„Heilbrigðiseftirlitið lítur svo að opnun Grindavíkur í gær sé hugsuð til að gefa íbúum og fyrirtækjum möguleika á að huga að eigum sínum og að fyrirtæki geti undirbúið starfsemi,“ segir Ásmundur E Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. „Varla er von á víðtækri búsetu við núverandi aðstæður, enda ber ákvörðun lögreglustjóra Suðurnesja með sér að ýmsir annmarkar séu á búsetunni og vissum hópum ráðið frá henni.“
Í Grindavík er ekkert kalt vatn og verulegur skortur á heitu vatni. Ásmundur segir að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi aflað sé stefnt að opnun vatnsveitu í áföngum næstu daga. Þá sé fráveita talin ósködduð og vel nothæf í nokkrum hlutum bæjarins. „Heilbrigðiseftirlitinu er ekki kunnugt um að starfsemi á starfssviði embættisins svo sem veitingaþjónusta, gistirekstur, skólar, dvalarheimili fari fram á þeim svæðum þar sem vatns- og fráveitu nýtur ekki við.“
Heimildin leitaði til Ásmundar vegna hinna löskuðu innviða og þeirra tíðinda að Grindvíkingum og þeim sem reka fyrirtæki sé nú heimilt að dvelja í Grindavík allan sólarhringinn. Annmarkarnir sem lögreglustjórinn áréttaði í tilkynningu sinni um þessa opnun, og Ásmundur vísa til, snúa fyrst og fremst að þeim hættum sem geta leynst í bænum. Þar er fjöldi sprunga, margar djúpar og ekki allar augljósar á yfirborði. Lögreglustjórinn ráðið fólki frá því að dvelja í bænum allan sólarhringinn og sagt að Grindavík sé ekki staður fyrir börn.
En er heimilt samkvæmt lögum og reglum um t.d. hollustuhætti að dvelja og starfa í Grindavík við þær aðstæður sem eru uppi, þ.e. ekkert neysluvatn er tiltækt og heitt vatn af skornum skammti?
„Það er ekkert í hollustuháttalögunum sem tekur á búsetu,“ svarar Ásmundur. „Lögin fjalla fyrst og fremst um hvernig tekið er á mengun frá ýmis konar starfsemi og hvernig hollustuhættir eru tryggðir í þjónustustarfsemi af ýmsum toga.“
Svo slæmt er ástandið í augnablikinu að fólk getur ekki notað salerni í húsum sínum og ekki hækkað í ofnum svo hiti innandyra er jafnvel aðeins rétt yfir frostmarki. „Löggjöfin tekur að afar takmörkuðu leyti á því hvernig aðbúnaður fólks er á einkaheimilum,“ segir Ásmundur. „Ekki verður séð að tímabundið vatnsleysi gangi gegn löggjöfinni þó slíkt ástand geri fólki augljóslega erfitt um vik.“
Munu sinna eftirliti
Ef ætlunin sé að nota húsnæði fyrir leyfisskylda starfsemi s.s. fyrir hótel, dvalarheimili, fangelsi, leikskóla eða sambærilegt, þá gæti langvarandi skortur á húshitun stangast á við fyrrnefnd lög, að sögn Ásmundar. Hann bendir þó á að hægt sé að hita hús með öðrum leiðum en heitu vatni, s.s. Með rafhitun, jafnvel með aðkomu rafstöðva, ef rafveitan annar ekki þeirri þörf.
„Verksvið heilbrigðisnefnda er fyrst og fremst ákveðið í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um matvæli og felst í leyfisveitingum og eftirliti með starfsemi sem fellur undir þessa löggjöf,“ segir Ásmundur. „Eftir sem áður verður fylgst með þeirri starfsemi sem fellur undir starfssvið heilbrigðisnefndar eftir því sem slík starfsemi kann að hefjast á ný í Grindavík.“
Athugasemdir