Hér í Bretlandi þar sem ég bý stendur enn yfir páskafrí í grunnskólum. Eftir því sem fagur ásetningur um friðsælar fjölskyldustundir verður að hávaðarifrildi um „Hver-stal-kökunni-úr-krúsinni-í-gær“ er aðeins eitt að gera í stöðunni: Að taka fram iPadinn.
Það var leikurinn „Hvert er vörumerkið?“ sem afstýrði Harmagedón. YouTube birtir börnunum lógó og eiga þau að giska á fyrirtækið eða vöruna sem merkið táknar – Coca Cola, Nike, Microsoft. Sjö ára sonur minn stendur nú í þeirri trú að uppáhaldsveitingastaðurinn hans sé „Chuck E. cheese“, bandarískur pitsustaður, sem hann hefur aldrei komið á.
Annar samfélagsleikur fer nú eins og eldur um sinu: „Hver er forsetaframbjóðandinn?“ Svo virðist sem sá fjöldi frambjóðenda sem telur sig eiga erindi á Bessastaði fari fyrir brjóstið á mörgum. Við Íslendingar höfum hins vegar lengi stundað leikinn „Hver má dvelja í hvaða húsi?“
Njósnarar eða nasistar
Árið 1939 kom til Íslands þýskur maður að nafni August Lehrmann. Lehrmann starfaði fyrir þýskan heildsala í Reykjavík. Heildsalinn kvæntist íslenskri konu, Sigurlaugu Jóhannsdóttur, dóttur Jóhanns Eyfirðings, kaupmanns og útgerðarmanns á Ísafirði. Var Lehrmann svaramaður í brúðkaupinu og kynntist þar nokkrum Ísfirðingum.
Rúmri viku eftir brúðkaupið skall síðari heimsstyrjöld á. Átta mánuðum síðar var Ísland hernumið af Bretum og var Þjóðverjum sem dvöldu hér á landi gert að gefa sig fram við herstjórnina. En í stað þess að gefa sig fram lagði Lehrmann á flótta til Ísafjarðar.
„Hvað mælir gegn því að forsetakosningar séu eins konar „Ísland got talent“ fyrir fólk sem heldur kannski ekki lagi en kann að syngja föðurlandinu lof á öllum helstu Norðurlandamálunum?“
Lehrmann bankaði upp á hjá Jóhanni Eyfirðingi sem sá aumur á honum og ákvað að forða honum frá handtöku. Í heilt ár fór Lehrmann huldu höfði og flakkaði milli manna og staða. Þegar hann að endingu náðist lét hann Bretum í té nöfn þess fólks sem hafði veitt honum liðsinni.
Íslensk stúlka, Ilse Häsler, var aðeins sautján ára þegar hún var handtekin á dansleik á Ísafirði. „Við mamma vorum sakaðar um að hafa aðstoðað njósnara. Englendingar virtust halda að allir Íslendingar væru njósnarar eða nasistar. En hjálpin sem Lehrmann fékk var í mesta sakleysi. Það var enginn að hugsa um stríðið.“
Ilse og Gertrude, móðir hennar og matráðskona, voru fluttar til Bretlands ásamt broddborgurum Ísafjarðar, meðal annarra Jóhanni Eyfirðingi og kaupmanninum Tryggva Jóakimssyni. Íslendingarnir voru fangelsaðir í London og sáu fram á að vera í haldi uns stríðinu lyki.
Lukkudýr og Loðvík 14.
Forseti Íslands er hálfvaldalaus skraut-embættismaður, einhvers konar kynblendingur fótbolta-lukkudýrs og Loðvíks 14. Rúmlega sjötíu frambjóðendur reyna nú að komast á kjörseðil forsetakosninganna í sumar í von um að fá að búa á Bessastöðum.
Í heimildaþáttaröðinni Fangar Breta, sem sýnd var í Sjónvarpinu fyrr á árinu, var sögð saga Íslendinga sem Bretar handtóku í seinni heimsstyrjöldinni.
Íslenskum stríðsföngum Breta var sleppt úr haldi þegar Bandaríkin tóku yfir hervörslu landsins. Hinn 18. júlí 1941 gengu Ilse, Gertrude og góðborgarar Ísafjarðar frjáls ferða sinna um London.
„Við mamma fórum á flott hótel,“ sagði Ilse. Á hinu sögufræga Russell hóteli hittu þær kaupmanninn Tryggva Jóakimsson. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrr hafði staða Íslendinganna innan samfélagsins verið jöfn; þau höfðu öll verið óbreyttir fangar í vörslu Breta. En tilveran var ekki lengi að hverfa í gamla farið. „Er ekki best fyrir þig, Gertrude, að fara á sjómannaheimilið með hinum?“ spurði Tryggvi.
Það býr Tryggvi í mörgum. Hvað mælir gegn því að forsetakosningar séu eins konar „Ísland got talent“ fyrir fólk sem heldur kannski ekki lagi en kann að syngja föðurlandinu lof á öllum helstu Norðurlandamálunum?
Veitingastaðurinn „Chuck E. cheese“ er greyptur í vitund sonar míns. Lógóleikurinn á YouTube sýnir fram á ægivald hinna þekktu og voldugu. Fátt fær haggað stöðu þess sem þegar hefur náð félagslegum og fjárhagslegum yfirburðum.
Þegar Tryggvi kaupmaður lét í það skína að Gertrude væri ekki samboðin einu virtasta hóteli Lundúnaborgar gerði matráðskonan sér lítið fyrir og pantaði sér fínasta herbergið.
Þegar er strokkað er það vanalega smjörklípan sem nær upp á topp. Þegar er kosið eiga allir að fá að eiga séns.
Athugasemdir (3)