst einhvern nákominn vita að ekki er hægt að skila sorginni eða lækna heldur eingöngu að læra að lifa með henni, lifa með sjálfum sér, ekki bara í einrúmi heldur sem þátttakandi í samfélaginu“
Gunnar leysir krefjandi verkefni vel af hendi
Unnar finnur huggun í ákveðnum og föstum faðmi kvenna sem hafa allt séð, þá helst ömmu sinni og hjúkrunarfræðingi á Grund. En Unnar leitar líka í faðm hugaróra til að vernda sig gegn umhverfinu og gera skil á sínum eigin tilfinningum, þar eru hasarferð í sundlaugina og samtal við silfurskottu eftirminnilegust enda stutt vegalengd frá harmi til húmors. Gunnar leysir krefjandi verkefni vel af hendi, þá sérstaklega í ljósi þess að saga Unnars er hans saga og kómísk tímasetning hans smellhittir oft í mark. Sumar senur dragast þó á langinn, aðrar mætti endurskoða og stundum mætti Gunnar leyfa sér að kafa dýpra, fara lengra í sínum innri átökum. En slíkt er hægara skrifað en gert.
Hugljúf og á köflum bráðfyndin
Listræn umgjörð sýningarinnar er lágstemmd sem setur sviðsljósið laglega á Unnar. Listræna teymið er ungt að árum og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni. Tómas Helgi Baldursson leikstýrir af næmni og gefur Gunnari frelsi til að vera hann sjálfur en uppbrot sýningarinnar mættu vera fleiri. Leikmynd Auðar Katrínar Víðisdóttur er að sama skapi stílhrein í einfaldleika sínum en í einleik verður að velja leikmuni af kostgæfni, beddinn er góð lausn sem miðpunktur en aðrir leikmunir lítið notaðir. Að lokum styður áferðarfögur tónlist Írisar Rósar Ragnhildar vel við frásögnina.
Öll sem hafa misst einhvern nákominn vita að ekki er hægt að skila sorginni eða lækna heldur eingöngu að læra að lifa með henni, lifa með sjálfum sér, ekki bara í einrúmi heldur sem þátttakandi í samfélaginu og taka ábyrgð á því að vera til. Félagsskapur með sjálfum mér opnar fallega á þessa baráttu án þess að höfundur velti sér of mikið upp úr þeim skelfilegu atburðum sem áttu sér stað í lífi hans. Niðurstaðan er hugljúf og á köflum bráðfyndin kvöldstund með Unnari, fólkinu í lífi hans, sorginni og silfurskottu.
Athugasemdir