N
ýlega birtu þau Anya Schiffrin og Haaris Mateen grein um það hvað Google og Meta skuldi fjölmiðlum fyrir það að þeir birti greinar á samfélagsmiðlum fyrirtækjanna. Komust þau að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin tvö skuldi bandarískum fjölmiðlum 13 billjónir dollara, sem eru um það bil 1.830 billjónir íslenskra króna.
Schiffrin, sem er forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar School of International and Public Affairs við Columbia-háskóla í New York, og Mateen, sem er hagfræðingur og kennari við Houston-háskóla, héldu erindi á málþingi um fjölmiðla á tímum stafrænnar byltingar fyrr í dag.
Þau skoðuðu lög sem sett voru í Ástralíu þar sem Google og Meta var gert að greiða fjölmiðlum fyrir að dreifa efni þeirra á samfélagsmiðlunum. Síðan könnuðu þau hvort að önnur lönd stefndu að því að innleiða slík lög. Komust þau að því að um heim allan er Google að gera þagnarskyldusamninga við fjölmiðlafyrirtæki og greiða þeim eingreiðslur í stað þess að greiða fyrir hverja dreifingu fréttaefnis.
Ef ný lög um fjölmiðlasamkeppni í Bandaríkjunum verða samþykkt mun Google og Meta verða skylt að greiða fjölmiðlum fyrir að birta greinar á samfélagsmiðlum sínum.
Ættu fjölmiðlar að vera þakklátir fyrir Google?
Rannsakendurnir skoðuðu hve miklar tekjur Google og Meta eru af auglýsingum og efni þeim tengdum. Í grein á Poynter svara þau meðal annars spurningunni hvort að fjölmiðlar ættu ekki að vera þakklátir fyrir að Google sendi fólk á vefmiðla þeirra. Í svari þeirra segja þau að Google vissi vel að það að búa til góða leitarvél myndi draga úr því að fólk leitaði beint á vefsíðum fréttamiðla.
Þau skýra þetta með eftirfarandi myndlíkingu: „Ímyndaðu þér að þú eigir bakarí sem selur gómsætar bláberjamúffur. Á hverjum morgni kemur einhver og rífur efsta lagið ofan af þeim, en skilur eftir þurra neðri partinn. Þegar það er ljóst að það er ómögulegt að selja neðsta hlutann er þér sagt að þú þurfir „nýtt viðskiptamódel.““
„Smá kaldhæðnislegt að stærstu auglýsingafyrirtæki í heiminum eru að segja útgefendum að snúa sér að áskriftum.“ Í greininni leggja þau áherslu á verðmætin sem skapast á kerfum líkt og Google og Facebook vegna fréttaefnis.
Í fyrirlestrinum fyrr í dag sagði Haaris að oftast væru fyrstu leitarniðurstöðurnar sem kæmu upp á Google hlekkir á fréttir. Á samfélagsmiðlum færu síðan fram samskipti um fréttirnar.
Niðurstaða þeirra er að samfélagsmiðlar og fjölmiðlar græði báðir hvor á öðrum. Þeir ættu því að vinna saman og fá jafnan hluta af þeim tekjum sem skapast. Á núverandi fyrirkomulagi græða Google og Meta talsvert meira en fjölmiðlarnir.
Athugasemdir