Það er þrennt sem kemur sterkast upp í huga mér þegar ég velti fyrir mér þema þessara pistla: „Það sem ég hef lært“. Það að kunna að hlusta, að hætta að hræðast mistök og svo það að ég læri bara góða hluti þegar ég er tilbúinn að taka við þeim. Þetta er í rauninni allt saman tengt.
Það er alveg merkilegt hversu oft ég heyri eitthvað, eða verð vitni að einhverju, einmitt á hárréttum tíma. Einmitt þegar ég þurfti á því að halda að heyra það. En það er ekki bara heppni, eða ótrúleg tilviljun, heldur, einhverra hluta vegna, hef ég bara einmitt þá verið opinn fyrir því að heyra það eða sjá. Við getum heyrt sama hlutinn þúsund sinnum áður en við loksins heyrum hann. Og þá allt í einu heyrir maður hann úti um allt! Ótrúleg tilviljun að allir séu allt í einu að segja það sem ég þurfti að heyra! Það er ekki það sama að heyra og að hlusta. Ég hef ekki alltaf verið að hlusta.
Að hlusta
Mér hefur fundist ég vera að hlusta, jafnvel verið sannfærður um það, en ég var samt ekki í alvöru að hlusta. Ekki að hlusta til að skilja. Ég var þá kannski að hlusta til að fá staðfestingu á einhverju sem ég var viss um. Þá heyrði ég bara það sem gat mögulega staðfest það sem „ég vissi“. Aftur á móti fannst mér sjálfsagt að aðrir hlustuðu á það sem ég var að segja. Og heyrðu það, og skildu.
Það er áhugavert að velta því fyrir sér af hverju við erum ekki sérstaklega góð í að hlusta. Ég held við séum oft ekki meðvituð um það, höldum jafnvel að við séum að hlusta. Kannski erum við hrædd um að heyra eitthvað sem getur jafnvel látið okkur skipta um skoðun, sem mörgum finnst erfið tilhugsun. Mér líka, þó sem betur fer ekki eins oft og áður. Það er barasta ekkert slæmt að skipta um skoðun af og til, og þó það væri oft.
Ég er til dæmis alls ekki alltaf sammála skoðunum sem ég hef sjálfur haft. Af ýmsum ástæðum. Til dæmis af því ég hef elst og þroskast, með öllu sem því fylgir. Eða stundum af því að ég var einhverra hluta vegna opinn fyrir því að hlusta og heyra eitthvað sem einhver annar sagði, sem lét mig skipta um skoðun. Og sem betur fer hef ég leyft mér að breyta skoðun minni margoft. Ekki alltaf, stundum er ég enn þá þrjóskur, eða bara sannfærður um að ég hafi rétt fyrir mér.
„Það liggur dásamlegt frelsi í því að hræðast ekki mistök“
Merkileg þessi keppni sem við lendum oft í, um það að hafa rétt fyrir okkur. Þá megum við alls ekki „tapa“. Við erum hrædd um að hafa rangt fyrir okkur. En ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð neinn „vinna“ svona keppni. Og reyndar set ég stórt spurningarmerki við að það sé eitthvað eftirsóknarvert. Eftir slíka keppni getur báðum, eða jafnvel öllum aðilum, fundist þau hafa unnið. Því þau heyrðu ekkert annað en það sem þau völdu að heyra. Þau sem voru sammála þeim voru sammála: Þetta var fullkominn sigur! Ég hef tekið þátt í svona keppni margoft, hrokkið í vörn, reynt að sigra, orðið svekktur að ekki var hlustað á mig … en hlustaði svo sem ekki sjálfur almennilega.
Mér finnst mun eftirsóknarverðara að sjá fólk skiptast á skoðunum og raunverulega hlusta á hvað annað. Það þarf ekkert meira. Enginn þarf að vinna. Bara að hlusta og vonandi skilja aðeins betur.
Mistökin
Svo er það það sem ég hef líklega lært mest af í lífinu: Mistökin.
Ég hef meira og minna unnið á vettvangi sem snýst um það að koma fram. Að framkvæma mína vinnu fyrir framan annað fólk, á sviði, fyrir framan myndavélar eða hljóðnema og ókunnugt fólk horfir eða hlustar á. Samkvæmt skoðanakönnunum eru þetta aðstæður sem afskaplega margir hræðast. Ég skil það alveg. Það er hræðslan við að gera sig að fífli, eða að gera mistök fyrir framan aðra. Að aðrir geti orðið vitni að þínu klúðri.
Það liggur dásamlegt frelsi í því að hræðast ekki mistök. Í rauninni er það mikilvægasta sem við fengum í leiklistarskólanum að fá að gera mistök í fjögur ár í vernduðu umhverfi. Að fá að gera endalaus mistök og læra af þeim og hægt og rólega líða betur í aðstæðunum, verða færari og hætta að hræðast mistökin, því án þeirra lærum við ekkert.
Ekkert hefur hjálpað mér meira í að hætta að hræðast mistök en að taka þátt í spuna, á sviði eða fyrir framan myndavél. Það að vita ekkert hvað kemur næst. Það kom hingað erlendur kennari sem sérhæfði sig í spuna og hann kenndi okkur að það gerist galdur ef við þorum að ganga inn í spuna með enga hugmynd um hvað við ætluðum að gera. Með alveg tóman huga. Þar af leiðandi opinn huga. Ef allir sem taka þátt í spunanum gera það líka; koma inn án þess að vera búin að ákveða hvað þau ætla að gera, þá gerist galdurinn. Þegar tvær, eða fleiri, manneskjur reyna að leika atriði sem ekki er búið að skrifa, þar sem þau vita ekki hver segir hvað næst og hvað á að gerast næst, þá krefur það þau um að vera á tánum og hlusta á hvert annað af mikilli næmni.
„Aðalmálið er að við megum ekki afneita mistökunum. Við þurfum að viðurkenna þau, að minnsta kosti fyrir okkur sjálfum“
En þar sem þú veist ekki hvað kemur frá hinum þá býður það líka hættunni heim: Mistökunum. Ef allir eru opnir þá koma skemmtilegustu hlutirnir einmitt út frá mistökunum. Mistökin eru gjafir, þá fer eitthvað að gerast. Þátttakendurnir bregðast við þeim og þar með er sagan farin í einhverja óvænta átt. Mistökin urðu þannig skemmtilegust, ekki eitthvað neikvætt.
Þetta ferli kenndi mér að hræðast ekki mistök. Og það á við í flestum öðrum aðstæðum í mínu lífi. Ef ég er ekki hræddur við þau þá koma yfirleitt mjög áhugaverðir hlutir út úr mistökunum og stundum leiða þau mig á óvæntar slóðir, sem ég hefði aldrei annars farið á. Og stundum eru þau bara fyndin og skemmtileg, sérstaklega þegar það er liðinn smátími frá þeim.
Aðalmálið er að við megum ekki afneita mistökunum. Við þurfum að viðurkenna þau, að minnsta kosti fyrir okkur sjálfum.
Stundum eru mistök samt sár. En þá lærir maður líka kannski mest af þeim. Ég hef lent í miklu meiri vandræðum í þeim tilvikum þar sem ég hef neitað að horfast í augu við eigin mistök. Þá varð skömmin mun meiri, inni í mér. Og ég gerði jafnvel asnalega hluti til að aðrir kæmust ekki að mistökum mínum. Ég vona að ég hafi lært af þeim mistökum.
Kannski voru það mistök að taka að sér að skrifa svona pistil?
Athugasemdir (1)