Bankasýsla ríkisins getur ekki svarað því nema að hluta í hvað 57,4 milljónir króna, sem bókfærðar voru sem aðkeypt þjónusta frá 1. maí 2022 til 31. desember 2023, fóru. Heimildin sendi fyrirspurn til forstjóra stofnunarinnar og stjórnar hennar þann 30. janúar síðastliðinn og óskaði eftir sundurliðun á upphæðinni. Það tók á sjöttu viku að fá svar við fyrirspurninni og þegar það barst var niðurstaðan sú að ekki væri hægt að svara henni með tæmandi hætti.
Í svarinu, sem Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sendi, sagði að stofnunin leggi „áherslu á að ekki eru til staðar fyrirliggjandi gögn með þeirri sundurliðun og upplýsingum sem óskað er eftir. Stofnunin þyrfti að leggja í töluverða vinnu við að útbúa og taka saman slík gögn og er ekki auðvelt að kalla þessar upplýsingar fram rafrænt með einföldum hætti. Þar sem þessar upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi telur stofnunin ekki hægt að verða við beiðninni.“
Athugasemdir (3)