Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk og Bandaríkin höfðu sprengt kjarnorkusprengjur í tveimur borgum í Japan, þá bættist fljótt í hóp þeirra ríkja sem réðu yfir kjarnorkusprengjum. Sovétríkin bjuggu til slíkar sprengjur og Bretland og Frakkland eignuðust líka kjarnorkusprengjur, svo Sovétríkin væru ekki ein um þau vopn í Evrópu. Við bættust síðan kjarnorkuvopn í vopnabúr Kína, Indlands, Pakistans, Norður Kóreu, Ísraels og fleiri. Nú voru komin fram svo stórvirk vopn að ljóst varð að ekki yrði hægt að beita þeim án þess að stórskaða lífríki jarðar eða jafnvel deyða allt mannkynið. Þar með var fundin vörnin sem myndi afstýra öllum frekari stríðum, hin stóra ógn af gereyðingarvopnum. Þarna varð til kenningin um ógnarjafnvægi hervelda sem tækju að sér að halda frið á jörð.
Allt fólk á jörðu hér tilheyrir einu mannkyni sem býr á einni jörð og á ekki kost á að búa annars staðar. Við erum í raun ein stór fjölskylda á einu stóru heimili. Þar læðumst við um eins og lúbarðar eiginkonur og skelkuð börn sem gæta þess að espa ekki ógæfumanninn og við köllum það að halda heimilisfriðinn. Við köllum það heimsfrið.
Uppbygging ógnarjafnvægis
Ógnarjafnvægi er ekki friður, ógnarjafnvægi er viðvarandi ógn. Þeir stjórnmálamenn sem brugðist höfðu í að stöðva uppgang fasisma og öfgafullrar þjóðernishyggju fyrir síðari heimsstyrjöldina höfðu engin ráð eftir stríðið til að takast á við nýja hernaðarógn. Þeir ákváðu því að útvista ógninni til hersins, en að hlutverk stjórnmálamanna væri að rétta ríki úr kútnum eftir niðurbrot styrjaldarinnar, að reisa við efnahag, koma framleiðslu og verðmætasköpun í gang, byggja upp innviði og bæta lífsskilyrði fólks.
Í Evrópu var víglína dregin þar sem herir Sovétríkjanna annars vegar og Vesturveldanna hins vegar höfðu mæst eftir að hafa hrakið heri Þýskalands og bandalag öxulvelda þess á flótta. Lykillinn að friði var að ná hernaðarlegri kyrrstöðu, þar sem landamæri skyldu halda. Írland yrði áfram tvískipt, Baskar eða Katalónar fengju ekkert sjálfstæði, herforingjastjórn í Grikklandi og fasistar á Spáni og í Portúgal fengju að ráða afskiptalaust, þau nýlenduveldi sem voru í sigurliðinu í Evrópu fengju að halda nýlendum sínum og Bandaríkin að ráðskast með bananalýðveldi sín í Mið- og Suður Ameríku.
Í stað þess að úthella heitu blóði í stríðsátökum, var farið í kalt stríð. Lönd á valdasvæði Sovétríkjanna skyldu lúta pólitísku forræði þeirra og þar mætti byggja upp einhverskonar kommúnisma, en lönd á vestursvæðinu skyldu alls ekki líða neinn kommúnisma. Allir skyldu vera í liði með ráðandi aðila á sínu svæði eða vera svikarar og óvinir ríkisins ella. Herforingjar, sem falið hafði verið að hafa stjórn á friðinum, sáu að það þyrfti að mynda hernaðarbandalag á svæði vesturvelda og fékk það heitið North Atlantic Treaty Organization, NATO. Þetta hernaðarbandalag átti að samhæfa hernaðaruppbyggingu og viðbrögð aðildarherjanna, hvert ríki að eiga og kosta sinn eigin her, en ef til stríðs kæmiskyldu þeir berjast einn fyrir alla og allir fyrir einn, undir sameiginlegri herstjórn NATO.
Á áhrifasvæði Sovétríkjanna var til mótvægis myndað annað hernaðarbandalag, kallað Varsjárbandalagið, til að bregðast við hinu vestræna hernaðarbandalagi. Var svo kyrrt um sinn.
Þetta stríðshlé varð ekkert vopnahlé, heldur byggðist þar upp mikið vopnakapphlaup. Það var jú búið að finna upp hugtakið ógnarjafnvægi og því varð ekki viðhaldið nema að viðhalda ógnarmætti. Hvor um sig þurfti að geta hlaðið á vogarskál síns vopnabúrs til mótvægis við vopnabúr hins og heldur að geta hallað voginni í rétta átt en hitt. Gríðarlegum fjármunum var sóað í vígbúnað af nýjustu tækni og eyðingarmætti, herþotur, flugvélamóðurskip, kafbátar, eldflaugar og auðvitað ógnina stóru sem var forsenda ógnarjafnvægis, kjarnorkusprengjur.
Við höfum vanrækt friðinn
Stríð eiga sé alltaf pólitískar ástæður og aðdraganda. Þeim er því hægt að afstýra með pólitískum aðgerðum. Til þess þarf pólitíkusa, stjórnmálamenn, sem skilja og virða það mikilvæga hlutverk sitt að afstýra stríðum og varðveita frið. Friður er nefnilega hlutverk stjórnmálamanna, en ekki hlutverk herforingja. Hlutverk herforingja er að heyja stríð þegar stjórnmálamenn hafa brugðist gjörsamlega.
Herir eru algjörlega vonlausir í því að leysa nein vandamál og deilur á friðsamlegan hátt. Þeir einu sem geta leyst mál á friðsamlegan hátt eru stjórnmálamenn. Herir semja ekki um frið, þeir berjast þar til stjórnmálamenn semja um frið. Það var alveg sama hvað breski herinn sendi marga hermenn til Norður Írlands til að berjast við uppreisnarher sem kallaði sig Írska lýðveldisherinn, IRA. Það var ekki fyrr en stjórnmálamenn tóku af skarið og settust að samningaviðræðum sem bundinn var endir á stríðið á Norður Írlandi.
Stjórnmálaástand er ekki kyrrstaða, ekkert status quo. Það er nefnilega misskilningur að svo megi illu venjast að gott þyki. Fólk sættir sig ekki við vonda stjórnmálahætti til langframa, annað hvort nær fólk að bæta stjórnmálaástand með friðsamlegum hætti eða það grípur til uppreisnar. Þess vegna er ekki hægt að varðveita friðinn með því að ætla að varðveita vont ástand.
Evrópskir stjórnmálamenn, bæði í austur og vestur Evrópu, hafa brugðist því hlutverki sínu að stuðla að friði. Þeir vanræktu friðinn, útvistuðu honum til hersins, vissu ekki sitt rjúkandi ráð þegar ófriðarblikur blöstu við og misstu Júgóslavíu í bál og brand. Stríðið í Úkraínu er ekki fyrsta stríðið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Halló gullfiskaminni! Upplausn Sovétríkjanna og sundrung Júgóslavíu voru hvorugt ófyrirsjáanlegir atburðir. Stríðið í Júgóslavíu og stríðið í Úkraínu eru afleiðingar þess að evrópskir stjórnmálamenn – og athugið hér að Rússland og ríki í austanverðri Evrópu eru líka evrópsk – vanræktu friðinn.
Í aðdraganda upplausnar Sovétríkjanna hittust leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á fundi í Reykjavík. Sá fundur var talinn marka lok kalda stríðsins og upphafið að því að vinda ofan af vopnakapphlaupi stórveldanna, jafnvel upphafi að samningum um eyðingu kjarnorkuvopna. Svo fór ekki.
Kalda stríðið þiðnaði ekki, það breytti bara um aðferðir. Það bætti í flokkadrætti í Evrópu með því að hefja liðsflutninga ríkja úr einni hernaðarblokk í aðra, að fá ríki úr Varsjárbandalaginu yfir í NATO. Á eftir fylgdi liðsflutningur herja og vopna til hinna nýju NATO ríkja og þar með nær landamærum Rússlands. Samhliða þessu hvarf öll áhersla á afvopnun og á friðsamlega sambúð við Rússland. NATO, undir forustu Bandaríkjanna, stýrði þessari þróun. Stjórnmálamenn, sem skildu ekkert í friði frekar en fyrri daginn, héldu að þessi nýja vígstaða væri leið til friðar, enda búnir að fela NATO að annast friðinn í Evrópu. Rússnesk stjórnvöld, sem voru byrjuð að ræða við ríki vestur Evrópu um möguleika á að vinna betur saman að þróun friðsamlegrar og efnahagslega sterkrar Evrópu drógu sig til baka og gengu inn í gamla farið, þar sem hernaðarmáttur skyldi tryggja bæði völd og frið.
Menn bjuggu sig ekki undir það að leiða friðsamlega lausn á því að breyta stjórnmálaástandi í Evrópu, af því þeir héldu alltof lengi í þá hugmynd að engu mætti breyta því óbreytt ástand væri einmitt forsenda friðar. Þegar fólk vill breyta því ástandi sem það býr við, þá breytir það því með góðu eða illu. Fólk vill nefnilega ekki venjast illu og láta sér þykja það gott.
Friður byggir ekki á því að geta farið í stríð, friður byggir á því að kunna friðsamlegar aðferðir og geta beitt þeim. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að sinna friði.
Við höfum vanrækt lýðræðið
Grunnurinn að friðsamlegum lausnum á stjórnmálum er lýðræði. Það lýðræði þarf að ná til allra jafnt, en ekki bara til sumra.
Við lærðum strax í barnaskóla að vagga lýðræðis væri í Grikklandi, þar sem menn duttu niður á þá snilldar lausn að koma saman á torgum og ræða málin og greiða síðan atkvæði um ákvarðanir, þar sem einfaldur meirihluti réði. Að vísu vantaði inn í þessa sögu að lýðræði þetta náði bara til valinna karlmanna, ekki til karla af öllum stéttum og ekki til kvenna og alls ekki til þræla sem voru þó margir í grísku þjóðfélagi þess tíma.
Lýðræðið varð samt til í þessari vöggu, en allt vex og þroskast upp úr vöggu sinni og svo fór einnig um lýðræðið. Þetta stjórntæki valdastéttarinnar til að halda frið í þeirri stétt, varð að kröfu hins valdalausa lýðs um stjórnarform sem skyldi ná til allra. Það ætluðust nefnilega fleiri til að fá lýðræðisleg áhrif. Þau áhrif voru ekki veitt átakalaust og án hernaðarlegs ofbeldis og um það er tekist á ennþá.
Lýðræði er flókið fyrirbæri og ekki vandalaust í framkvæmd, en það er besta aðferðin sem reynd hefur verið til stjórnarhátta. Lýðræði er meira en kosningaaðferð, það er jafnræði, jafnrétti, frelsi til skoðana og athafna. Mikilvægt hlutverk lýðræðis er að gæta réttinda minnihluta líka, en ekki verða að alræði meirihlutans. Lýðræði krefst þolgæðis, það fá ekki allir sitt fram og sumt tekur langan tíma um krókaleiðir. Lýðræði er list málamiðlana, krefst hlustunar og ígrundunar á væntingum og kröfum þeirra sem hafa ólík sjónarmið, krefst samkomulags um aðferðir til að leiða mál til sátta.
Fólk hefur aldeilis farið í stríð til að berjast fyrir lýðræði. En þegar stríðinu lýkur með sigri lýðræðissinna hefur mörgum reynst þrautin þyngri að koma á lýðræðinu. Herir skilja nefnilega ekki eftir sig lýðræði. Þeir geta velt ólýðræðislegum einræðisöflum, en þeir byggja ekki upp lýðræði á eftir.
Rauði herinn bylti keisarastjórninni í Rússlandi, en fólkið í Rússlandi byggði upp Sovétríkin. Slagorð Sovétríkjanna var: Allt vald til ráðanna! Ráðin voru lýðræðislegt form samráðs fólksins. En stríðinu lauk ekki strax og enn var barist við þá sem vildu steypa þessari kommúnistastjórn sem boðaði að færa fólkinu valdið og taka það þar með af valdastéttum, fyrst í Sovétríkjunum og síðan um heim allan. Til þess að berjast við óvinaöfl Sovétríkjanna var treyst á herinn sem reyndist, eins og allir herir, ekki vagga lýðræðis. Fólk sem kom úr keisaraveldi og þekkti almennt ekki annað en keisaraveldi, kunni ekki að gæta lýðræðis og tapaði því til hervaldsins.
Í vestur Evrópu sneru stjórnmálamenn sér að því að mynda bandalag um fleira en hernað, þar var myndað efnahagsbandalag sem síðar varð að Evrópusambandinu. Þar var samþykkt að til þyrftu ákveðin sameiginleg markmið og aðferðir í efnahagsmálum, viðskiptum, lýðræði og mannréttindum og að aðildarríki þyrftu að uppfylla skilyrði á öllum þeim sviðum til að geta orðið meðlimir í því bandalagi.
Þegar hernaðarpólitík þörf var á að vippa sem flestum austur evrópskum ríkjum inn í vestur evrópsk bandalög varð aðild að Evrópusambandinu ein af leiðunum til þess. Þá lá svo mikið á að vikið var frá þeim kröfum sem Evrópusambandið hafði sett sér um áðurnefnd skilyrði. Fyrir vikið situr Evrópusambandið uppi með nokkur ríki sem þverbrjóta reglur þess um mannréttindi og lýðræði og efnahagsstjórn og kaupa sér leyfi til að brjóta þær reglur áfram gegn því að samþykkja enn frekari stækkun NATO.
Evrópusambandið tók ekki að sér að gæta friðar, þeim þætti var ennþá útvistað hjá hernaðarbandalagi. Stjórnmálamenn í vestur Evrópu undu glaðir við sitt lýðræði og efnahagslegan ábata og frið í höndum hernaðarbandalags, fullvissir þess að svona yrði þetta bara áfram. En framtíðin lætur hvorki skammta sér nútíð né fortíð.
Þótt Rauði herinn hafi sigrað keisaraher í Rússlandi og fasistaher í stórum hluta Evrópu, þá þurfti engan her til að steypa nýjum stjórnvöldum í Rússlandi og öðrum löndum austur Evrópu. Ríkisvaldið varð feyskið og fólkið hristi það af sér án hernaðarátaka. Mörg af ríkjum Sovétríkjanna urðu sjálfstæð ríki, þar á meðal stærsta ríki þess, Rússland. Þar tóku ólígarkar völdin, en svo kölluðust þeir sem höfðu stjórnað ríkisfyrirtækjum í þessum löndum og þar á meðal öllum auðlindum þeirra. Þetta var svona stækkuð útgáfa af því þegar kaupfélögin á Íslandi leystust upp og einhverjir kaupfélagsstjórar og forstjórar samvinnufélaga eignuðust þau sísona, eða þegar auðlindir lands og sjávar urðu að einkaeign.
Lýðræðisríki í Evrópu voru ekki undir þessi umskipti búin og algjörlega vanmáttug í að styðja við lýðræðislega þróun í þessum ríkjum. NATO sendi her inn í Júgóslavíu og vörpuðu nokkrum sprengjum með loftárásum milli þess sem herir þeirra horfðu á vígahópa fremja fjöldamorð. Íslenskur utanríkisráðherra hélt að íslensk sjálfstæðisbarátta væri útflutningsvara til Balkanlanda og að hlutverk hans væri að stuðla að sjálfstæði nýrra ríkja þar, ruglaði saman sjálfstæði ríkja og friði í þeim. Það er ekki ennþá búið að leysa úr þeim ágreiningi sem enn ógnar friði í fyrrum Júgóslavíu.
Lýðræðisríki Evrópu höfðu engar áætlanir um það hvernig þau gætu stuðlað að lýðræði annars staðar í Evrópu, þau skildu ekki að lýðræði þrífst ekki nema þar sem friður ríkir, þau vanræktu bæði í senn friðinn og lýðræðið.
Við búum í Evrópu og Evrópa nær allt austur að Úralfjöllum. Friður, lýðræði og framfarir í Evrópu byggja á því að halda frið og lýðræði í allri Evrópu. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að sinna lýðræði.
Landamærastríð
Þegar ég var ung, náði ég í skottið á róttækni sem kennd var við 68 kynslóðina. Við mótmæltum hernaði Bandaríkjanna í Víetnam og víðar. Við studdum það sem við töldum frelsisstríð, uppreisnir gegn nýlenduveldum, einræðisherrum og kúgurum. Sum okkar studdu líka réttinn til að standa að vopnaðri byltingu hvar sem er til að koma á betra samfélagi. Á móti okkur á vinstri vængnum stóðu lýðræðissinnaðir sósíalistar, jafnaðarmenn í Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, sem höfnuðu vopnaðri byltingu og sögðu að vinna ætti að bættu þjóðfélagi eftir lýðræðislegum leiðum. Jafnvel göfug hugsjón um réttlátt samfélag, sem barin var niður með ofbeldi óréttlátra valdhafa, haggaði ekki þessu lýðræðistauti jafnaðarmannanna.
Nú er annað hljóð úr horni lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna. Nú má vissulega fara í stríð, í stríð um landamæri. Nú er því haldið fram að stríð um landamæri Úkraínu sé stríð um grundvöll sjálfstæðis ríkja og sjálfsákvörðunarrétt þeirra og þar með um sjálfstæði og landamæri Íslands líka. Því er jafnvel haldið fram að í Úkraínu sé verið að berjast fyrir frelsi mínu og því beri mér að styðja það stríð með vopnasendingum til úkraínska hersins - og jú líka með dömubindum handa kvenhermönnum, því konurnar þurfa að geta gætt að sínu kvenlega hreinlæti í skotgröfunum. Réttmæta frelsisstríðið er um landamæri, en alls ekki um þjóðfélagslega byltingu.
Landamæri eru síbreytileg, hafa aldrei staðið óbreytt lengi og munu halda áfram að breytast. Það er hluti af stríðsvandamálum Evrópu að búa til landamæri sem fólk eigi ýmist að breyta eða verja af allskonar mis göfugum ástæðum og jafnvel afþvíbara að landamæri eigi að vera hér eða þar. Það er hangið á þessum landamærum af meira ofstæki og þrjósku en því hvað gerist innan þeirra landamæra. Þegar fólk nær ekki saman um það hvernig stjórnarfar eigi að vera innan landamæra, er upplagt að ná saman um að berjast um línu landamæranna.
Í kalda stríðinu komu Bandaríkin upp með slagorðið Better be dead than red, eða Betra er að vera dauður en rauður. Þetta er alveg galin vitleysa. Dauður maður gerir ekkert betra, hvorki fyrir sig né aðra. Rauður maður getur aftur á móti skipt um lit. Lifandi fólk breytir samfélögum, en dautt fólk ekki. Það er ekkert gagn í því að deyja í hernaði, þess vegna er mikils um vert að leita friðsamlegra leiða til að yfirvinna óréttlæti. Til þess þarf öfluga samstöðu sem nær útfyrir þann hóp sem eldurinn brennur á. Samstöðu sem hafnar valdi kúgaranna, hættir að hlýða þeim, framkvæmir breytingar í trássi við valdaöfl. Borgaraleg óhlýðni er mikilvægur hluti af lýðræði og frelsi.
Það er rakin vitleysa að Rússar stefni að því að útrýma íbúum Úkraínu og að stríðið standi um að afstýra því þjóðarmorði. Rússar hafa þegar lagt undir sig Krím og engum sögum fer af þjóðarmorði þar. Rússar hernámu Tékkóslóvakíu árið 1968 og frömdu ekki þjóðarmorð þar. Það búa milljónir manns í Rússlandi og sæta ekki þjóðarmorði. Að vísu fellur stöku fólk í Rússlandi út um glugga og jafnvel ein flugvél líka, en það er ekki þjóðarmorð. Þjóðarmorð er á stærri skala en morð á stöku óbreyttum borgurum, jafnvel fjöldamorð á hópum óbreyttra borgara. Fjöldamorð á óbreyttum borgurum fylgja sérhverju stríði og það er fáviska að halda að hægt sé að fara í svo göfugt stríð að þar séu ekki framin morð á varnarlausu fólki. Það eru engin göfug stríð til. Öll stríð eru afleiðing vanhæfra stjórnmála.
Hvað gerist í Úkraínu ef samið verður um ný landamæri sem skipta ríkinu upp? Í fyrsta lagi er ekkert sem segir að þau landamæri muni standa lengur en t.d. landamæri Austur og Vestur Þýskalands gerðu. En hvað mun gerast fram að því? Segjum sem svo að Úkraínu verði skipt upp í Krím, Austur Úkraínu og Vestur Úkraínu. Hvaða gerist þá? Þá munu Rússar væntanlega hefja uppbyggingu í Austur Úkraínu og evrópsk ríki væntanlega í Vestur Úkraínu. Eftir nokkur ár munu íbúar þessara ríkja svo sjá það sjálfir hvoru megin er betra að búa. Fólk sækist eftir að búa þar sem gott er að búa og annað hvort fer þangað sem betra er að búa eða breytir sínu samfélagi til hins betra. Líka fólk í austur Evrópu. Þau hafa gert það áður og munu halda áfram að gera það, líka í Rússlandi.
Innrás Rússa í Úkraínu er á allan hátt óréttlætanleg, en hún er samt staðreynd sem þarf að greiða úr. Það verður ekki best gert á þeirra forsendum með því að mæta þeim með hernaði. Til þess eiga önnur ríki betri og árangursríkari aðferðir, þær aðferðir að styrkja lýðræðisöfl í bæði Úkraínu og Rússlandi, en ekki hernaðaröfl.
Ég treysti fólki til að breyta samfélögum sínum, bæta þau á allan hátt með betra stjórnarfari, meiri velferð íbúanna og friði. Það er jú það sem fólk vill. Styðjum við frið en ekki stríð í Úkraínu, styðjum íbúa Úkraínu til að lifa og fá tækifæri til að velja sér liti í líf sitt.
Að lokum legg ég til að Íslendingar hætti þátttöku í hernaðarbandalaginu NATO og hendi restinni af bandaríska hernum út úr landinu. Herir og hernaðarbandalög eru ekkert annað en ógn við frið og frelsi fólks til að ráða fram úr sínum málum. Ísland á að ögra þessari úreltu lotningu fyrir hernaði og standa fast með herleysi og vera griðland fyrir friðarviðræður. Við skulum hætta að búa við ógnarvægi hervelda.
Þessi upprifjun Soffíu er vel við hæfi á 75 ára afmæli NATÓ um þessar mundir. Ég deili hér af sama tilefni myndbandi með viðtali við John Mersheimer og fleiri af virtustu sérfræðingum heims um Alþjóðastjórnmál undir heitinu: "Destroyer of Peace from 1949 – Nato: Anatomy of a Bad Idea“
https://www.youtube.com/watch?v=Daks1jL5m4E&t=2890s
2008: Úkraínski herinn byrjar að hreinsa til í austur hluta Úkraínu, Rússar í donbas héruðum skulu fara að tala og skrifa á úkrainsku, talið er að um 12,000 Rússar hafi fallið í þessum hreinsunum.
2014: CIA kemur upp 10 bækistöðvum innan landamæra Úkraínu, byrjar að byggja upp GUR leyniþjónustu Úkraínu.
2019: CIA kemur Volodymyr Zelenskyy til valda, sama og gert var í Þýskalandi 1933.
2022: Rússar hefja stríð í Úkraínu, kom valdhöfum heimsins alveg feikilega mikið á óvart, nei þeir vissu þetta allan tíman.
2022: Í endan á mars var Pútín til í að semja um frið og Zelenskyy var við það að skrifa undir en þá er sendur Boris nokkur Johnson til að skemma.
2024: Breskar hersveitir eru komnar til Úkraínu.
Hljómar þetta nokkuð kunnulega, það væri gaman ef fólk færi að lesa meira og kynna sér betur söguna.
Chamberlain reyndi svo að sefa Hitler en mistókst hrapallega, hver undanhaldssemi gaf Hitler byr undir vængi.
Með Putin er búið að semja nokkrum sinnum um Ukraine - alla samninga hefur hann jafnóðum brotið. Því miður skilja hans líkar bara eitt: lögmál hins sterkara.
Friðarhjal á vitlausum tíma styður bara árásaraðilann og getur því leitt til átaka.
Græningjarnir í Þýskalandi voru afar friðarsinna en höfðu vit á því að breyta afstöðu sinni eftir innrás rússa 2022.