Kennari við Menntaskólann á Laugarvatni sem viðhafði niðrandi ummæli um Bashar Murad, keppanda í Söngvakeppni sjónvarpsins, er kominn í leyfi. Í framhaldi verður gengið frá starfslokum mannsins, Helga Helgasonar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólameistara mennaskólans, Jónu Katrínu Hilmarsdóttur.
„Sú orðræða sem Helgi hefur viðhaft samræmist ekki stefnu eða einkennum skólans,“ segir í tilkynningunni. „Stjórn skólans og Helgi hafa sammælst um að hann fari í leyfi frá og með deginum í dag og í kjölfarið verði gengið frá starfslokum.“
Helgi kenndi dönsku og fjármálalæsi við Menntaskólann að Laugarvatni. Um helgina skrifaði hann færslu í umræðuhóp Íslensku Þjóðfylkingarinnar á Facebook. Helgi var um tíma formaður flokksins þegar hann bauð sig fram í þingkosningum árið 2016.
Kallaði Bashar fulltrúa Hamas
Í færslunni fjallaði Helgi um lokakeppni Söngvakeppni sjónvarpsins sem haldin var á laugardaginn og spurði hvort Helgi úrslitum keppninnar yrði hagrætt.
„[Æ]tla þeir hjá RÚV að láta grenjandi og illa skeindann Palistínuaraba vinna?“ skrifaði Helgi.
Í færslunni, sem einnig hefur verið sögð bera ríkan keim af kvenfyrirlitningu, hvatti Helgi lesendur til þess að leggjast á eitt kjósa „eitthvað annað en fulltrúa hryðjuverkasamtakanna HAMAS“.
Upphaflegri færslu Helga hefur verið breytt, en skjáskot af færslunni voru birt á af Karenu Kjartansdóttur á Facebook-hópnum „Afhjúpum kvenfyrirlitningu og almennt hatur á samfélagsmiðlum.“
Í samtali við Heimildina í gær sagði skólameistarinn Jóna Katrín að ummæli Helga gengju gegn stefnu skólans.
„Stefna skólans er skýr inn á menntaskólasíðunni og þetta samræmist á engan hátt því sem við viljum standa fyrir eða höfum verið að vinna að í mörg mörg ár.“
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir (2)