Ég heiti Asil Al-Masri og er 17 ára flóttamaður frá borginni Khan Younis í Gaza, Palestínu, sem nú hefur verið lögð í rúst og hernumin af Ísraelsher. Já, ég kalla mig flóttamann þrátt fyrir að ég hafi íslenskan ríkisborgararétt, því þrátt fyrir það að ég sé mjög þakklát fyrir góðvild Íslendinga fyrir það að hafa gert mig að íslenskum ríkisborgara, mun hver sá sem hefur verið með ógnarvaldi hrakinn á flótta frá heimalandi sínu alltaf vera flóttamaður í öðru landi.
Þann 17. október 2023 var ég við dauðans dyr en af einhverjum ástæðum var mér gefið annað tækifæri til lífs þegar loftárás af hendi Ísraelshers sprengdi nágrenni mitt og heimili, þar sem ég var stödd. Ég var dregin undan rústunum en hinar 28 manneskjurnar voru ekki jafn lánsamar. Þau dóu öll. Vegna þessarar loftárásar, vegna þessa stríðs, nei, vegna þessa þjóðarmorðs. Mamma mín Andera, pabbi minn Dr. Jihad, eldri systir mín Asma og fjögurra ára frændi minn Amir voru á meðal þeirra 28 sem voru myrt í þessari loftárás af hendi Ísraelshers. Já, þau bera nöfn, þau eru ekki aðeins tölur. Ég missti líka annan fótinn, vini mína, hverfið mitt, húsið mitt, marga ættingja, og, ég missti allt sem ég eitt sinn kallaði heima.
Ég man enn þá síðasta samtalið sem ég átti við móður mína, föður og eldri systur kvöldið áður en þau voru myrt. Við vorum að ræða hvaða mat við ættum eftir til þess að við gætum borðað morgunmat og hvort netsambandið kæmist aftur á svo við gætum talað við bræður mína til þess að láta þá vita að við værum á lífi. Við ætluðum okkur að gera morgunmat úr brauði, eggjum og te en það gerðist aldrei.
Í hvert sinn sem ég borða morgunmat, man ég þessa nótt. Orð geta ekki lýst sársaukanum. Í hvert sinn sem mér verður litið á fótinn sem er ekki lengur til staðar man ég hvernig þeir þurftu að taka hann af því hann var gjörsamlega mölbrotinn eftir rústirnar. Í hvert skipti sem ég lít í spegil, man ég að ég lifði af – en ekki þau.
Ég lifði einföldu lífi á Gaza af því að Gaza hefur verið undir herkví til margra ára. En fyrir mér var það hið fallegasta líf því ég var meðal fjölskyldu, vina, nágranna og samfélagsins míns. Á Gaza hugsar fólk alltaf vel um hvert annað.
Mig dreymdi um starfsframa sem fæli í sér að hjálpa fólki. Mig dreymdi um að hjálpa fólki. Það var það sem móðir mín og faðir gerðu. Þau reyndu alltaf að hjálpa fólki með öllum tiltækum leiðum.
Faðir minn, Dr. Jihad Almasri, prófessor í sögu og forstöðumaður Al Quds háskóla á Gaza, háskóla prófessor sem stundaði umfangsmiklar rannsóknir í evrópskum háskólum, sagði alltaf við mig að ég gæti afrekað allt sem ég ætlaði mér ef ég ynni hörðum höndum að því. Ef ég væri heiðarleg og góð manneskja og gæfist aldrei upp fyrir markmiðum mínum. Hann hjálpaði ótal nemendum að útskrifast og uppfylla drauma sína meðan hann lifði. Hann var góður maður sem hefði getað hjálpað mörgum öðrum nemendum ef hann hefði fengið að lifa, ef hann hefði ekki verið myrtur af Ísraelsher.
Oft vakna ég upp um miðja nótt af sársauka eða vegna martraða en einfaldlega af sorg. Ég vildi óska að ég gæti grátið í faðmi móður minnar eins og ég var vön en ég get það ekki. Hún vissi alltaf réttu orðin til að hugga mig. Ég sakna hennar líka. Ég sakna þeirra allra svo mikið og tíminn læknar ekki sárin eins og þau segja oft í bíómyndum, tíminn opnar sárið og heldur því opnu.
Ég er bara eitt dæmi af 2,2 milljónum manna sem búa á Gaza einmitt núna sem eru að ganga í gegnum sama sársauka og ég, en á mismunandi stigum. Þau bera líka nöfn, þau eiga líka fjölskyldur, vini, metnað og drauma. Þau eru manneskjur, mennsk eins og ég og þú, þau eiga sama rétt á eðlilegu og öruggu lífi.
Horfið í augu særðu eða dánu barnanna á Gaza. Horfið á litlu skjálfandi líkama þeirra, þakta ryki, óhreinindum eða þakta blóði. Horfið á líkamsleifar þeirra í fangi foreldra þeirra eða ókunnugra, vafin plasti eða rúmfötum. Hlustið á óbærileg óp og grát mæðra, feðra og barna. Það er mjög auðvelt að sjá og heyra þetta allt saman. Þetta er í stöðugri dreifingu á samfélagsmiðlum og hefur verið í dreifingu í 120 daga. Hvenær varð slíkur hryllingur gegn mannkyni að hinu nýja normi?
Eru þessar myndir, myndbönd og hljóð virkilega að skemmta öllum svo mikið að enginn er að gera neitt í því að reyna stöðva þetta?
Verum rödd þessara barna, þessara kvenna, þessara mæðra, þessara feðra, bræðra og systra. Reynum nú að bjarga því sem eftir er af mannúðinni í heiminum. Tjáum samstöðu okkar með orðum til stuðnings og með ást en það sem meira er, það sem er það mikilvægasta, með gjörðum, með aðgerðum. Öskrum eins hátt og við getum: „Frjáls, frjáls Palestína! Stöðvið þjóðarmorðið á Gaza!“ Þar til að það er búið að stöðva það.
Sögur palestínsku barnanna eru sögur af hugrekki og seiglu, og okkar samstaða er með þeim í hverju skrefi þeirra.
Hvert barn í Palestínu ber með sér sársaukafulla sögu í hjarta sínu sem við verðum að hlusta á og heyra.
Samstaða með palestínsku þjóðinni er mikilvæg. Þetta er ekki bara pólitískt mál, heldur frekar tjáning á gildum mennsku og mannúðar og félagslegs réttlætis.
Við verðum að halda röddum þeirra og sögum á lofti. Við verðum að kalla eftir aðgerðum til að stöðva þjóðarmorðið á Gaza og draga Ísrael til ábyrgðar fyrir hryllilega stríðsglæpi.
Hver rödd skiptir máli.
Takk fyrir.
Þýðing: Karen Kjartansdóttir
Athugasemdir (1)