Það styttist í þingkosningar í Bretlandi. Rétt eins og hér á landi stefnir í afhroð íhaldsflokks landsins sem setið hefur við völd í meira en áratug. Dálkahöfundur dagblaðsins The Times fylgdist hugfanginn með viðbrögðum flokksins við yfirvofandi óförum. „Það er eitthvað einstaklega skilvirkt við það hvernig Íhaldsflokkurinn leggur sig nú allan fram við að ganga af göflunum, þótt hann sé enn við völd, í stað þess að bíða með það þangað til hann missir þau eins og hefur verið hefðin,“ skrifaði Hugo Rifkind á samfélagsmiðilinn X.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, var gagnrýndur nýverið fyrir þúsund punda veðmál við stjórnanda sjónvarpsþáttar um að honum tækist að hefja flutning á hælisleitendum til Afríkuríkisins Rúanda áður en kjörtímabili hans lyki. Þótti m.a. smekklaust af Sunak að leggja svo háa fjárhæð undir á tímum þegar fjöldi fólks nær ekki endum saman. Helst vakti þó furðu að Sunak skyldi gera Rúanda-flutningana að helsta kosningamáli sínu í ljósi þess að hinn almenni maður hefur mestar áhyggjur af skertum lífskjörum og ástandi heilbrigðiskerfisins.
En klúður Sunak var aðeins byrjunin. Í síðustu viku stofnuðu óvinsælustu félagar Íhaldsflokksins með sér samtökin „Popular conservatives“, eða PopCon eins og hópurinn kýs að kalla sig. Meðal þeirra sem vöktu athygli á stofnfundinum var þingmaðurinn Lee Anderson sem kom, sá og færði sigrihrósandi rök fyrir því að kol væru eftir allt saman endurnýjanleg orka því fyrir „hundrað milljón árum voru þau tré og plöntur“.
Stjarna samkomunnar var hins vegar Liz Truss, einn versti forsætisráðherra í sögu Bretlands, sem tókst á 49 daga valdatíð sinni að kollvarpa bresku efnahagskerfi er hún hrinti í framkvæmd blautum draumum sínum um skattalækkanir. Þótt efnahagsaðgerðir Truss hefðu samstundis breyst í martröð sem almenningur sýpur enn seyðið af boðaði hún kjósendum áfram sama fagnaðarerindi frjálshyggjunnar.
En það er ekki aðeins breski íhaldsflokkurinn sem missir sjónar á veruleikanum í andarslitrunum.
Innviðir og hælisleitendur
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi fyrir skemmstu mótmæli nokkurra Palestínumanna á Austurvelli sem kölluðu eftir því að fjölskyldur þeirra fengju að koma til landsins. „Engum ætti að líðast að flagga nokkrum þjóðfána fyrir framan Alþingi Íslands svo vikum skipti til að mótmæla íslenskum stjórnvöldum,“ skrifaði Bjarni á Facebook. Hann sagði að „herða“ yrði „reglur um hælisleitendamál“ því „innviðir okkar“ væru „komnir að þolmörkum“.
Bjarni var sakaður um að færa sér í nyt aðferðir hægri popúlista í von um að auka fylgi flokks síns sem mælist nú í sögulegum lægðum. En á sama tíma og Bjarni bryddaði upp á nýjungum ríghéldu aðrir flokksmenn í gamla fagnaðarerindið.
33 milljarðar
Þegar gjósa tók á ný á Reykjanesskaga í síðustu viku blasti við sú ógn sem náttúruöflin eru innviðum landsins. Í samtali við mbl.is sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra nauðsynlegt að „greina alla veikleika“. Aðspurður sagði ráðherrann þann helsta að varaafl á heilbrigðisstofnunum væri ekki tryggt. „Það átti að vera klárt eftir aðgerðirnar 2020 en nú er að koma í ljós að varaaflið er ekki tryggt á einkareknum hjúkrunarheimilum sem hafa þá ekki tekið til sín þessi tilmæli,“ sagði ráðherrann.
„Hyggist Bjarni leita skýringa á brostnum innviðum hjá litlum hópi hælisleitenda er ólíklegt að hann finni þær“
Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi að leggja á nýjan skatt sem standa á undir gerð varnargarða sem verja eiga innviði á Reykjanesskaga við eldsumbrot, sér í lagi mannvirki HS Orku við Svartsengi. Það vakti gremju margra að almenningur skyldi einn látinn standa undir kostnaði af 2,5 milljarða framkvæmdinni í ljósi þess að eigendur HS Orku, sem einkavædd var árið 2008, hefðu greitt sér 33 milljarða í arð á síðustu sex árum.
Þótt náttúruöflin varpi nú ljósi á vankanta einkareksturs á innviðum og grunnþjónustu dregur Sjálfstæðisflokkurinn þá ályktun að einkavæðing sé brýnasta mál samtímans. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra fór mikinn í fjölmiðlum og boðaði sölu Póstsins og ÁTVR og kvað sérstakt „forgangsatriði“ að selja Íslandsbanka.
Rétt eins og kollegar þeirra í Bretlandi leiða íslenskir íhaldsmenn hjá sér rök og reynslu er þeir ganga nú af göflunum. Hyggist Bjarni leita skýringa á brostnum innviðum hjá litlum hópi hælisleitenda er ólíklegt að hann finni þær. Þótt Þórdís trúi því að aðeins sala á ríkiseignum geti styrkt grunnstoðir samfélagsins benda atburðir síðustu vikna á Reykjanesi ekki til þess að einkavæðing sé sjálfkrafa allra meina bót.
Fylgistap virðist fara íslenskum hægrimönnum jafnilla og það fer breskum.
B, kv. góp.
BjarNa á Hraunið.
Frábær grein Sif.