Um 40 prósent launafólks eiga erfitt með að ná endum saman og sambærilegt hlutfall fólks gæti ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.
Á fundi sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu í dag voru niðurstöður könnunar á lífsskilyrðum launafólks kynntar. Fundinn sóttu meðal annars forsætisráðherra, innviðaráðherra, forseti Alþýðusambandsins og formaður BSRB.
Rannsóknin náði til félaga í Alþýðusambandi Íslands og BSRB en alls tóku um 21.000 manns þátt í könnuninni. Í fréttatilkynningu Vörðu kemur fram að fjöldi svara hafi aldrei verið meiri frá því að rannsóknir á lífsskilyrðum launafólks hófust árið 2020.
Þrátt fyrir að fjárhagsstaða launafólks hafi heilt á litið ekki breyst umtalsvert á milli ára telja skýrsluhöfundar að bregðast þurfi við stöðu barnafólks, kvenna og innflytjenda sem hafi farið hrakandi milli ára.
Versnandi fjárhagsstaða foreldra
Til að mynda hefur hlutfall foreldra sem hafa ekki efni á grunnþáttum fyrir börn sín hækkað frá því fyrra. Foreldrar eru nú taldir líklegri til þess að stofna til skuldar til að standa straum af þeim fjölþætta kostnaði sem fylgir því að reka heimili.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar býr fjórðungur einhleypra foreldra við efnislegan skort og 20 prósent foreldra sem tóku þátt í könnuninni sögðust ekki hafa ráð á því að gefa börnum sínum afmælis- eða jólagjafir.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er fólk á aldrinum 31 til 40 ára talsvert líklegra til þess að búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Þessar niðurstöður ríma við gögn Húsnæðis- mannvirkjastofnunar, sem birti nýverið tölur sem sýndu að leiguverð hefði að meðaltali hækkað um 30.000 krónur milli ára hjá leigjendum á aldursbilinu 35 til 44 ára.
Konur í verri stöðu en karlar
Í skýrslu Vörðu kemur fram að á fjárhagsstaða kvenna sé „verri á öllum heildarmælikvörðum og konur eru háðari maka um framfærslu en karlar.“ Um 60 prósent einhleypra mæðra gætu ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum.
Í könnun Vörðu er einnig lagt mat á andlega líðan launafólks og samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar býr 30 prósent launafólks við slæma andlega heilsu. Hins vegar er hlutfall enn hærra meðal einhleypra mæðra en ríflega helmingur þeirra býr við slæma andlega heilsu.
Innflytjendur í marktækt verri stöðu fjórða árið í röð
Kjör innflytjenda mælast, fjórða árið í röð, marktækt verri en innfæddra Íslendinga. Hærra hlutfall þeirra á erfitt með að ná endum saman og í erfiðleikum með að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn sín en áður.
Þá er einnig tekið fram að staða innflytjenda á húsnæðismarkaði sé gjörólík þeirri sem viðgengst meðal innfæddra Íslendinga. Hlutfall innflytjenda sem býr í eigin húsnæði er mun lægra. Sömuleiðis sé húsnæðiskostnaður innflytjendum þyngri fjárhagsleg byrði og sá hópur í ríkari mæli í húsnæði sem henti þeim illa.
Í skýrslu Vörðu kemur einnig fram að um þriðjungur innflytjenda hafi orðið fyrir mismunun á vinnumarkaði á síðustu tveimur árum vegna uppruna síns.
Athugasemdir