Bankráð Landsbankans hefur birt svör sín við fyrirspurnum Bankasýslunnar sem krafði bankaráð svara um fyrirhuguð kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM. Telur bankaráð sig hafa uppfyllt skyldur sínar til upplýsingagjafar og í samræmi við eigendastefnu ríkisins.
Í svari bankaráðs kemur fram að Bankasýslan hafi verið upplýst um að Landsbankinn hafi skilað inni óskuldbindandi tilboði í TM í samtali þann 20. desember síðastliðinn.
„Í kjölfarið tók bankinn þátt í ferli sem lauk með því að bankinn lagði fram skuldbindandi tilboð í félagið þann 15. mars 2024.“
Tilboðið var síðan samþykkt og tveimur dögum seinna var Bankasýslunni tilkynnt um viðskiptin. Þá segir í tilkynningu Landsbankans að Bankasýslan hafi á engum tímapunkti sett fram athugasemdir eða óskað eftir frekari upplýsingum frá bankaráði fyrr en eftir að Kvika samþykkti skuldbindandi kauptilboð Landsbankans.
Þetta er nokkuð á skjön við það sem kom fram í bréfi sem Bankasýsla ríkisins sendi fjármála- og efnahagsráðherra í kjölfar þess að tilkynnt var kaupin. En í bréfi Bankasýslunnar segir að stofnunin hafi verið tilkynnt um endurvakinn áhuga Landsbankans á því að taka þátt í söluferlinu í „óformlegu símtali.“ Þar kom hvergi fram að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM.
Þá segir í tilkynningunni að það sé mat bankaráðs að kaupin séu í takti við eigendastefnu ríkisins og viðskiptin þjóni hagsmunum bankans og hluthafa til lengri tíma.
Sömuleiðis segir bankaráð að kaupin auki hvorki áhættu í rekstri bankans, né skerði getu hans til að uppfylla arðgreiðslustefnu sína.
Athugasemdir