Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Óttast mismunun í Grindavík —„Munum tapa nokkrum milljónum á þessu“

Grind­vík­ing­ar styðja al­mennt til­gang frum­varps um upp­kaup rík­is­ins á hús­næði þeirra en eru veru­lega ósátt­ir við marg­ar þeirra leiða sem stjórn­völd vilja fara. Þau ætli sér að pikka út „eitt og eitt hús“ og því sé „óánægj­an al­gjör“. 1.120 heim­ili eru í Grinda­vík. Rík­ið met­ur um­fang upp­kaup­anna sem stefnt er að á 61 millj­arð króna.

Óttast mismunun í Grindavík —„Munum tapa nokkrum milljónum á þessu“
Hamfarir Grindvíkingar segja að þeir geti ekki keypt sambærilegar eignir á t.d. höfuðborgarsvæðinu og þeir áttu í Grindavík. Ríkið bjóði þeim 95 prósent af brunabótamati fasteigna sem sé oft langt undir raunverulegu verðmæti eiganna. Sprunguhreyfingar, hætta á hraunrennsli og fleira hefur orðið til þess að ekki er óhætt að búa í Grindavík á næstunni. Mynd: Golli

Á föstudag birtu stjórnvöld frumvarpsdrög í samráðsgátt um hvernig ríkið ætlar að koma til móts við Grindvíkinga með kaupum á íbúðarhúsnæði þeirra. Afar skammur umsagnartími var gefinn, frestur til að skila slíkum rennur út í dag. 

Alls eru 1.120 heimili í Grindavík og íbúar sveitarfélagsins eru um 3.700 talsins. Þetta fólk getur ekki búið í heimilum sínum. Í frumvarpinu er rakið af hverju. Þar segir að jarðhræringar og skjálftar hafa valdið miklum skemmdum á húsum og innviðum í Grindavík. „Sprungur hafa opnast víða í bænum og hefur það þegar valdið hörmulegum mannskaða. Eldri sprungur undir bænum sem vitað var af en voru taldar hafa verið stöðugar í árhundruð hafa nú gliðnað mikið samhliða því að nýjar sprungur hafa myndast víða um svæðið. Verið er að kortleggja jarðveginn og undirlag gatnanna í bænum með sérstakri jarðsjá vegna þessa en verkinu hefur miðað hægt vegna illviðra og erfiðra aðstæðna að undanförnu.“

Atburðirnir hafa valdið því að veggir og gólf margra húsa í bænum hafa þegar sprungið og sigið þannig að þau teljast hafa orðið fyrir altjóni eða mjög verulegum skemmdum. Hitaveitulögn til bæjarins hefur auk þess eyðilagst og er nú notast við lögn sem liggur undir nýrunnu hrauni og óvíst er um hversu lengi hún endist. Stofnstrengur rafmagns frá orkuverinu í Svartsengi skemmdist í hraunrennslinu og var bráðabirgðastrengur hengdur yfir hraunið. 

Hitaveitulagnir í bænum eru mikið laskaðar og leka mikið þannig að þrýstingur er lítill og ekkert kalt neysluvatn er til staðar þar sem stofnlögnin eyðilagðist undir hrauni og dreifikerfið er einnig talið vera laskað. Einnig eru skólp- og frárennslislagnir, bæði frá húsum og götum, víða skemmdar. Rúmlega 200 hús hafa verið án hitaveitu en flest þeirra í staðinn verið hituð með rafmagni. Víða eru ennþá opnir skurðir þar sem unnið er að viðgerðum og mikið af sprungum sem ekki er búið að fylla í og loka.

Samandregið þá er ekki hægt að búa í Grindavík. Og við því þarf að bregðast. 

Meta umfangið á 61 milljarð

Með frumvarpinu ætla stjórnvöld, í gegnum nýtt félag í eigu ríkisins sem á að kallast Fasteignafélagið Þórkatla, að bjóðast til að kaupa húsnæði af íbúum. Miðað verður við að greitt verði 95 prósent af brunabótamati, sem heilt yfir en alls ekki í öllum tilvikum er hærra en fasteignamat í Grindavík, að frádregnum veðskuldum. Fyrir þann sem á húsnæði sem er með brunabótamat upp á 60 milljónir króna en skuldar 30 milljónir króna í því þýðir það að félagið myndi borga 28,5 milljónir króna út fyrir eignina. 

„Þetta er ekki boðlegt!“
Grindvíkingur um frumvarp stjórnvalda

Allt í allt gerir frumvarpið ráð fyrir að umfang aðgerðanna sé um 61 milljarð króna, sem er fjórum milljörðum króna undir brunabótamati þeirra íbúða sem frumvarpið á að ná til. Það verður þó ekki kostnaður ríkissjóðs. Hann verður mun minni.

Veðsetningarhlutfall fasteigna er að meðaltali í lægri kantinum í íbúðarhúsnæði í Grindavík þótt breytileikinn í því sé vissulega talsverður eins og víða annars staðar. Engu að síður nemur veðsetningin verulegri fjárhæð, eða sem nemur um 23 milljörðum króna. Þeim lánum verður breytt í sambankalán til Þórkötlu. Af þeirri upphæð sem stendur eftir, alls 38 milljörðum króna, munu allt að 15 milljarðar króna koma úr sjóðum Náttúruhamfaratrygginga Íslands, en eignasafn hans án endurtrygginga nemur tæplega 60 milljörðum króna. Það samanstendur að mestu af verðbréfasöfnum sem eru í ávöxtun hjá fjársýsluaðilum og eiga að vera fremur auðinnleysanleg.

Endurtryggingasamningarnir eru svo við 25 erlend tryggingafélög sem virkjast þegar bótaskylt tjón fer umfram tíu milljarða króna. Kostnaður við slíkar endurtryggingar nemur rúmlega 900 milljónum króna fyrir árið 2024 en til samanburðar námu árleg iðgjöld í sjóðinn rúmlega 4,7 milljörðum króna. fyrir árið 2023. Greiðslur samkvæmt þessum samningum geta mest numið um 45 milljörðum króna. Í greinargerð frumvarpsins segir að greiðslugeta Náttúruhamfaratrygginga gæti því að hámarki verið nálægt 100 milljörðum króna, miðað við að sjóður stofnunarinnar yrði tæmdur algerlega og að skilyrði væru til að draga að fullu á allar endurtryggingar. 

Svigrúm í varasjóði

Ef 15 milljarðar króna koma úr sjóðum Náttúruhamfaratrygginga þá standa 23 milljarðar króna eftir sem þurfa að koma beint úr ríkissjóði. Samkvæmt gildandi fjárlögum nema framlög þaðan í almennan varasjóð ríkisins 45 milljörðum króna í ár. Þar af eru um 20 milljarðar króna eyrnamerktir launahækkunum vegna kjarasamninga, sem þó liggja ekki fyrir. Það sem eftir stendur, um 25 milljarðar króna, dugar því fyrir viðbótarframlagi ríkissjóðs í verkefnið. 

„Í frumvarpinu felst mismunun og jafnræðis er ekki gætt“
Grindvíkingur um frumvarpsdrög stjórnvalda

Til að setja þessa tölu í samhengi þá er hún mun lægri en sú upphæð sem ríkið greiddi til að mynda í Leiðréttinguna fyrir nokkrum árum. Hún kostaði 72,2 milljarða króna, fór að mestu til tekju- og eignarmeiri hópa landsmanna, og var mun hærra hlutfall af landsframleiðslu ársins 2014 en þeir fjármunir sem þarf til að hjálpa Grindvíkingum. Á núvirði nemur sú upphæð yfir 100 milljörðum króna. 

Nær óteljandi spurningar

Þegar þetta er skrifað hafa borist 240 umsagnir um frumvarpið, nær allar frá íbúum í Grindavík. Það fólk sér enda fram á að þurfa að koma undir sig fótunum að nýju í öðru sveitarfélagi og búa sér til nýjan veruleika. Nefna má að meðal fasteignamat á íbúðareign í Reykjavík í ár er 26 prósent hærra en í Grindavík. Þeir sem ætla sér að setjast að í höfuðborginni þurfa því mörg hver að finna umtalsvert viðbótar eigið fé til að geta verið samkeppnishæf um húsnæði þar. 

Þær eru nær óteljandi spurningarnar sem brenna á Grindvíkingum og koma fram í athugasemdum þeirra á frumvarpsdrög stjórnvalda á uppkaupum eigna í bænum. Þau styðja flest tilgang frumvarpsins heilshugar en hafa miklar áhyggjur af ýmsum þeim forsendum og lausum endum sem þau telja að í því sé að finna.

„Mismunun“ segja margir. „Þetta er galið“ segja aðrir. „Þetta er ekki boðlegt,“ segja svo sumir. Fólk sem hefur nýverið lagt mikinn kostnað í endurbætur á eignum sínum er til að mynda verulega ósátt við forsendurnar og spyr: Hví ekki að fá matsmenn til að meta hverja eign?

Af hverju ekki að miða við 100 prósent brunabótamat eða 100 prósent fasteignamat, eftir því hvort er hærra?

SprungusvæðiHættulegt er að dvelja í Grindavík um þessar mundir. Miklar sprungur hafa opnast og oft eru þær ekki sjáanlegar á yfirborði.

Margir hafa miklar áhyggjur af lántöku í því ástandi sem nú ríkir í efnahagsmálum og finnst skjóta skökku við að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti flutt hagstæð lán með sér á nýja eign. „Það er gríðarlega óhagstætt að taka ný lán núna, ég myndi vilja færa lánið mitt á aðra eign. Mun það ekki standa til boða?“ spyr Rakel Lilja Halldórsdóttir og margir lýsa sömu skoðun.

Kristín Karlsdóttir er sama sinnis og vill að hægt verði að flytja lán yfir á aðra eign. „Þetta er ekki boðlegt!“

Helga Dís Jakobsdóttir hefur margt út á drögin að setja og segir það „óásættanlegt“ að ekki sé gert ráð fyrir veðflutningi á lánum. „Margir hverjir eru með hagstæð og góð lán og það að fara í greiðslumat núna og með þeim tilkostnaði er ekki ásættanlegt.“

Vilja viðmiðunarmörkin upp í 110-115 prósent

„Ég vil að athuguðu máli leggja til að allir sem eiga húseign í Grindavík fái 100% af brunabótamati og geri það í ljósi þess að bankarnir eru komnir í spilið munu fá allt sitt upp í topp og það sama á að gilda um okkur íbúa Grindavíkur sem erum í sárum eftir hamfarirnar sem enn standa yfir,“ segir Alda Snæbjörnsdóttir.

Ellen María Þórsdóttir segir að brunabótamatið á hennar eign sé mun lægra en það verð sem hún keypti hana á töluvert lægra en fasteignamatið. „Munum tapa nokkrum milljónum á þessu og eigum þá ekki möguleika á að kaupa aftur.“

Hafdís Pálrún Gunnarsdóttir skorar á stjórnvöld að hækka viðmiðunarmörkin í 110-115 prósent af brunabótamati enda sé lóð t.d. ekki inni í slíku mati. „Í frumvarpinu felst mismunun og jafnræðis er ekki gætt.“

MismununEkki er gætt jafnræðis í ýmsum greinum frumvarpsdraganna. Þannig verður Grindvíkingum mismunað á ýmsan veg, verði frumvarpið að lögum, segja þeir margir.

Hilmar Þór Halldórsson segir að með því fyrirkomulagi sem stjórnvöld kynni í frumvarpsdrögunum hvað varðar viðmiðun við brunabótamat eigi hann eftir að tapa nokkrum milljónum. „Þetta er algjörlega galið.“ 

Páll Þorbjörnsson fasteignasali segir mikilvægt að gæta jafnræðis og valið sé á milli brunabótamats og fasteignamats hvort sem er hærra. Fasteignamat gefi 90-95% af raunvirði fasteignar en geti samt verið um 20-25% hærra í nýlegum fullgerðum eignum en brunabótamatið sem á fasteigninni er, „sem er í raun óskiljanlegt“.

Dagbjört Nína Þjóðólfsdóttir spyr um stuðning við stórar fjölskyldur þar sem fyrirvinnan sé aðeins ein. „Hvernig eiga þær að komast í gegnum greiðslumat á eign sem kostar þrisvar sinnum það sem þú fengir - og að fá eign sem samsvarar eigninni í Grindavík?“

Sævar Örn Eiríksson bendir svo á að í frumvarpið vanti ákvæði um að Grindvíkingum bjóðist kaup á nýju húsnæði fyrir 95 prósent af brunabótamati þess.

Vignir Hrannar Vignisson segir brunabótamat sjaldan endurspegla raunvirði eignarinnar og spyr hvort ekki væri eðlilegra að fá sérstaka matsmenn til að uppfæra fasteignamatið.

„Hvað með unga fólkið sem átti ekki efni á því að flytja í eignina sína og var því að leigja hana út, þurfum við bara að byrja á 0 punkt og fáum ekkert?“
Ungur Grindvíkingur um frumvarpsdrögin

„Í dag er ég með íbúð í bílskúr, tvo palla á eigninni, eina geymslu, einn skúr og einn garðskála og ekkert af þessu er tekið með inn í reikninginn á virði eignarinnar, ekki frekar en hellulagða innkeyrslan hjá mér þegar ég stækkaði bílastæðið hjá mér fyrir  fjórum árum síðan.“

Leggur til sérstök aðstoðarlán

„Þar sem verulegur munur er á fasteignaverði í Grindavík og á höfuðborgarsvæðinu þá ætti ríkið að bæta við þessa hugmynd möguleika á aðstoðarlánum vegna náttúruhamfara,“ leggur Guðrún Vilborg Eyjólfsdóttir til. „Þannig er hægt að grípa eignaminni fjölskyldur, fólk sem bjó í Búseta-eignum og mun þurfa að greiða hærri stofn til að komast í nýtt búseta úrræði eða kaupa eign, fólk sem er þegar búið að eyða sínum séreignasparnaði í útborgun á húsnæði í Grindavík og öllum þeim heimilum sem hafa orðið fyrir verulegum fjárhagsskaða og þurft að éta upp alla varasjóði, ef þeir voru þá til, vegna alls sem á undan er gengið.“

„Er það bara tapað fé?“

Magnús Ingi Hannesson er í stórum hópi þeirra sem gera athugasemd við að eigandi þurfi að hafa skráð lögheimili í eigninni þann 10. nóvember samkvæmt drögunum. Þessu þurfi að breyta og heimila t.d. að börn eða foreldri eiganda hafi verið skráð í húsnæðinu á þessum tíma.

Ásta Björk Hermannsdóttir er uggandi yfir þessu. Dóttir hennar bjó í íbúðinni hennar sem var því í útleigu þann 10. nóvember. „Er það bara tapað fé?“

Aðalsteinn Már Pétursson er á svipuðum nótum í sinni umsögn. „Hvað með unga fólkið sem átti ekki efni á því að flytja í eignina sína og var því að leigja hana út, þurfum við bara að byrja á 0 punkt og fáum ekkert?“

„Þvílíka misréttið!“ segir Kristín Karlsdóttir. „Hvað með þá sem eiga eina eign og ekkert annað en voru að leigja hana út og því ekki með lögheimili þar 10. nóvember? Fá þeir ekki í íbúðina sína borgaða út? Hvar er öryggið þeirra?“

Jenný Lovísa Árnadóttir segir ekki hægt að mismuna íbúum með þessum hætti. Eiga þeir sem voru með eignir sínar í útleigu „bara að missa aleiguna sína því þeir voru ekki með lögheimili í eigninni?“

Tapa milljón á „hjálpinni“

Freyr Gunnarsson spyr um stöðu lögaðila sem eiga húsnæði í Grindavík. „Ég er búinn að eyða gríðarlegum peningum og tíma í uppgerð á húsnæði sem verður þá núna einskis virði.“

Thelma Sif Stefánsdóttir spyr hvort ekki eigi að skoða stöðu fólk sem var nýbúið að kaupa fyrstu sína fyrstu eign og nýta til þess sérstök lánaréttindi. „Það voru innan við sex mánuðir frá þinglýsingu og þangað til rýming átti sér stað,“ segir hún um sína stöðu. „Á þeim tíma var öll eignin gerð upp með tilfallandi kostnaði.“ 

Nú sé staðan sú að þau þurfi að kaupa eign á hefðbundnum kjörum, „en hvernig eigum við að gera það þegar við fáum ekki einu sinni það sem við lögðum í útborgun til baka?“ Hvernig getur það verið, spyr hún, „að við töpum yfir milljón á því að þið „hjálpið“ okkur og kaupið okkur út?“ 

Guðlaugur Kristbjörnsson skrifar einfaldlega: „MISMUNUN“ í hástöfum. Hann segir að kaupa ætti allt íbúðarhúsnæði upp, óháð búsetu og hvort það sé í eigu einstaklinga eða lögaðila.

„Ég tók aukahamfaratryggingu“

Alda Snæbjörnsdóttir er líkt og fleiri að velta fyrir sér stöðu þeirra sem eiga ónýta eign í Grindavík, eign sem búið er að dæma altjón á eftir hamfarirnar. Skilmálar þeirra uppgreiðslna séu aðrir og lægri en 95 prósent af brunabótamati. „Sitja eigendur húsa sem búið er að dæma altjón á ekki við sama borð og aðrir fasteignaeigendur í Grindavík?“ 

Þórarinn Kristjánsson spyr hvort ekki gefist tækifæri til að fá endurmat á brunabótamati. Hann eigi tæplega 200 fermetra einbýlishús. Brunabótamatið sé um 60 milljónir en virði þess líklega í kringum 80. „Ég tók aukahamfaratryggingu hjá Sjóvá upp að 80 milljónir til að brúa bilið. Verður tekið mið af því við uppkaupin?“

Hann er langt í frá sá eini sem veltir einmitt þessu fyrir sér og er bent á að fulltrúi Náttúruhamfaratrygginga hafi ráðlagt fólki að kaupa viðbótartrygginguna.

„Hvað breyttist hjá stjórnvöldum?“

„Það er óeðlilegt að gera ráð fyrir því að fasteignaeigendur taki á sig afföll og kostnað en veðhafar fái sitt greitt að fullu,“ segir Þorsteinn Valur Baldvinsson. „Það hlýtur að teljast sanngirnis og jafnræðiskrafa að báðir aðila taki á sig til samræmis við eignarhluta, afföll og kostnað vegna tjóns.

Það verður aldrei sátt ef veðhafar fá allt sitt en almenningur beri tjónið óskipt og að öllu leyti.

Slík málsmeðferð er gróf mismunun og varla í samræmi við stjórnarskrá.“

Eigendur Hótel Grindavíkur spyrja hvað hafi eiginlega breyst í málflutningi stjórnvalda. Í upphafi hafi verið rætt um að borga alla Grindvíkinga út en samkvæmt frumvarpinu eigi að pikka út „eitt og eitt hús“ og því sé „óánægjan algjör“.

Svo eru það þeir sem spyrja um stöðu þeirra sem vilja ekki að ríkið kaupi eignir þeirra. „Hvernig verður tekið á þeim einstaklingum sem ekki vilja ganga að þessum möguleika að fá eigið fé greitt út úr fasteigninni sinni, heldur eiga sína fasteign áfram,“ spyr Dóróthea Jónsdóttir. „Verður áfram boðið uppá leiguskjól fyrir þær fjölskyldur?“

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Reykjaneseldar

„Yfirgnæfandi líkur“ á eldgosi á næstu þremur dögum
FréttirReykjaneseldar

„Yf­ir­gnæf­andi lík­ur“ á eld­gosi á næstu þrem­ur dög­um

Þor­vald­ur Þórð­ar­son eld­fjalla­fræð­ing­ur seg­ir yf­ir­gnæf­andi lík­ur á að það byrji að gjósa á Reykja­nesskaga á næstu tveim­ur dög­um. Hann seg­ir að flest bendi til þess að „þak­ið muni rofna á svip­uð­um slóð­um og áð­ur“. Hann tel­ur því ekki hættu á að það byrji inn­an Grinda­vík­ur þó að hraun geti flætt þang­að.
Hraunið gæti flætt yfir fjarskiptastöð Bandaríkjaflota
FréttirReykjaneseldar

Hraun­ið gæti flætt yf­ir fjar­skipta­stöð Banda­ríkja­flota

Bene­dikt G. Ófeigs­son, jarð­eðl­is­fræð­ing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veð­ur­stofu Ís­lands, seg­ir gríð­ar­legt magn hrauns flæða úr sprung­unni sem opn­að­ist nærri Sund­hnúk­um norð­an við Grinda­vík í dag. Dragi ekki úr flæð­inu gæti flaum­ur­inn flætt að varn­ar­görð­un­um vest­an við Grinda­vík og að fjar­skipta­stöð banda­ríska flot­ans sem stað­sett ná­lægt Grinda­vík.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár