„Það horfir svo sem ágætlega við okkur,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, spurður um hvernig honum litist á að fyrirtækjum í bænum sé heimilt að hefja starfsemi og Grindvíkingum að dvelja þar allan sólarhringinn. „Við náttúrlega sníðum okkur stakk eftir vexti.“
Hann segist ekki eiga von á því að mikill fjöldi íbúa vilji gista í Grindavík við þær aðstæður sem uppi eru. Það er ekkert kalt vatn og þar af leiðandi ekki hægt að nota salerni og fleira. Það er lítið heitt vatn og því takmarkaður hiti á húsum. Margir séu búnir að koma sér annars staðar fyrir til bráðabirgða eða langframa og flytja alla búslóðina sína í burtu. „Ég á ekki von á því að það verði gist í mörgum húsum í nótt. Þannig að okkar viðbúnaður miðast við það að tryggja öryggi þessara fáu sem eru í bænum.“
Einar Sveinn er nokkuð brattur en segir þó að það sé að sjálfsögðu snúið að hanna viðbragð slökkviliðs við þær aðstæður sem uppi eru í Grindavík. „Þetta er snúið og krefjandi,“ segir hann, „en við leysum það eins og önnur verkefni sem við höfum tekist á við síðastliðna mánuði“.
Fjölmenn vakt er nú í bænum að sögn Einars en hingað til hefur lítið viðbragð verið til taks á nóttunni enda enginn dvalið þar næturlangt um hríð. TIl standi að auka viðveru slökkviliðsins eftir því hversu margir ákveða að snúa til baka og hver virknin verður, t.d. hjá fyrirtækjum.
Samræmist þetta öllum reglum um brunavarnir að heimild sé til dvalar allan sólarhringinn?
„Já, við munum að sjálfsögðu tryggja það að við uppfyllum allar reglur og lög, annars værum við ekki að heimila íbúagistingu,“ svarar Einar. „Við erum að yfirfara með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun allar áætlanir út frá breyttum sviðsmyndum. Það eru breytingar frá því sem var. Og við erum að sníða okkur stakk eftir vexti og endurskoða allar áætlanir og hvaða viðbragð þarf að vera. Þetta er í endurskoðun og í dag erum við með fulltrúa frá HMS í heimsókn þar sem við erum að yfirfara hvert viðbragðið þarf raunverulega að vera miðað við mannfjölda og umfang í bænum.“
Hann segir það sína skyldu sem slökkviliðsstjóra að fólk sé öruggt í Grindavík út frá ákvæðum brunareglugerðar. „Og við erum búin að hugsa það út.“ Vatnsbirgðir séu „klárar í húsi“ til að takast á við „venjulegan“ húsbruna. „Öll stærstu fyrirtækin sem eru að fara í gang eru við sjó þannig að við eigum búnað og lagnir til þess að leggja að þeim.“
Ertu með ráð eða viðvörunarorð fyrir fólk sem ætlar að vera þarna, hvort sem er yfir dag eða nótt?
„Það er bara að ganga hægt um gleðinnar dyr og bera virðingu fyrir öllu sem er í kring, bæði náttúru og umhverfinu sem fólk er að ganga inn í,“ svarar Einar Sveinn. „Auðvitað getur í þessum hræringum margt farið úrskeiðis. Rafbúnaður laskast og vatnskerfin. Það á nú að hleypa á kaldavatnskerfin á morgun og það þarf að vera vel vakandi fyrir lekum svo að það verði ekki tjón af því.“
Bærinn að lifna við
Laust fyrir hádegi í dag þegar blaðamaður Heimildarinnar ræddi við Einar var fólk farið að koma til bæjarins. „það er svolítið af fólki komið til að kanna sín fyrirtæki og kveikja ljós og koma sér aðeins á stað. Það er ánægjulegt að sjá að það er aðeins meira líf í bænum heldur en er búið að vera lengi.“
„Þannig að okkar viðbúnaður miðast við það að tryggja öryggi þessara fáu sem eru í bænum.“
Góð tilfinning?
„Já, við erum búin að vera svolítið einmana i bænum síðastliðnar vikur. Það er alltaf ánægjulegt að sjá fólk koma aftur.“
Einar Sveinn er Grindvíkingur og hefur sinnt vöktum líkt og kollegar hans í slökkviliðinu í bænum allt frá 10. nóvember. „Þannig að við erum búin að standa lengi vaktina og reyna að halda þessu góðu.“
Spurður hvort hann sé uggandi yfir því að eitthvað komi upp á, s.s. miklir vatnslekar eða eldsvoði, nú þegar líf er að færast í bæinn svarar Einar Sveinn: „Ég er kannski ekki beint hræddur um það en að sjálfsögðu, með auknum umsvifum eru meiri möguleikar á að það komi upp eitthvað frávik, að eitthvað komi upp á. En það er bara partur af þessu. Ef við ætlum að kveikja ljósin í Grindavík þá verðum við bara að kveikja. Það geta fylgt því frávik og við bara tökumst á við það og erum að reyna að undirbúa okkur hvað við getum til þess að geta það.“
Verðið þið með vakt í nótt?
„Það verður einhver vakt í nótt. Það er ekki fast mótað. VIð verðum bara að sjá hvernig dagurinn þróast. Fjöldinn og annað. Við spilum þetta að fingrum fram fram eftir degi.“
Ætlar þú að gista?
„Nei, nei, nei.“
Einn sjúkrabíll á dagvinnutíma
Brunavarnir Suðurnesja, sem eru með höfuðstöðvar sínar í Reykjanesbæ, sjá um sjúkraflutninga frá Grindavík og eru auk þess tilbúnar til aðstoðar ef slökkviliðið í Grindavík óskar eftir því. Sigurður Skarphéðinsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, segir einn sjúkrabíl alltaf til taks í Grindavík á dagvinnutíma og til greina komi að hafa hann einnig á staðnum á nóttunni nú þegar aðgangur að bænum, íbúðarhúsum og fyrirtækjum, er orðinn rúmur. „Auðvitað eru þetta hvorki góðar aðstæður né ákjósanlegar,“ segir hann. Allt verði vissulega erfiðara þegar ekki sé hægt að taka vatn með hefðbundnum hætti. Hann segist þó skilja fullvel að fólk vilji komast heim til sín, þrátt fyrir að innviðir séu laskaðir.
Aðgengi að Gríndavík fyrir viðbragðsaðila er ekki jafn gott og áður. „Það er ekki hægt að neita því,“ segir Sigurður, enda flæddi hraun yfir Grindavíkurveg og því um lengri veg að fara fyrir slökkvibíla frá Reykjanesbæ, verði aðstoðar þeirra óskað. Unnið er að úrbótum með hjáleiðum hvað það varðar sem vonandi komist í gagnið sem fyrst.
Athugasemdir