Við lifum á sjálfsbetrunartímum. Það virtist allavega vera páskaþemað í ár, í staðinn fyrir að liggja yfir Netflix og gúffa í sig páskaeggjum og snakki voru allir að vinna í sér, bæta sig andlega og líkamlega með því að hugleiða, búa til góða ávana, anda, gera jóga, lesa sjálfshjálparbækur og sitja svo klukkutímum saman og manifesta í köldu fiskikari í frostinu.
Þessi tískubylgja sjálfsbetrunar er ekkert ný en hún virðist vera að sækja í sig veðrið. Það er offramboð af nýaldarboðskap sem á að tryggja blússandi velgengni, eilífa hamingju og æðsta stig tilverunnar ef þú aðeins vinnur nógu mikið í sjálfum þér. Lifðu í augnablikinu en ekki sóa neinum tíma, passaðu upp á svefninn en nýttu hverja mínútu sólarhringsins, ekki vera aumingi og ekki umgangast lúsera en vertu sjúklega jákvæður, alltaf. Gerðu meira. Vertu betri.
„Að horfa inn á við er gott og blessað, svo lengi sem naflaskoðunin verður ekki til þess að þú trúir því raunverulega að þú sért nafli alheimsins.“
Sjálfsbetrunin endar aldrei. Þú ert kannski nóg en þú getur aldrei bætt þig nóg. Það er alltaf hægt að gera betur. Á eftir einu markmiði kemur annað þannig að lífið verður eins og óendanlegur tölvuleikur í að bæta sig án þess að komast nokkurn tímann að endakallinum. Afleiðing þessarar stöðugu sjálfsvinnu hefur hingað til ekki skilað sér í heimi fullum af hamingjusömu fólki sem lifir í vellystingum, heldur frekar hópi fólks sem hugsar svo mikið um sjálft sig að það er orðið aftengt samfélaginu, einangrað.
Að horfa inn á við er gott og blessað, svo lengi sem naflaskoðunin verður ekki til þess að þú trúir því raunverulega að þú sért nafli alheimsins. Hundrað sjálfshjálparbækur gera þig nefnilega ekki að betri manneskju, að hugleiða í fimm tíma á dag gerir það ekki heldur. Á þessum sjálfsbetrunartímum er því vert að hugleiða hver tilgangur sjálfsvinnunnar er, svona rétt áður en maður kafar svo djúpt ofan í boruna á sjálfum sér að restin af heiminum hættir að vera til.
Athugasemdir