Flest þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir lögreglu í gær eru með íslenskan ríkisborgararétt. Þau eiga þó öll rætur að rekja til Víetnam. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, í samtali við Heimildina. Allir brotaþolar eru frá Víetnam.
Spurður hvort að kynlífsmansal sé til rannsóknar í tengslum við aðgerðir lögreglu segir Grímur svo ekki vera. Grunur leiki aðeins á svokölluðu vinnumansali.
Aðgerðirnar sem um ræðir eru vegna gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Húsleitir voru gerðar á 25 stöðum í gær og fallist hefur verið á gæsluvarðhald yfir sex manns í tengslum við meint brot.
Var öllum veitingastöðum Pho Vietnam og Wok On lokað í gær en þeir eru í eigu Davíðs Viðarssonar, sem einnig er þekktur sem Quang Le. Sá rekur einnig tvö hótel í miðbæ Reykjavíkur og þrifaþjónustuna Vy-þrif.
Athugasemdir