Ný vísitala íbúðaverðs og meðalverð úr kaupsamningum benda til skarprar verðhækkunar á íbúðum í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Velta á íbúðamarkaði nálægt höfuðborgarsvæðinu hefur ekki aukist jafn mikið á milli mánaða frá upphafi mælinga í janúar árið 2014.
HMS telur að íbúðakaup Grindvíkinga hafi haft áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og gætu áhrifin orðið meiri á næstu mánuðum. Íbúðamarkaðurinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins tók kipp í febrúar með miklum verðhækkunum og mikilli fjölgun kaupsamninga. HMS telur að áhrifin megi rekja til íbúðakaupa Grindvíkinga í mánuðinum og að íbúðakaupin muni ýta undir verðþrýstingi á markaði næstu mánuði.
HMS greindi frá því fyrr í vikunni að ný vísitala íbúðaverðs á landinu öllu hefði hækkað um 1,9 prósent á milli mánaða í febrúar. Þar vó verðhækkun á fjölbýlishúsum þungt, en undirvísitala fjölbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1 prósent á milli mánaða, á meðan undirvísitala fjölbýlishúsa á landsbyggðinni hækkaði um 6,4 prósent á milli mánaða.
Sérbýlin hækka mest
Ef litið er til útgefinna kaupsamninga í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins má sjá skarpar verðhækkanir, en þar hækkaði meðalverð á seldri íbúð úr 61,6 milljónum króna í janúar í tæpar 65 milljónir króna í febrúar. Mest hefur verðhækkunin orðið á sérbýlishúsum á svæðinu, en meðalkaupverð þeirra hefur hækkað úr 68 milljónum króna í nóvember 2023 í tæpar 80 milljónir króna í febrúar 2024.
Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meðalverð í kaupsamningum einnig, en þó mun minna. Þar nam meðalkaupverðið 78,3 milljónum króna í febrúar, miðað við 78 milljónir króna í janúar.
Kaupsamningum fjölgar og veltan eykst
Mun fleiri kaupsamningar voru gefnir út í febrúar heldur en í janúar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi þeirra rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu, eða úr 74 í janúar í 164 í febrúar. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði kaupsamningum einnig, úr 332 í janúar í 491 í febrúar.
Vegna hærra verðs og fleiri kaupsamninga jókst veltan töluvert á íbúðamarkaði á milli mánaða í febrúar, eða úr 26 í 38 milljarða á höfuðborgarsvæðinu og úr 5 í 11 milljarða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Veltan hefur ekki aukist jafnmikið á milli mánaða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins frá upphafi mælinga í janúar 2014.
„HMS telur að aukin virkni á íbúðamarkaðnum á suðvesturhorninu sé tilkomin vegna íbúðakaupa Grindvíkinga í febrúar,“ segir í samantekt stofnunarinnar. Alþingi samþykkti lög um kaup ríkisstjórnarinnar á íbúðarhúsnæði í bænum þann 23. febrúar. Tæplega 900 íbúðaeigendur sem áttu lögheimili í Grindavík geta því selt fasteignir sínar til ríkisins og keypt aðra íbúð á fasteignamarkaði.
„Íbúðakaup Grindvíkinga geta aukið verðþrýsting á íbúðum á íbúðamarkaði í nágrenni höfuðborgarsvæðis á næstu mánuðum,“ segir í samantekt HMS.
Heimildin ræddi nýverið við Grindvíkinga sem eru í húsnæðisleit í Reykjanesbæ. Sögðu þeir allir að verð hafi hækkað mikið á örfáum vikum. Fasteignamarkaðurinn er „í tómu rugli“ sagði einn þeirra. „Því miður þá eru Grindvíkingar, vinir, að berjast um sömu húsin,“ sagði annar. „Það er bara verið að græða á okkur,“ sagði sá þriðji.
Viðtölin má lesa hér.
Athugasemdir