Það sem almenningi hefur verið sagt
Snemma árið 2022 skipaði umhverfisráðherra starfshóp til þess að meta hve mikið þyrfti að auka raforkuframleiðslu á Íslandi til þess að skipta út jarðeldsneyti. Í einföldu máli þarf að skipta út olíu fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Hér á landi eru endurnýjanlegu orkugjafarnir aðallega jarðhiti, eða rafmagn, sem framleitt er með vatnsfallsvirkjunum, gufuvirkjunum, vindorkuvirkjunum eða sólarorku. Áður urðu söguleg orkuskipti, þar sem skipt var út olíu og kolum, sem notuð voru til að hita hús, fyrir jarðhita. Þessum orkuskiptum var að mestu lokið á 20. öld.
Niðurstöðurnar birtust í skýrslunni Staða og áskoranir í orkumálum (Grænpappírinn), sem kom út í mars 2022. Í henni voru settar fram nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuskiptin. Tvær, sem vöktu mesta athygli, settu fram hugmyndir um aukna framleiðslu á rafmagni á áratugnum 2040-50 miðað við núverandi framleiðslu (um 19.000 GWst á ári), sem hér segir: a) 15.648 GWst á ári, og b) 23.694 GWst á ári. Hin fyrri gerir ráð fyrir 82% aukningu; hin seinni heil 124%. Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að hagkerfið, utan þess sem tengist orkuskiptunum, haldi áfram að þróast að einhverju leyti samkvæmt nútíma spá. Í lægri sviðsmyndinni fylgir raforkuframleiðsla ekki fyllilega eftirspurn markaðsins (meira um þetta fyrir neðan). Í þeirri hærri er gert ráð fyrir að orkuskiptin séu beint álag miðað við núverandi hagkerfið, á meðan það síðastnefnda þróist samkvæmt nútíma spá. Það verði “business as usual”.
Augljóslega vakti seinni sviðsmyndin fyrst í stað mikla athygli, en sú athygli dalaði fljótt þegar málið var ekki lengur nýtt í fréttum. Til þess að fá einhvern skilning á umfangi þessara sviðsmynda getum við bent á að Kárahnjúkavirkjun framleiðir 4.600 GWst á ári. Um er því að ræða orkuframleiðslu sem jafngildir þremur og hálfri Kárahnúkavirkjun í fyrri sviðsmyndinni, en fimm í þeirri seinni. Þetta er áhyggjuefni því með byggingu Kárahnjúkavirkjunar á fyrsta áratugi þessarar aldar, í þeim tilgangi að veita orku til álbræðslu á Reyðarfirði, skiptist þjóðin í tvær fylkingar sökum þeirrar miklu umhverfiseyðileggingar sem verkefnið olli.
Síðan skýrslan birtist hefur þögn ríkt um málið. Reynslan hefur kennt okkur að þögn varðandi umhverfismál sé áhyggjuefni. Áform eru kannski í bígerð bak við tjöldin, sem gætu verið komin á það stig að erfitt verði fyrir almenning að andmæla. Í mesta lagi tekur maður eftir að stjórnmálamenn kvarta af og til út af reglugerðinni sem gildir um byggingu orkuvera. Segja hana of íþyngjandi.
En allar skynsamar manneskjur vita að orkuskipti eru nauðsynleg eins fljótt og mögulegt er. Það er óhjákvæmilegt skref á leið til kolefnahlutleysis.
Skammtíma- og langtíma
Eyðilegging náttúru sem stafar af byggingu orkuvers er langvarandi. Áhrif þess endast um margar kynslóðir. Við viljum vera viss um að langtímagagn orkuvers sé meira en langtímatap vegna eyðileggingar náttúrunnar—tap sem endist um margar kynslóðir. Það er tilhneiging til að vanmeta gildi íslenskrar náttúru—land með svona marga fossa geti örugglega fórnað nokkrum. Í raun er íslenska náttúran einstök gæði sem ekkert annað land ræður yfir, og hún er ólík náttúru annarra landa. Nóg er að spyrja ferðamenn um hvað það hafi verið sem dróg þá til landsins. Íslendingar einnig, þeir líta á íslenska náttúru sem órjúfanlegan þátt í menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar.
Þau rök koma oft fram að það sé nánast skylda okkar að bræða ál (til að nefna dæmi) hér á landi, annars yrði sama ál framleitt erlendis með skítugri raforku og því meiri CO2 mengun. Lítum framhjá sumum vafasömum atriðum í þessum rökum, til dæmis þeim að óljóst sé hvaða áhrif álframleiðsla hér, sem nemur 1,3% af heimsframleiðslu, hafi á álframleiðslu í Kína, sem nemur 57% af heimsframleiðslu. Lítum einnig framhjá því að þessi rök taki ekki tillit til þeirrar náttúrueyðileggingar sem felst í því að framleiða raforku. Við viljum einfaldlega benda á að þessi rök séu skammtímarök. Skírskotun þeirra lífir einungis á meðan orkuskiptin hafi ekki farið fram í heiminum kringum okkur. En heimurinn verður í myrkum og djúpum vanda ef orkuskiptin fara ekki fram innan 30 ára, eða einnar kynslóðar. Við viljum leyfa okkur að trúa að þessu markmiði verði að mestu leyti náð. En í því tilfelli er hlutfallslega komið í veg fyrir sáralitlu magni af CO2 á heimsvísu með því að krefjast þess fast að málmbræðsla sé áfram órjúfanlegur þáttur í íslenska hagkerfinu.
Ekkert af þessu hefur í för með sér að málmbræðsla skuli ekki vera þáttur í íslenska hagkerfinu. En það er umhugsunarefni að öll raforka sem fer í málmbræðslu hér er af svipaðri stærðargráðu og öll orka sem nú fæst hér úr jarðeldsneyti.
Óendanleg eftirspurn
Frá því að smárinn var fundinn upp, hefur reikningsgeta einnar kísilflögu tvöfaldast á tveggja ára fresti (Lögmál Moores, svokallað). Á sama tíma hefur magn orkunnar, sem þarf til þess að keyra snjallsíma okkar, ekki aukist að ráði, þrátt fyrir að reikningsgeta símanna hafi aukist gríðarlega. Það er vegna aukinnar nýtni (efficiency). En seinna lögmál varmafræðinnar takmarkar mögulega nýtni. Þegar ákveðinni nýtni er náð er ekki lengur hægt að bæta hana. Þá vex orkunotkun samhliða reikningsgetu. Menn eru ekki sammála um það hvenær hámarksnýtni muni nást. Á þeirri forsendu að reikningsgeta haldi áfram að aukast með svipuðum hraða gæti það verið innan fárra kynslóða; sumir segja eftir 50 ár. Raforkan sem þarf til að keyra snjallsíma okkar mun þá vaxa með veldisvísishraða samhliða vexti tækninnar.
Ofan á það er áætlað að eftirspurn eftir tölvuvinnslu vaxi án takmarkana. Við getum hlakkað til tíma ótakmarkaðrar eftirspurnar eftir raforku.
Landsvirkjun
Við eigum að skoða hugleiðingar síðustu tveggja málsgreina í ljósi viðskiptalíkans Landsvirkjunar. Fyrir nokkrum árum var Landsvirkjun gagnrýnd fyrir að selja málmbræðslu raforku á of lágu verði. Á þeim tíma var framboð raforku til stórra viðskiptavina, og þeir skilmálar í samningum þess lútandi, að hluta til undir pólitískum áhrifum. Sem svar við þessari gagnrýni fór Landsvirkjun að taka tillit til markaðsins, og fór að verðsetja vörur sínar samkvæmt því, þótt erfitt sé að sannreyna fyllilega þessar fullyrðingar þar sem samningarnir eru leyndarmál.
Samhliða þessum breytingum hefur heyrst að raforka frá nýjum orkuverum verði seld þeim aðila (innanlands eða utan-) sem býður hæst. Þetta er áhyggjuefni. Við sáum að eftirspurn eftir raforku mun að öllum líkindum vaxa takmarkalaust. Við getum ímyndað okkur sviðsmynd þar sem öll ný raforka væri seld stórum notendum, sem reka gagnabanka sem hýsa skýin til dæmis, því í heimi gífurlegrar eftirspurnar eftir slíkri úrvinnslu bjóða þeir hæst. Raforka verður vara þar sem eftirspurn mun ávallt fara fram úr framboði. Það er greinilega nauðsynlegt, ef orkuskipti eiga að fara fram, að endurhugsa þetta viðskiptalíkan og taka upp kerfi þar sem orkuframboði sé forgangsraðað til ákveðinna viðskiptavina.
Landvernd
Sviðsmyndirnar tvær úr Grænpappírnum, sem við lýstum hér að framan, hafa verið gagnrýndar af umhverfissamtökunum Landvernd. Þau benda meðal annars á að orkufyrirtækin hafi komið að samningu þeirra. Landvernd hefur gefið út eigin skýrslu (Sviðsmyndir Landverndar um raforkunotkun 2040; birt júní 2022) þar sem þau setja fram sínar sviðsmyndir fyrir orkuskipti. Þau gera ráð fyrir mun minni viðbótarraforku en kemur fram í Grænpappírnum. Nýjar orkukrefjandi iðngreinar eru ekki teknar með, nema þær sem lúta að framleiðslu græns eldsneytis sem ætlað er orkuskiptunum sjálfum, til dæmis vetnis. Ákveðinn sparnaður er talinn mögulegur, til dæmis með endurbótum á rafmagnsdreifikerfinu og með tæknilegum framförum.
Að spyrja rétt
Stærðfræðingurinn Georg Cantor sagði að það væri meira virði að spyrja réttrar spurningar en að svara. Í allri umræðu um orkuskipti er auðvelt að missa sjón á því sem skiptir máli. Ég vil halda því fram að rétta spurningin sé þessi:
Hvernig eigum við að framleiða rafmagnið, sem nauðsynlegt verði til að framkvæma orkuskiptin, án þess að valda óásætanlegu tjóni á náttúru Íslands?
Hér er beðið um að jafnvægi rikji milli tveggja þátta. Hve mikið rafmagn er þarft? Hve mikið tjón er þolanlegt? Mig grunar að flestum finnist að aukning á rafmagnsframleiðslu upp á 124% muni valda of miklu tjóni. Það er því of mikið rafmagn.
Í nýjustu útgáfu af rammaáætluninni eru 9.000 GWst/ári í nýtingarflokki (sem ákveðin sátt ríkir um, maður myndi ætla) eða um það bil 45% af því rafmagni sem nú þegar er framleitt. Það myndi ganga langt til að rafvæða öll flutningstæki. Áætluð orkuþörf allra ferða- og flutningstækja á landi, hafi og í lofti, ef millilandaflug er ekki tekið með, nemur um það bil 7.500 GWst/ári, samkvæmt grein á síðu Landverndar.
Skuld til framtíðarinnar
Það þarf varla að segja að við þekkjum ekki framtíðina. En við vitum hvar við vonumst til að vera um miðja 21. öld. Við viljum vera þátttakendur í heimi sem hefur hætt notkun jarðeldsneytis. Í dag er Ísland að hluta til græn vin (a.m.k. ef litið er á raforkuframleiðslu, að öðru leyti erum við mengunarvaldar), en í framtíð verður landið eitt meðal samfélags landa, sem öll reiða sig einungis á endurnýjanlega orku. Í þessari framtíð verður óspillt náttúra þessa lands æ verðmætari, bæði sem menningarleg og sem efnahagsleg auðæfi. Við skuldum framtíðarkynslóðum að varðveita hana.
Við viljum orkuskipti sem fyrst. Við vitum að auka þarf raforkuframleiðslu. En okkur verður ekki fyrirgefið ef við tökum ákvarðanir í dag sem leiða til þess að eyðilegging náttúru landsins fari umfram það sem framtíðarkynslóðir telja hafa verið réttmættanleg.
Verður það vetni, amoniak eða.... eða blanda af mörgu?
Vetni er mjög áhugavert, mætti framleiða á staðnum, utan álagstíma. En ímis tæknileg vandamál eru þar.
Millistigið að nota metna á tvíorkufarartækjum, virðist hafa sofnað við kröfu EB um að hluti metans skuli vera 2/3 í stað 1/3, eins og upphaflega var.
En hvað orkusölu til stórnotenda varðar, þá má spyrja hvort virkilega sé hagkvæmt að selja orku til mengandi málmiðnaðar?
Hvað með gagnaver? Þau menga varla og afgangsvarmann má nýta.
Ætla má að þau greiði gott verð fyrir raforkuna, sem miðist við orkuverð í heiminun, en ekki ríkjandi verð á viðkomandi hráefni, eins og virðist vera með málmiðnað.
Eftir sem áður er stærsta spurningin eftir, mun orkuverð til hins almenna notenda og smáfyrirtækja stjórnast af augnabliks framboði og eftirspurn, eins í EB? Ótrúlegt frumskóga ástand sem engu samfélagi er til sóma!!
Sú spurning vekur þá upp spurningar um EB reglugerðir um raforkumál, sem við létum Google þýða, án aðlögunar að mjög svo veikluðu dreyfikerfi raforku milli landshluta. Nægir þar að nefna að þó svo næg orka sé til staðar frá Kárahnjúkavirkjun, þá getur kerfið ekki flutt neitt sem nemur milli landshluta.