Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tilkynnti í dag hvernig verklag matvælaeftirlitsins er háttað hjá þeim.
Heimildin greindi frá því á föstudaginn í síðustu viku að heilbrigðiseftirlitið hafi látið henda núðlum, hrísgrjónum og rækjum á veitingastað Wok On í Krónunni á Fiskislóð í desember. Staðurinn fékk falleinkunn hjá eftirlitinu í byrjun desember, eða 1 í einkunn, og var starfsemin stöðvuð að hluta.
„Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur verður vart við óheilnæm matvæli ... er ávallt brugðist skjótt við og tryggt að matvælaöryggi sé ekki ógnað og öryggi neytenda sé tryggt, í samræmi við lög og reglur. Alvarleg mál eru kærð til lögreglu ef ástæða er til, eins og gert var í því tilviki.“
Eftirlit skilvirkt
Í tilkynningunni kemur fram að eftirlit þeirra sé skilvirkt og sé alltaf gripið til viðeigandi aðgerða og matvæli gerð upptæk þegar ástæða þykir til.
Heilbrigðiseftirlitið vinnur eftir númera skala, frá núll til fimm. Ef fyrirtæki færi núll í einkunn er starfsemin stöðvuð. „Ef niðurstaða reglubundins eftirlits er einn þýðir það að heilbrigðisfulltrúi hefur takmarkað starfsemi fyrirtækisins eða stöðvað hana að hluta eða rekstraraðili hefur axlað þá ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt lögum og gert þetta sjálfur.“ Þetta kemur fram á vef Reykjavíkur. Ef fyrirtæki fá slæma niðurstöðu, eins og einn eða tvo, „er ljóst að þau starfa ekki áfram nema að loknum úrbótum sem samþykktar eru af heilbrigðisfulltrúa í eftirliti.“
Inn á vef Reykjavíkurborgar má finna niðurstöður Heilbrigðiseftirlitsins. Þar er hægt að leita að til dæmis veitingastöðum sem fólk hefur hug á að snæða á um helgina og skoða einkunn staðarins fyrir heimsóknina.
Athugasemdir (1)