Við eigum ótal málshætti og orðtök í íslensku um menntun sem öll klykkja á mikilvægi hennar bæði fyrir okkur sem einstaklinga og eins fyrir samfélagið allt. Það segir okkur að við sem þjóð metum menntun og þann auð sem af henni hlýst, en erum við að sýna það í verki með stuðningi við háskólanema? Til þess að ungt fólk sjái hag sinn í að mennta sig þarf umhverfi að vera styðjandi til náms og þar eru margir þættir sem þarf að hafa í huga og spila saman þegar á heildina er litið.
Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á menntamál og málefni stúdenta. Í menntastefnu hreyfingarinnar segir að meta þurfi árangur af nýjum Menntasjóði þar sem hluti námslána er nú orðinn styrkur til stúdenta. Við tökum heilshugar undir það enda fjögur ár síðan breytingar urðu á sjóðnum og eðlilegt að líta til baka, meta og bæta. Þar er einnig ítrekað mikilvægi þess að hækka frítekjumark til þess að tryggja rétt efnaminni nemenda til námslána óháð starfshlutfalli síðasta árs og í velferðarstefnu hreyfingarinnar er kveðið á um að afar mikilvægt sé að tryggja mannsæmandi grunnframfærslu fyrir stúdenta svo jafnrétti til náms verði tryggt, alls ekki öll hafa sterkt bakland og aðgengi að fjármagni. Námslánakerfið á nefnilega að auka jöfnuð og tryggja jöfn tækifæri fyrir öll til menntunar, heilsu og þátttöku í samfélaginu og vinna gegn stéttaskiptingu af öllu tagi. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í atvinnulífinu bæði vegna tækniframfara en ekki síður vegna viðbragða við loftslagsbreytingum. Því þarf að auðvelda fólki að auka við færni sína og þekkingu, jafnvel skipta um starfsvettvang og um leið hlúa að atvinnuuppbyggingu og ýta undir tækifæri til nýsköpunar fyrir fólk um land allt. Þess vegna þarf að tryggja að öll hafi aðgang að réttlátu lánakerfi hvenær sem er á lífsleiðinni sem er byggt á jöfnuði og óháð fyrri tekjum. Sýnt er að breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna hafa ekki dugað til og brýnt að endurskoða lögin með þarfir allra stúdenta í huga.
Það er okkur sem þjóð nefnilega afar mikilvægt að hafa gott stuðningskerfi fyrir stúdenta hvar á námsferlinum þeir eru staddir og að kerfið taki mið af ólíkum þörfum. Þegar kemur að háskólanámi er mikilvægt að námslengdin sé sveigjanleg og að fjárhagslegar skuldbindingar sligi ekki stúdenta; fólk sem síðar meir mun efla atvinnulíf og fræðaheim okkar. Fyrst skal nefna úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna en þær þurfa að taka breytingum enda þær stærsta vandamálið sem ekki var tekið á með lagabreytingunum fyrir fjórum árum. Framfærsla fyrir einstakling sem býr einn er 237.220.- kr. 9 mánuði ársins, sem öll sjá að er allt of lág upphæð til að greiða af húsnæði og framfleyta sér á Íslandi í dag. Samfara hækkun á framfærsluupphæð þarf að hækka frítekjumark og auka sveigjanleika við námslok.
Að skulda eftir háskólanám er eitthvað sem margir stúdentar kvíða. Mörg leysa þetta með því að stunda atvinnu með námi sem oft er erfitt og getur bitnað á frammistöðu þeirra bæði í námi og starfi. Til að mæta þessu mætti hækka niðurfellingu námslána úr 30 í 40% til samræmis við Noreg, en það kerfi var fyrirmynd núverandi kerfis. Til að svo verði þarf Menntasjóður námsmanna að taka nauðsynlegum breytingum í þá átt, bæði hvað varðar lagarammann og úthlutunarreglurnar. Einnig þarf að lækka þarf vaxtaþak lána Menntasjóðs enda er það allt of hátt, þakið á óverðtryggðum vöxtum er 9% og 4% á verðtryggðum vöxtum. Það yrðu virkilega góðar breytingar. En allar breytingar á lagaumhverfinu missa marks meðan framfærsluliðir gera það að verkum að fólk fer síður í nám.
Stúdentar hérlendis hafa mörg hver ábyrgð fyrir utan skóla, eiga börn, sinna sjálfboðastörfum, vinna og þurfa samt að sinna mætingu þar sem víða er skyldumæting. Ef við viljum að unga fólkið okkar taki þátt í samfélagslegum verkefnum, sjálfboðastörfum eða stjórnmálum sem dæmi og geti sinnt félagslífi og íþróttum þarf að skapa sveigjanleika til þess. Staðreyndin er sú að stúdentar hafa ekki mikinn frítíma, þau sem eru í vinnu og námi hafa gjarnan ekki tíma til félagsstarfa og mögulega er það ein ástæða þess félagslíf háskólanema er ekki það sem áður var og þátttaka þeirra á samfélagslegum vettvangi minni en gæti verið.
Síðast en ekki síst er mikilvægt að efla húsnæðisúrræði stúdenta og gæta þess að tillit sé tekið til þeirra í fyrirhugaðri húsnæðisuppbyggingu ríkis og sveitarfélaga. Það er erfitt að komast inn í Stúdentagarðana og langur biðtími eftir húsnæði. Með auknu framboði á húsnæði á ásættanlegum kjörum í nágrenni háskóla mun draga úr bílferðum stúdenta og um leið úr umferð og mengun, notkun bílastæða og þeim tíma sem fer í akstur til og frá skóla.
Í nýju frumvarpi ráðherra má fagna því að ábyrgðarmannakerfið verði lagt niður en annað er þar miður gott og vegur að hlutverki Menntasjóðs sem jöfnunartæki. Ekki er tekið utan um svokallaða ótrygga lántakendur, fólk sem er á vanskilaskrá eða hefur á einhvern hátt misstigið sig og hefur fengið að taka lán með ábyrgðarfólki. Einnig er ekki tekið á háu vaxtaþaki og því að afnema vaxtaálag en afborganir námslána eru oft sligandi fyrir útskrifaða stúdenta. Það er hægt að gera svo miklu betur fyrir stúdenta í háskólum landsins.
Hvað með að auka persónu afslátt til ungs fólks sem er að koma útí atvinnulífið, skuldug upp fyrir höfuð vegna námsskulda?
Greiðslur þeirra vegna námslána munu halda hringekkju máms samfélagsins gangangi.
Er þörf á að refsa þeim sem að telja að þeir geti betur þjónað samfélaginu, betur menntuð?