Við jarðkönnun í Grindavík hafa fundist vísbendingar um stór holrými undir jörðinni á Hópsbraut og við Vesturhóp og Suðurhóp sem tengjast Stamphólagjánni, tveggja kílómetra langri sprungu sem liggur í gegnum bæinn. Einnig tengjast Ránargata og Austurvegur gjánni og allar lóðir austan Víkurbrautar. „Öll þessi svæði þarf að skoða sérstaklega með mikilli varkárni,“ segir í samantekt almannavarna um stöðu rannsókna á sprungum í bænum sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur.
„Mikilvægt er að girða af svæði þar sem grunur leikur á um sprungur eða þar sem frekari jarðkönnun þarf að fara fram.“
Jarðkönnunin er hluti af heildaráhættumati fyrir Grindavík og er unnið í samstarfi við verkfræðistofurnar Verkís og Eflu, Lögreglustjórann á Suðurnesjum, Grindavíkurbæ, Vegagerðina, ÍSOR og Háskóla Íslands. Verkefnið hefur að sögn almannavarna þann tilgang að auka öryggi fólks með því að rannsaka og kortleggja sprunguhættu. Jarðkönnunin einskorðast að mestu leyti við þéttbýlið í Grindavík.
Framkvæmd jarðkönnunar hefur verið flokkuð í þrjá fasa. Í fyrsta fasa, sem er hafinn, er unnið að því að tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem sinna verðmætabjörgun. Framkvæmd er sjónskoðun en jarðkönnunin er hins vegar aðeins gerð á vegum og götum. „Af því leiðir að ekki er búið að jarðkanna íbúðasvæði eða önnur svæði í Grindavík, t.a.m. göngustíga, bílastæði, lóðir (bæði einkalóðir og sameiginlegar), opin svæði við og á milli fasteigna og önnur opin og/eða sameiginleg svæði innan Grindavíkur eða á víðavangi,“ segir í samantekt almannavarna.
Jarðkönnun er einnig hafin á vinnusvæðum fyrirtækja í Grindavík sem tilheyra 2. fasa verkefnisins. Sjónskoðanir hafa verið framkvæmdar á hafnarsvæðinu og þar hafa fundist sprungur á yfirborði sem ráðlagt er að skoða með dýpri jarðsjárskoðun og gryfjum.
Iðnaðarsvæðið (hólf S4 á kortinu hér að ofan) er illa farið, segja almannavarnir. Tvær stórar sprungur liggja gegnum svæðið og eyðilegging mikil. Jarðsjártúlkun gatna er í vinnslu og fljótlega verður farið í sjónskoðun. „Ráðlagt er að klára úrvinnslu og meta aðgerðir á þessu svæði áður en það er opnað fyrir almenning.“ Sú vinna mun taka um 2-3 vikur.
Jarðkönnun á opnum svæðum bæjarins tilheyrir 3. fasa. Þau svæði eru þar með ekki í forgangi og því er skipulagning og vinna jarðkönnunar ekki hafin nema að takmörkuðu leyti, segja almannavarnir.
Vinna sé hins vegar hafin við skoðun á stærstu sprungum bæjarins sem hafa hreyfst hvað mest í jarðhræringunum enda fellur jarðkönnun á þeim undir alla þrjá fasa verkefnisins. „Sprungurnar eru á mörgum stöðum óaðgengilegar og hættulegar og því hafa þau svæði ekki verið í forgangi.“
Rannsakað í fjórar vikur
Jarðkönnun á sprungum í Grindavík hófst formlega fyrir fjórum vikum. Almannavarnir segja mikið verk hafa verið unnið á þeim tíma en tímafrekt hafi verið að skipuleggja verkefnið, m.a. Að forgangsraða og skipta bænum niður í hólf af viðráðanlegri stærð fyrir túlkun gagna. Þá hafi verið mikilvægt að útbúa aðgerðaráætlun til að stuðla að kerfisbundinni rannsókn á svæðinu.
Almannavarnir segja að „ágætlega“ hafi gengið að manna verkefnið en um þrjátíu manns hafa komið að framkvæmd þess. Þá hafi gengið vel að finna nauðsynlegan búnað til verksins. „Túlkun jarðsjárgagna hefur tekið tíma þar sem það krefst sérfræðiþekkingar og hefur það á vissan hátt virkað takmarkandi á framvindu. Slæm veður, eldgos og lokanir í bænum hafa jafnframt seinkað framkvæmd. Framvinda verkefnisins telst þó yfir væntingum miðað við þann stutta tíma sem er liðinn frá því að rannsóknir hófust. Ef auka ætti afköstin þyrfti meiri mannskap og búnað í verkefnið sem gæti þá farið yfir fleiri svæði samtímis. Í skoðun er einnig að beita öðrum aðferðum við rannsóknir.“
Mikil óvissa
Í samantekt almannavarna er svo áréttað að enn ríki mikil óvissa um opin svæði í Grindavík. Megi þar sérstaklega nefna stærri sprungur og Stamphólagjánna og svæðin sunnan og norðan við þekktar sprungur. „Rétt er að girða þessi svæði af þangað til jarðkönnun er lokið og gæta þarf að öðrum mótvægisaðgerðum gagnvart þeim hættum sem þar kunna að vera til staðar.“
Ljóst þykir að sögn almannavarna að jarðkönnun á allri Grindavík muni taka talsverðan tíma. „Mikilvægt er að girða af svæði þar sem grunur leikur á um sprungur eða þar sem frekari jarðkönnun þarf að fara fram. Jafnframt er mikilvægt að sem skýrustum upplýsingum sé komið til fólks um hvaða svæði ber að varast í Grindavík.“
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók þá ákvörðun í byrjun vikunnar að heimila Grindvíkingum og forsvarsmönnum og öðrum starfsmönnum fyrirtækja að dvelja í bænum allan sólarhringinn. Innviðir eru hins vegar í lamasessi og hættur leynast víða.
Athugasemdir (2)