Eigin reynsla Júlíu Helgu Jakobsdóttur af athyglisbresti með ofvirkni, ADHD, var kveikjan að meistaraverkefni hennar í félagsráðgjöf til starfsréttinda þar sem hún skoðar áhrif ADHD á parasambönd fullorðinna einstaklinga. „Ég var ekki með þessi klassísku ADHD einkenni og kunni að setja upp grímu í ákveðnum aðstæðum líkt og í skóla,“ segir Júlía, sem var 22 ára þegar hún fékk staðfesta greiningu.
Meistaraverkefni Júlíu er eigindleg rannsókn þar sem hún tók viðtöl við þrjá karlmenn og sjö konur á þrítugs- og fertugsaldri sem eiga það sameiginlegt að vera greind með ADHD, hafa verið í parasambandi og búa eða hafa búið með maka. „Kveikjan að þessu viðfangsefni réðst af áhuga mínum á parasamböndum og þeirri persónulegri reynslu að vera sjálf greind með ADHD. Auk þess hefur umfjöllunin um ADHD verið áberandi í umræðunni innan samfélagsins undanfarin ár en lítið hefur borið á umfjöllun um áhrif ADHD á parasambönd fullorðinna,“ segir Júlía. …
Athugasemdir